1. kafliÞórður hét maður son Hörða-Kára, mikill að virðingu. Hann var höfðingi yfir þeim héruðum er honum voru nálæg. Hann var hersir að nafnbót en jörlum var hann framar að mörgum hlutum. Hann hafði fengið göfugt kvonfang. Hann átti við húsfreyju sinni þrjá sonu og eina dóttur. Hét hinn elsti Steingrímur, annar Klyppur, þriðji Eyjólfur en dóttir Sigríður. Öll voru börn þeirra mannvænleg. Klyppur var þó fyrir þeim bræðrum. Allir voru þeir miklir menn og furðulega sterkir, vænir og stórmannlegir sem þeir áttu kyn til. Sigríður systir þeirra var allra kvenna vænust og ofláti mikill og skapstór. Hún var allra kvenna högust þeirra er þar óxu upp henni samtíða.
Og sem þeir bræður voru nær fulltíða menn tók Þórður faðir þeirra sótt og andaðist og var útferð hans vegleg ger eftir fornum sið. Og er erfið var drukkið fæddi húsfreyja Þórðar sveinbarn, bæði mikið og frítt. Því var nafn gefið og vildi húsfreyja að Þórður héti eftir föður sínum, kveðst það hyggja að verða mundi mikilmenni ef í ætt brygði. Og er Þórður óx upp var hann mikill og sterkur, vænn og stórmannlegur, harðger, óvæginn við alla þá sem honum var lítt við en vinsæll við alþýðu. Hann var mildur af fé og blíður viðmælis, vinfastur. Hann var gleðimaður mikill og manna fimastur við alla leika. Syndur var hann hverjum manni betur og skáld gott.
Í þann tíma réðu Gunnhildarsynir ríki í Noregi er þetta var tíðinda. Og er Þórður óx upp fýsti hann til hirðar Gamla konungs Gunnhildarsonar er allra manna var vinsælastur í Noregi af öllum konungum þegar leið Hákon Aðalsteinsfóstra. Þá var Þórður tólf vetra er hann réðst til hirðar Gamla konungs og virðist konunginum hann afbragðsmaður um allt það sem hann skyldi reyna og var með honum þrjá vetur. Gekk hann jafnan fyrir konunginum í hverjum háska eða mannhættu þegar konungurinn var í bardögum og fékk hann því mikla virðing og metnað. Var hann af slíku víðfrægur.
Og er Þórður hafði verið þrjá vetur með Gamla konungi sagði hann konungi að hann fýstist að vitja eigna sinna.
Konungur mælti: "Góða fylgd hefir þú oss veitta og mikils háttar maður muntu verða."
Konungur spretti af sér saxi er hann var vanur að bera daglega og mælti til Þórðar: "Hér er eitt sax er eg vil gefa þér og eg hygg að gifta muni fylgja. Þar með skal fylgja vinátta mín."
Þórður þakkaði honum þenna sóma og allan annan er hann gerði til hans.
Konungur mælti: "Þess bið eg að þú gefir engum manni eða lógir nema þú eigir höfuð þitt að leysa. Er og eigi ólíklegt að þess munir þú og við þurfa."
Þá svarar Þórður: "Eg ætla mér herra ekki álengdar frá yður að vera meðan eg á kost yður að fylgja."
Þá segir konungur: "Það mun eigi vera því að við munum aldrei sjást síðan við skiljum nú."
Þórður varð fár við orð konungs og svaraði engu og tók síðan orlof af konunginum og fór heim til búa sinna og urðu frændur hans honum fegnir. Hafði Klyppur bróðir hans tekið undir sig allar eignir þeirra bræðra og gerst höfðingi yfir þeim héruðum sem faðir þeirra var áður yfir skipaður. Var hann og hersir að nafnbót.
En litlum tíma síðar en Þórður fór í burt frá Gamla konungi börðust þeir Hákon konungur hinn góði og Gamli konungur og í þeirri orustu féll Gamli konungur sem segir í sögum Noregskonunga.
Sigurður konungur slefa Gunnhildarson var óeirðarmaður mikill um kvennafar. Hann lagði í rekkju hjá sér Ólöfu dóttur Skeggja á Yrjum. Hún var húsfreyja Klypps hersis Þórðarsonar. Þórður eggjar Klypp bróður sinn til hefnda oftlega.
Og einn tíma kom Þórður að máli við bróður sinn og mælti: "Hverninn er þetta? Hvort viltu ekki reka þá svívirðing af höndum þér sem á liggur við Sigurð konung og verða svo að undri og hafa hvers manns ámæli og þykja aldrei mega heita slíkur maður sem þínir fyrri frændur ef skalt sitja Sigurði konungi þvílíka vanvirðing að hann leggi í rekkju hjá sér þína eiginkonu svo að þú leitar eigi til hefnda? Þó að við nokkurn liðsmun sé að eiga þá er betra að láta líf sitt við sæmd ef þess verður auðið heldur en þola aðgerðalaust þvílíka vanvirðing. Vil eg bjóðast til ferðar með þér og vér allir bræður heldur en þola lengur svo að vér leitum eigi til nokkurra hefnda með þér hversu sem takast vill."
Þá svarar Klyppur: "Satt segir það bróðir að nóg væri nauðsyn að reka þessar vanvirðingar ef færi gæfi á og fullfús em eg til að hefna honum minnar vanvirðingar."
Eftir viðurtal þeirra bræðra gera þeir allir bræður heiman ferð sína með mikinn flokk manna og stefna á Upplönd þangað sem þeir spurðu að Sigurður konungur var á veislu. Og er þeir komu á þann bæ sem konungur var fyrir og sat yfir drykkjuborðum skipa þeir bræður sínum mönnum til inngöngu. Bað Þórður að sá skyldi fyrstur út ganga er síðast gekk inn. Skal Klyppur ganga fyrstur inn, þar næst Þórður, þá Steingrímur, þá Eyjólfur, síðan hver sem skipað var. Allir höfðu þeir alvæpni með hjálmum og skjöldum og brugðnum sverðum.
Og er Klyppur hersir kom fyrir Sigurð konung reiðir hann upp sverðið og höggur konung í höfuðið og klauf hann í herðar niður. Hné hann dauður á borðið fram. Eftir þetta snúa þeir bræður utar eftir höllinni. Og í því heyrði Þórður brest á bak sér aftur og sér hann að Klyppur bróðir hans var högginn banahögg. Það gerði sá maður er hét Hróaldur Ögmundarson Hörða-Kárasonar. Hann var náskyldur þeim Þórðarsonum. Hann stóð fyrir konungsborðinu er þeir komu inn og því vöruðust þeir hann ekki. Þann mann vó hann annan er hét Ögmundur og var Valþjófsson. Og er Þórður sá fall bróður síns hjó hann til hans Hróalds og sneið hann í sundur fyrir ofan mjaðmirnar. Síðan hlupu menn upp um alla stofuna og brugðu vopnum og veittu þeim bræðrum mikla atsókn en þeir vörðust vel og hreystimannlega. Neytir Þórður þá vel saxins er Gamli konungur hafði gefið honum og varð margs manns bani áður en hann komst út. Fór þar sem jafnan ef menn missa skjótlega sinna höfðingja að flestum verður bilt eftir að sækja sínum óvinum og fór þar og svo og fóru þeir bræður heim til búa sinna.
Þessi tíðindi fréttir Haraldur konungur skjótlega, fall Sigurðar konungs bróður síns, og ætlar að gera menn til þeirra bræðra og láta drepa þá. Þá var konungurinn norður í landi og því varð seinna gert til þeirra en ella mundi. Stefndi hann þing og lét gera þá bræður útlaga fyrir endilangan Noreg en kastaði sinni eign á þeirra eignir.
2. kafliNú er frá því að segja að þeir bræður komu heim og sögðu fall Sigurðar konungs og Klypps bróður síns.
Þá kvað Þórður vísu:
- Eg segi víg þau er vógu
- virðendr þrimu girðis,
- Klyppr rauð brand í blóði
- burs, Hildar, Gunnhildar.
- Þá féll, hjálms, í höllu,
- hlaut Klyppr bana af Gauti.
- Þar vó eg þolla fjóra
- þremja lax með saxi.
Þóttust þeir bræður nú vita að þeir mundu eigi mega haldast við innanlands fyrir ríki Haralds konungs og Gunnhildar. Frændur þeirra og vinir fýstu þá að selja jarðir sínar til lausafjár og lögðu það til að Þórður skyldi leita til Íslands, sögðu þangað mart stórmenni komið og hafa landflótta orðið fyrir Noregskonungum.
Þá svarar Þórður: "Ekki hafði eg ætlað að flýja óðul mín. En með því að margir göfgir menn hafa sér þetta látið nægja að byggja Ísland þá má vera að slíkt nokkuð liggi fyrir."
Síðan bjóst Þórður til Íslandsferðar og með honum bræður hans, Steingrímur og Eyjólfur, og Sigríður systir hans. Þau höfðu of lausafjár. Hann hafði nítján menn á skipi með sér. Síðan lét hann í haf. Það var öndvert sumar. Þeir voru mánuð í hafi og komu við Vestmannaeyjar og sigldu svo vestur fyrir landið og svo norður fyrir Strandir og lögðu þar inn á flóann og nær hinu nyrðra landinu og sigldu inn í einn fjörð og tóku þar land nær veturnóttum. Skjótt komu menn til þeirra. Þeir spurðu hvað fjörður sá héti er þeir voru að komnir. Þeim var sagt að þeir voru komnir í Miðfjörð. Þeir lentu í Miðfjarðarósi. Þá var Miðfjörður albyggður.
Skeggi bjó að Reykjum er kallaður var Miðfjarðar-Skeggi. Hann var son Skinna-Bjarnar. Því var hann Skinna-Björn kallaður að hann var vanur að sigla í Austurveg kaupferð og færa þaðan gráskinn, bjór og safala. Skeggi var garpur mikill og einvígismaður. Hann var lengi í víkingu. Og eitthvert sinn kom hann við Danmörk og fór til Hleiðrar þangað sem haugur Hrólfs konungs kraka var og braut hauginn og tók á braut sverðið Hrólfs konungs, Sköfnung, er best sverð hefir komið til Íslands og öxina er Hjalti hafði átt hinn hugprúði. En hann náði eigi Laufa af Böðvari bjarka því að hann fékk hvergi sveigt hans armleggi. Síðan bar Skeggi Sköfnung. Miðfjarðar-Skeggi var höfðingi mikill og auðigur. Hann var frændstór. Allir Miðfirðingar héldu hann fyrir höfðingja. Hafði Björn faðir hans numið allan Miðfjörð. Var hann goðorðsmaður yfir Miðfirði og víða annars staðar.
Eyjólfur hét góður bóndi. Hann bjó að Ósi og var ríkur maður. Annar bóndi er nefndur Þorkell. Hann bjó á þeim bæ er á Söndum heitir fyrir vestan fjörðinn gegnt Ósi. Hann var lítilmenni en auðigur að peningum og vinur Skeggja að Reykjum. Þorkell hafði boðið Skeggja barnfóstur og var Eiður son Skeggja að fóstri á Söndum í þann tíma er Þórður kom í Miðfjörð.
Eyjólfur bóndi frá Ósi kom fyrstur manna til kaupmanna. Hann hafði tal við kaupmenn. Þórður spurði hví bændur mundu svo seinir til skips. Eyjólfur kvað það vana að Skeggi kæmi jafnan fyrstur til skips og tæki það af varningi sem honum líkaði, svo tæki hann og það af kaupmönnum til sín sem hann vildi til vistar.
Þórður kvað mikið um ríkilæti hans "og er mér hitt sagt hér landsmanna vani að finna kaupmenn af hafi komna og frétta tíðinda."
Eyjólfur svarar: "Förum við til fundar við Skeggja og mun hann vel fagna þvílíkum manni sem þú ert."
Þórður segir: "Heima mun eg vera við skip mitt og bíða svo þess er að höndum kemur."
Þá mælti Eyjólfur: "Eg mun fara að finna Skeggja og segja honum skipkomuna."
Þórður segir: "Muntu eigi gera sem þér líkar?"
Síðan skildu þeir. Fór Eyjólfur til Reykja að finna Skeggja og sagði honum skipkomuna og svo hver stýrimaður var.
Skeggi kveðst gjörla kenna Þórð og hans foreldra, kvað hann gegnan mann "og hefir ekki komið hingað til lands fyrri göfgari maður né fremri" og lét vel yfir honum.
Eyjólfur bað Skeggja ríða til skips og kjósa af kaupmönnum heim til sín.
Skeggi segir: "Jafnan hefi eg raun af því að þér unnið mér sæmdar af öllum hlutum. En nú vil eg unna yður einn tíma þeirrar virðingar að kjósa það af kaupmönnum sem þér viljið því að engan vil eg til mín taka af þessum skipverjum. En það ræð eg þér að þú heitir því einu Þórði að þú efnir vel því að lítið mun honum fyrir þykja að láta einn hvern til jarðar hníga ef honum rís við."
Síðan skildu þeir. Reið Eyjólfur til skips og fann stýrimann og sagði Þórði tal þeirra Skeggja.
Þórður segir: "Besta fer þér. En sjá þykist eg í slíku að Skeggi vill ýfast við mér. Þykir mér og meiri von að lítið tillæti veiti eg honum."
Eyjólfur mælti: "Það væri minn vilji að við fyndum Skeggja."
Þórður segir: "Hvergi mun eg fara. En með því að Skeggi vill engan kaupmann til sín taka að sitji á aðra hönd í vetur þá fæði hann strúg sinn á aðra hönd sér meðan honum líkar."
Eyjólfur bauð Þórði til veturvistar með sér heim til Óss en bað hann vista kaupmenn sína þar um fjörðinn. Þórður þakkaði honum boð sitt en kveðst eigi vilja með honum vist hafa. Þórður beiddist að Eyjólfur seldi honum á leigu landið um veturinn og það gerði Eyjólfur. En hann fór byggðum á Torfustaði því að hann átti þar annað bú en Þórður tók við búi að Ósi. Síðan lét hann flytja heim farm allan en réð skipinu til hlunns. Með Þórði fóru heim bræður hans og systir og allir skipverjar. Situr Þórður um kyrrt þann vetur.
Ekki lét Skeggi til sín taka. Mælast þeir Þórður ekki við þó að þeir finnist. Eigi lætur Skeggi sem hann viti um kaup þeirra Þórðar og Eyjólfs eða breytni. Þórður hafði fjölmennt og var hinn mesti gleðimaður og svo voru þeir allir bræður. Þórður varð skjótt vinsæll af héraðsmönnum. Heldur líkaði Skeggja það lítt, þótti líklegt að hann mundi vilja gerast höfðingi yfir Miðfirði. Og því öfundaði hann Þórð að hann var harðlyndur og þoldi eigi að aðrir væru látnir jafnfram honum. Þeir höfðu leika um veturinn og voru þeir bræður að leikum og voru þeir engir að jafnbyðu Þórði um allan fimleik og afl.
Þórður var umsýslumaður mikill og hinn mesti þjóðsmiður. Um veturinn reisti Þórður ferju niðri við Miðfjarðarós og var þar löngum um dagana. Ætlaði hann að ferjan skyldi ganga til Stranda að vori til fangs. Leið svo fram til jóla.
Og er kom að jólum sendi Skeggi mann til Þorkels á Sanda og bauð honum til jólaveislu og húsfreyju hans. Bað hann og að sveinninn Eiður skyldi fara með þeim. Hann var þá ungur og þó nokkuð á legg kominn. Síðan bjuggust þau heiman af Söndum aðfangadag fyrir jól og með þeim sveinninn Eiður. Svo var veðri farið að gerði á þey með regni en Miðfjarðará ófær og tók að leysa ána köflum hið efra en við fjörðinn var fært með skip.
Og er Þorkell setti fram skipið kallaði Þórður á hann og mælti: "Ófær, áin maður," segir hann.
Þorkell segir: "Gættu smíðar þinnar, eg mun ferðar minnar."
Réð Þorkell nú til árinnar. Voru þau þrjú á skipinu. Og er þau komu á megin árinnar leysti sem óðast ána og fórst þeim seint. Rak þau nú eftir ánni fyrir ísinum og straumi og eigi létti fyrr en hvelfdi skipinu. Höfðu þau kaffarar og hélt við drukknan. En með því að þeim var lengra lífs auðið kom Þorkell þeim á kjöl. Rak nú skipið til sjávar og gegnt því sem Þórður var að smíðinni og Steingrímur bróðir hans hjá honum. Þá kallaði Þorkell á hann Þórð til bjargar þeim.
Þórður segir: "Eg mun gæta smíðar minnar en þú ferðar þinnar."
Þá mælti Steingrímur: "Ger vel bróðir minn og hjálpa mönnunum því að nú liggur líf þeirra við og sýn mennt þína."
Þórður kastar þá hinum ystum klæðum. Síðan kastar hann sér til sunds og leggst út til skipsins og varð hann að brjóta ísinn og hrinda frá sér ýmsa vega. Og er hann kom að bátinum tók hann fyrst sveininn Eið og lagði í millum herða sér og knýtti þar að utan einu snæri og leggst til lands með hann og bað Steingrím bróður sinn hjálpa við sveininum svo að honum ornaði því að honum var kalt orðið. Síðan leitar hann út til skipsins og tók konu Þorkels, og var hún mjög dösuð, og flutti hann hana til lands. Hið þriðja sinn leggst hann til skipsins og flytur Þorkel til lands og var hann að bana kominn af kulda.
Steingrímur spurði: "Hví fluttir þú sveininn fyrst?"
Þórður segir: "Flutti eg Eið fyrstan að mér segir svo hugur um að mér verði að þessum hinum unga manni mikið gagn og hann muni gefa mér líf. En því flutti eg Þorkel síðast að mér þótti hann mest mega við kuldanum enda þótti mér að honum minnstur skaði."
Síðan tók Þorkell klæðaskipti. En hann hresstist og kona hans. Eftir það fara þau hjón til Reykja en Þórður bauð Eiði heim með sér til Óss. Eiður kveðst það gjarna vilja þiggja og var þar langan tíma.
En nú er að segja frá því að Þorkell kemur til Reykja og sagði sínar eigi sléttar.
Skeggi kvað hann mikla óhamingjuför farið hafa "en látið son minn eftir hjá þeim manni sem mestur ofsamaður er," kveðst svo hugur um segja að þar mundi koma að mikið væri gefanda til að Eiður hefði þar aldrei komið til Þórðar.
En er jólin liðu fór Þorkell heim og kom um leið til Óss og bað Eið með sér fara.
Eiður segir: "Eigi mun eg með þér fara. Skaltu eigi oftar setja mér fjörráð."
"Eigi vildi eg þér heldur bana ráða en sjálfum mér," segir Þorkell.
Fór Þorkell heim og er hann úr sögunni.
3. kafliEiður var Þórði jafnan fylgjusamur enda var Þórður alltillátssamur við hann. Þórður var löngum að ferjusmíðinni niðri við ósinn og Eiður hjá honum.
Það var einn dag er Þórður var að skipssmíðinni og sveinninn Eiður hjá honum. Þórður hafði jafnan hjá sér saxið Gamlanaut og svo var enn. Eiður tók upp saxið og lék sér að.
Þetta sér Þórður og mælti: "Líst þér vel á saxið fóstri minn?"
Hann svarar: "Allvel," segir hann.
Þórður mælti: "Þá vil eg gefa þér saxið:"
Eiður mælti: "Aldrei mun eg geta launað jafngóðan grip en vináttu mína vil eg gefa þér fóstri minn og mun hún þykja lítils verð."
Þórður svarar: "Haf þú þökk fyrir fóstri minn og muntu bæði launa oft og stórum."
Síðan fóru þeir Þórður heim og sýndi Eiður saxið öllum heimamönnum og þótti allvænt um.
Litlum tíma síðar kom Eiður til Reykja að finna föður sinn.
Skeggi tók honum ekki blítt og spurði: "Hví þótti þér það fóstur betra að vera með Þórði en það fóstur er eg fékk þér með Þorkeli?"
Eiður svarar: "Allólíkt er þetta fóstur fyrir alls sakir því að Þórður er mikils háttar maður og má af honum gott hljóta en Þorkell er lítilmenni og heimskur. Hann vildi bana mér fyrir sakir óvisku og forsjáleysis en Þórður gaf mér líf og hann hefir gefið mér hinn besta grip."
Skeggi mælti: "Af umsjá Þorkels mundi það er þú fékkst líf. Mundi hann eigi heldur vilja þér bana en sjálfum sér eða konu sinni. En sjá vil eg þann grip er þú lætur svo mikillega yfir, hvort mér þykir svo mikils um vert."
Eiður sýndi honum þá saxið.
Skeggi brá saxinu og leist allvel á og mælti: "Auðséð er það að þenna grip hafa átt tignir menn og er þetta allmikil gersemi og eigi trúi eg að hann hafi þvílíkan grip, svo fágætan, þér gefið."
Þá svarar Eiður: "Eigi þykir mér þá líklegt að þú munir styrkja mig til launanna ef þú vilt eigi trúa að hann hafi gefið mér."
Skeggi mælti: "Gjarna vildi eg að þú hefðir þenna grip eigi þegið."
Eiður svarar: "Eigi líst okkur þetta einninn."
Eftir þetta fer Eiður heim til Óss og varð fátt af kveðjum með þeim feðgum í því sinni. Þórður fagnaði vel fóstra sínum og spurði eftir tali þeirra feðga. Eiður sagði allt sem farið hafði.
Þórður svarar: "Slíks var mér að von og allmjög vill faðir þinn ýfast við mér. Og svo segir mér hugur um sem fleira muni til vandræða verða með okkur föður þínum og hans frændum en sjá megi fyrir hvern enda eiga mun og muntu jafnan með miklum vanda verða í millum að ganga."
Eiður svarar: "Gott væri ef eg mætti nokkuð gott að vinna í millum ykkar."
Ásbjörn hét maður. Hann var son Þorsteins hvíta og Sigríðar systur Miðfjarðar-Skeggja. Hann kom út hingað til Íslands þetta sumar í Blönduósi í Langadal. Og er Skeggi frétti útkomu frænda síns reið hann til skips og fagnar vel Ásbirni frænda sínum og býður honum heim með sér við svo marga menn sem hann vildi. Þetta boð þiggur Ásbjörn og réð skipi sínu til hlunns og fór síðan heim til Reykja við þriðja mann. Ásbjörn var manna mestur og hinn fríðasti maður og vel látinn. Hann var rammur að afli svo að varla fannst hans jafningi fyrir afls sakir. Hann var gleðimaður mikill. Hann gekk jafnan til laugar að skemmta sér.
Og einn dag gengu þeir Skeggi til laugar eftir vanda og lágu við laugina og töluðust með. Þenna dag gekk Sigríður frá Ósi til laugar með léreft sín og bjóst í þann tíma heim. Hún gekk þar hjá sem þeir lágu. Ásbjörn var drambsmaður mikill að klæðabúnaði. Þeir sáu hvar konan gekk. Hún var í rauðum kyrtli og blá yfirhöfn. Var konan bæði fríð og mikil og að öllu allvaskleg. Ásbjörn reis upp við olboga og leit um öxl til hennar. Hún nam staðar og leit til hans og gekk síðan heim.
Þá spurði Ásbjörn hvað konu það væri hið vasklega: "Þykir mér von að sjá kona mundi geta ástir af mér."
Skeggi svarar: "Hún heitir Sigríður og er dóttir Þórðar Hörða-Kárasonar. En það ræð eg þér að þú skiptir þér þar engu af við hana."
Ásbjörn spurði hví það skyldi vera.
Skeggi svarar: "Þeir bræður hennar eru fullir ofurkapps og hinir mestu óeirðarmenn. Hyggur þú að þeir muni þér hlífa ef þeim rís við þar sem þeir drápu Sigurð konung slefu son Eiríks konungs?"
Ásbjörn svarar: "Það hafði eg ætlað að vera sjálfráði fyrir hverjum manni hér í landi."
Skeggi segir: "Það fer sem reynist hvort þú ert þar einhlítur áður þér skiljið ef þú leitar nokkuð á þá framar en þeim líkar."
Eftir það gengu þeir heim.
Nú er frá því að segja að Sigríður kom heim til Óss. Gekk Þórður bróður hennar í móti henni.
Hann mælti: "Hví ertu svo litverp systir? Og líst mér sem hann hafi fengið þér litar, Ásbjörn veisugalti. En mart mun verða í leikum áður en hann fær þín."
Svo fór fram um veturinn að allt var kyrrt. Aldrei gat Ásbjörn Sigríðar.
Knattleikar voru í millum Reykja og Óss á Miðfjarðarísi því að snemma lagði fjörðinn. Þá var gott til knárra manna í Miðfirði. Þórður var knáastur að leikum og Ásbjörn frændi Skeggja. Ekki var Skeggi að leikum því að hann var af hinu mesta æskuskeiði en þó sem hraustastur til vopns. Sat hann hjá og þótti allmikið gaman að. Aldrei mæltust þeir Þórður við og heldur var þar fátt í milli.
Það var einn dag að Þórður var að leik og Ásbjörn og skyldu þeir á leikast. Og einn tíma felldi Þórður hann Ásbjörn allmikið fall svo að bops kvað í skrokkinum á honum.
"Og féll nú veisugaltinn," sagði Þórður.
Hann svarar fá um. Og annað sinn er þeir tókust til þrífur Ásbjörn til Þórðar svo að hann féll á kné.
"Og fór þar meyjarkinninn," sagði Ásbjörn, "og væri þér varla kvæmt í leik með rosknum mönnum."
Þórður segir: "Svo fremi veistu það veisugalti er við reynum vopnaskipti hvor þá á upp til annars að sjá er við skiljum þann leik."
Ásbjörn kveðst þess albúinn þá þegar og hljóp til vopna. Gengu menn þá í millum þeirra og voru þeir skildir.
Líður nú af veturinn. Reið Ásbjörn til skips síns um vorið og bjó það til hafs. Skeggi reið til skips með Ásbirni við marga menn því að honum þótti einskis ills örvænt fyrir Þórði. Situr Þórður heima og lætur eigi sem hann viti.
Ásbjörn kemur að máli við Skeggja: "Svo er með vexti frændi að mér leika kvonföng í hug og vil eg ráða ráði mínu."
Skeggi segir: "Hver er kona sú er hugur þinn horfir helst á?"
Ásbjörn segir: "Ekki er því að leyna að það er Sigríður systir Þórðar að Ósi. Hún er sú kvenna að minn hugur stendur mest til að fá."
Skeggi svarar: "Ekki þykir mér þetta líklegt að okkur muni þetta tjá og ófús er eg til að flytja þetta mál við Þórð að þeim óþokka sem millum ykkar er áður."
Ásbjörn kvað það eina hafa í millum borið að lítils var vert og kveðst eigi vilja hins besta kvenkostar missa fyrir það "ef eg kann að fá."
Þar kom að Skeggi hét að biðja konunnar fyrir hans hönd.
"Þykir mér ráð," segir Skeggi, "að ekki bregðir þú utanför þinni fyrir þetta."
Reið Skeggi heim en Ásbjörn fór utan það sumar.
Eigi miklu síðar en Skeggi kom heim spurðist skipkoma í Hvítá í Borgarfirði. Og er menn fréttu það fór fjöldi manns norðan úr sveitum til kaupa við kaupmenn bæði úr Miðfirði og annars staðar. Skeggi bjóst og til skips að ríða með marga menn.
Og er Eiður spurði að faðir hans ætlaði til skips mælti hann við Þórð: "Ætlar þú nokkuð til skips fóstri minn?"
Þórður segir: "Hví mun eg síður þurfa varning en aðrir bændur? Og skal eg að vísu fara."
Eiður mælti: "Eg vil ríða með þér og heyra á mál manna og kynna mér svo kaupstefnu."
Þórður segir: "Bæta mun það vora ferð fóstri minn að þú farir. Segir mér svo hugur um að í þessi ferð mun eg þín mest þurfa ef mínir draumar vita nokkuð."
Eiður mælti: "Hvað dreymdi þig fóstri minn?"
Þórður segir: "Það dreymdi mig að eg þóttist kominn til Hvítár í Borgarfirði og eiga tal við útlenda menn, eigi síst um kaup nokkur. Og í því komu í búðina vargar eigi allfáir og var mér mikill viðbjóður við þeim. Síðan réðu þeir á mig og vildu drepa mig og rifu af mér klæðin en eg brá sverðinu og hjó eg í sundur einn varginn í miðju og höfuðið af öðrum. Síðan hlupu að mér vargarnir öllu megin en eg þóttist verjast og varð eg mjög móður og eigi þóttist eg vita hversu mér mundi vegna. Í því hljóp fram fyrir mig einn bjarnhúnn og vildi verja mig og í því vaknaði eg. Nú þykir mér draumurinn tíðindavænlegur."
Eiður mælti: "Auðséð er það að þetta eru mannahugir illir til þín. Nú væri það mitt ráð að þú riðir jafnsnemma heiman og faðir minn þó að þið mælist ekki við."
Þórður mælti: "Gera má eg það fóstri minn fyrir bæn þína."
Nú bjóst Þórður til ferðar og Eiður með honum.
Og er Þórður bjóst mælti Sigríður systir hans: "Það vil eg bróðir minn að þú kaupir mér skikkju mjög vandaða."
Þórður svarar: "Svo skal vera systir. En svo segir mér hugur að skikkjan verði fullkeypt áður lúki."
4. kafliÞeir Þórður og Eiður riðu til skips jafnfram Skeggja því að Eiður bað Þórð þess. Og er þeir komu til skips tjölduðu þeir eina búð báðir.
Sá maður kemur til sögunnar er Jón hét. Hann bjó að Hvassafelli í Norðurárdal. Hann var vel fjáður og engi jafnaðarmaður og óvinsæll. Guðrún hét kona hans, ofláti mikill og metnaðarfull. Bróðir hennar hét Auðólfur. Glúmur hét faðir þeirra. Hann bjó að Skarðshömrum. Þeir ætluðu að ríða til skips í þann tíma er þeir Þórður og Skeggi voru við skip. Og er þeir riðu heiman mælti Guðrún við bónda sinn að hann skyldi kaupa henni skikkju nokkura góða því að hún var áburðarkona. Þessu heitir bóndi. Þeir ríða nú leið sína þar til er þeir koma á Hvítárvöllu. Þá var kaupstefna sem mest.
Þeir Jón og Auðólfur gengu um búðir. Þeir komu í búð þess manns er Þórir hinn auðgi hét og föluðu skikkju ef til væri.
Hann segir, kvað til vera skikkju "og mun ykkur bóndi þykja dýr."
Jón segir: "Lát heyra hvað gilda skal."
Austmaður mat skikkjuna. Jóni þótti of dýr. Auðólfur vildi kaupa láta og bauð að leggja til af sínu. Jón gekk frá.
Og er þeir komu út eggjaði Auðólfur að kaupa skikkjuna "og hét eg því systur minni."
"Hví skaltu eigi ráða?" segir Jón, "og göngum heim eftir verðinu."
Og varð þetta dvöl nokkur.
Það er sagt að þeir Þórður og Eiður gengu um búðir og föluðu varning. Þeir komu í búð Þóris ríka og föluðu skikkjuna að Þóri.
Þórir kveðst kenna Þórð og hans foreldra "og vil eg eigi meta við þig heldur vil eg að þú þiggir skikkjuna."
Þórður þakkaði honum "og vil eg þetta þiggja og lát hér liggja meðan eg geng eftir verðinu."
"Það vildi eg," segir Þórir, "að þú hefðir með þér."
"Engu mun það varða," segir Þórður og gengu þeir Eiður að sækja verðið.
Og er Þórður var í burt koma þeir Jón og Auðólfur inn í búðina og báðu Austmanninn þá láta til skikkjuna.
Hann kvað þá selda skikkjuna "því að þú vildir eigi þvílíkt við gefa sem eg mat."
Jón kveðst þá hafa skyldu. Og í því komu þeir Þórður og Eiður í búðina með skikkjuverðið. Þórður greip til skikkjunnar. Auðólfur brá sverði og vildi höggva til Þórðar. Jón hljóp og að honum Þórði og vildi höggva til hans. Þórður brá skjótt sverðinu og snerist að Auðólfi og hjó í höfuðið. Féll hann þegar dauður á gólfið. Eiður hljóp fyrir hann Þórð er hann sá tilræðið Jóns og brá fyrir hann skildinum en tók skikkjuna undir hönd sér. Þetta sér Þórður og slæmir til hans með sverðinu og kom á hann miðjan og tók í sundur fyrir ofan mjaðmirnar. Förunautar þeirra Jóns sóttu þá að honum. Þórður hopaði út úr búðinni og hljóp á einn raftabulung og varðist þaðan vel og skörulega. Drifu þá til héraðsmenn og Borgfirðingar og vildu hefna þeirra Auðólfs. Eiður fer þá að finna föður sinn og biður hann að veita Þórði lið með sínum mönnum.
Skeggi segir: "Hvað hefir Þórður að hafst þess að hann er eigi einhlítur?"
Eiður segir: "Hann hefir vegið tvo menn."
"Hverjir eru þeir?" segir Skeggi.
"Auðólfur og Jón," segir Eiður.
"Hvað varð til?" segir Skeggi.
Eiður segir: "Þeir vildu ræna hann skikkju þeirri er hann hafði keypt og annar þeirra vildi drepa hann áður en eg hlífði honum. Og láttu eigi þá fæð sem á millum ykkar hefir verið svo ríkt ganga að þú virðir meira en það að hann er úr því héraði sem þú ert. Hann er og minn lífgjafi og fóstri."
Þá svaraði Skeggi engu. Eiður gekk þá á burt og þar til sem þeir sóttu að Þórði og brá saxinu.
Og er Þórður sá Eið fóstra sinn mælti hann: "Hafðu þig ekki í hættu fyrir mig."
En er Eiður var út genginn úr tjaldi föður síns þá stóð Skeggi upp og mælti: "Rýta mun gölturinn ef grísinn er drepinn."
Tók hann þá Sköfnung og gekk þangað til sem þeir sóttu að Þórði. Hafði hann varist svo drengilega að þeir höfðu engu sári á hann komið en hann hafði sært marga menn. Og er Skeggi kom til gekk hann svo hart að að þeir hurfu frá er áður höfðu sótt að Þórði. Síðan kom Skeggi á sættum með þeim. Skyldi hann einn gera um öll málin. Hann lauk þegar upp gerðinni. Skyldi Þórður greiða tvö hundruð silfurs fyrir víg Jóns en Auðólfur falla óheilagur fyrir fjörráð og tilræði við Þórð. Þeir menn sem sárir höfðu orðið fyrir Þórði skyldu hafa sár sín bótalaus fyrir fjörráð og atsókn. Og með þessu skildu þeir.
Reið Skeggi heim þá er hann var búinn. Þórður reið jafnfram norður og Eiður með honum og töluðust þeir Skeggi og Þórður ekki við á allri þessi leið. Þeir ríða þar til er þeir koma að Miðfjarðará.
Þá mælti Skeggi: "Hér munum vér af baki stíga því að eg á við þig Þórður erindi."
Og svo gerðu þeir.
Þá mælti Skeggi: "Ásbjörn frændi minn bað mig vekja bónorð fyrir hans hönd og vill hann láta biðja Sigríðar systur þinnar fyrir hans hönd og vil eg nú vita hversu þú vilt þessum málum svara."
Þórður segir: "Litla vináttu á eg við Ásbjörn. Hefir þú og mér verið engi vin hér til og ekki kom mér það í hug að þú mundir hingað leita tengda fyrir frændur þína. En veit eg að Ásbjörn er stórborinn maður og ríkur og mikilmenni af sjálfum sér. En eigi veit eg hversu bræðrum mínum eða henni er þetta kaup gefið."
Skeggi svarar: "Því kveð eg þig að málinu heldur en bræður þína að eg veit að þeir vilja þínum ráðum hlíta bæði um þetta og allt annað."
Þórður svarar: "Líklegir þykja mér þeir til vera að gera eftir mínum vilja. En ekki gef eg hana nokkurum manni utan hennar samþykki sé til. En von þykir mér að ekki brjóti hún það á bak er eg ræð."
Þá segir Eiður: "Það vildi eg fóstri minn að vel svarir þú föður mínum um bónorðið og virðir mikils hans flutning."
Þórður segir: "Svo skal vera því að mikla liðsemd veitti Skeggi mér í þessi ferð og það mun eg nú láta á sjá því að eg mun gera kost á um bónorðið fyrir þinn flutning Skeggi. Hún skal sitja í festum þrjá vetur og ef Ásbjörn kemur eigi út innan þeirra þriggja vetra þá eru laus þessi mál. Kemur hann fyrri til lands þá er hann kominn til ráðahags með Sigríði."
Þessu játar Skeggi. Réttir Þórður þá fram höndina og tekur Skeggi handsöl. Voru þegar vottar að heitorði.
Þá mælti Skeggi: "Nú hefir þér vel farið Þórður. En hagskipti var það er systir þín fékk skikkjuna heldur en kona Jóns. Þykir mér og meiri von að Borgfirðingar megi minni til reka hver yðar fundur varð. Mun eg lengja nafn þitt og kalla þig Þórð hreðu."
Þórður sagði: "Vel líkar mér það þó að þeir hafi nokkurar mínar menjar og svo þykir mér og engi forþokki á nafni þessu. En svo segir mér hugur um að sjaldan muni hreðulaust í þessu héraði."
Eftir þetta riðu þeir heim. Og er Þórður kom heim var honum vel fagnað. Hann var spurður tíðinda. Hann sagði af hið ljósasta. Síðan kallaði hann systkin sín til tals við sig og sagði þeim heitorðið.
Sigríður svarar: "Bráðráðið þykir mér þú bróðir gert hafa um heitorðið mitt er eg var ekki að frétt áður."
Þórður segir: "Það kaup skal ekki framar en þú vilt samþykkja."
"Þess var mér von að þér. Vil eg og þinni forsjá hlíta hér um."
Þórður bað hana hafa þökk fyrir andsvörin. Síðan fékk hann henni skikkjuna og sagði henni um viðskipti þeirra Jóns og Auðólfs og kvað vísu:
- Tvo lét eg Fáfnis fitjar
- falla þar til jarðar
- ýta, Leifnis lautar
- lind fagrvita, kindar.
- Áðr vildu þeir, öldu,
- eitrþvengs bana veita,
- brands, með benja vöndum
- brúðr, mærar við, kærust.
"Slíks var að von," segir hún.
Hér eftir situr Þórður heima um kyrrt og var Eiður jafnan með honum.
5. kafliÞetta sama sumar kom skip í Blönduós í Langadal. Þar kom út Ormur, systurson Skeggja og bróðir Ásbjarnar. En er Skeggi frétti útkomu frænda síns ríður hann til skips og býður Ormi heim með sér til veturvistar og fór Ormur heim með honum. Ormur var svo háttaður að hann var hverjum manni meiri og sterkari, rammur að afli og hinn vasklegasti og fullur af ofurkappi og þótti engi sinn jafningi. Hann var hinn mesti vígamaður og fullur upp ójafnaðar.
Það var einn dag að Ormur gekk til laugar að Sigríður frá Ósi var þar fyrir og ein kona með henni. Honum fannst mikið til hennar og spurði eftir hvað konu hún væri. Honum var sagt hvað hún hét og svo ætt hennar.
Hann kom að máli við Skeggja og mælti: "Svo er með vexti að eg vildi að þú bæðir Sigríðar frá Ósi til handa mér."
Skeggi svarar: "Það mun eg eigi gera við þessa konu. En biðja vil eg hverrar annarrar konu sem þú vilt til handa þér."
Ormur svarar: "Annaðhvort vil eg að þú biðjir Sigríðar ellegar engrar."
Skeggi segir: "Hví mundi eg biðja festarkonu Ásbjarnar bróður þíns?"
Ormur segir: "Það hirði eg aldrei þó að hún sé hans festarkona. Viltu eigi biðja hennar fyrir mína hönd þá mun verða róstumikið í héraði því að þá skal eg fífla hana og munu bræður hennar það banna en eg mun ekki það hirða. Muntu þá verða til að hlutast."
Þá sagði Skeggi: "Eigi mun Sigríður fyrir þér fíflast láta og ætlar þú þér mikla dul að fá hennar svo ósæmilega. Og mun þér þetta draga til skammæðar því að velta hefir Þórður látið þyngra hlass þar þeir bræður drápu Sigurð konung slefu Gunnhildarson."
Ormur segir: "Verður það sem má. Á þetta skal hætta ef þú vilt eigi biðja konunnar mér til handa."
Skeggi segir: "Heldur vil eg fara með þessum orðum en vandræði standi af. Og muntu þó illa við una hversu sem svarað verður."
Eiður varð þessa var er hann var á kynnisvist að Reykjum með föður sínum. Þeir feðgar gera Þórði orð að hann komi til Reykja. Þórður fór til Reykja og bræður hans með honum. Skeggi heilsar Þórði glaðlega. Hann tók því vel og frétti hvað undir orðsendingu hans væri. Skeggi segir að Ormur frændi hans vildi fá Sigríðar systur hans.
Þórður segir: "Undarleg málaleitan er slíkt af þinni hendi því að mér líst Ormur frændi þinn meira eiga varið í fors og óvisku en hamingju. Er og eigi ólíklegt að það reyni af bragði. Eða veit hann eigi áður að konan er föstnuð bróður hans?"
Skeggi mælti: "Ormur er eigi heima og er riðinn út í Langadal til skips."
Eiður mælti: "Það vildi eg fóstri minn að þú gerðir á nokkurn fyrir flutning föður míns."
"Svo skal vera sem þú biður," segir Þórður, "að á skal gera kostinn fyrir bænastaðinn þinn og flutning Skeggja en engan mundi eg á gera ef Ormur hefði sjálfur beðið konunnar. Þau andsvör vil eg Skeggi gefa þínu máli að það er fyrst að eg vil engu því bregða við Ásbjörn sem eg hefi honum lofað. Eg vil að Ormur fari utan í sumar og veri utan tvo vetur en eigi von ráða ef Ásbjörn kemur eigi til."
Skeggja þótti allvel svarað og höfðu hér við votta. Reið Þórður heim til Óss og Eiður með honum. Lítið gaf Sigríður sér um þetta.
Líður nú þar til er Ormur kemur heim og hafði búið skip sitt. Ormur spurði Skeggja um erindislok um kvonbænirnar. Skeggi sagði allt sem farið hafði. Ormi þótti Skeggi hafa laust fylgt. Skeggi bað hann þá virðing á leggja sem hann vildi.
Ormur bað hann hafa af sér enga þökk fyrir málalokin og varð reiður mjög, kveðst aldrei hirða hvort Þórði líkaði vel eða illa: "Skal hún þá vera friðla mín."
Skeggi kvað hann furðu óvitran mann er hann talaði slíkt.
Eigi hafði Ormur heima verið svo að nóttum skipti áður hann reið til Óss og settist á tal með Sigríði.
Hún bað hann eigi það gera, kvað Þórði mundu þykja verr "og muntu finna skjótt missmíði á ef þú gerir eigi að."
Ormur kvaðst hvergi varbúinn við Þórði hvað sem þeir skyldu reyna.
Hún sagði það og líkast "að það reynir þú ef þú venur hingað komur þínar. Máttu til þess ætla að eg mun mér engu af skipta um það er til þín heyrir meðan eg spyr ekki til Ásbjarnar bróður þíns."
Skildu þau talið. Þórður var að ferjusmíð niðri við ósinn og ætlaði að halda henni til Stranda eftir skreið og fara sjálfur með.
Ormur kom þrjá daga í samt til Óss og þá talaði Þórður við Orm: "Það vil eg Ormur að þú hafir eigi hingað komur þínar til óþykktar við mig en ósæmdar við systur mína."
Ormur svarar um heldur illa og kveðst sjálfráði verið hafa ferðar sinnar fyrir hverjum manni og kveðst hyggja að svo skyldi enn vera. Þórður kvað þá eigi báða uppi skyldu ef hann kæmi hinn fjórða daginn. Ormur lét af komum nokkurar nætur.
Þórður bjó ferjuna. Og er hann var búinn var það einn morgun að veður var gott. Þá ætlaði Þórður að sigla út úr ánni. Heimakona gekk inn að Ósi og kvað gott veður að þvo léreft sín. Sigríður var vön að þvo léreft sín í læk þeim er fellur hjá garði að Ósi. Hún fór með léreftin og konan með henni.
Þenna morgun hefir Ormur njósn af að Þórður mun brátt sigla. Hann lætur taka sér hest. Ekki veit Skeggi til þessa. Síðan tók hann vopn sín. Hann reið út til Óss og þangað í hvamminn sem Sigríður var. Hann sté af hestinum og batt hann. Síðan leggur hann af sér vopnin og gengur til hennar Sigríðar og setur hana niður og leggur höfuð í kné henni og leggur hennar hendur í höfuð sér.
Hún spurði hví hann gerði slíkt "því að þetta er á móti mínum vilja. Eða manstu eigi ályktarorð bróður míns? Og mun hann það efna. Sjá þú svo fyrir þínum hluta."
Hann segir: "Ekki hirði eg um grýlur yðrar."
Og er Ormur kom í hvamminn brá hún við heimakona og hljóp ofan til ferjunnar og sagði Þórði að Ormur var kominn í hvamminn til Sigríðar. Þórður brá skjótt við, tók sverð sitt og skjöld. Hann hljóp upp í hvamminn. Ormur lá í knjám Sigríði.
Þórður hljóp að Ormi og mælti: "Statt þú upp og ver þig. Er það nú eigi verra en krjúpa að konunni og horfa við mér."
Ormur brá við og seildist til sverðs síns og í því hjó Þórður til Orms og í sundur hinn hægra handlegginn. Í því brá Ormur sverðinu og í viðbragði hans brotnaði fótleggur hans. Þá hjó Þórður höfuð af Ormi og gekk síðan heim til Óss og lýsti vígi Orms á hönd sér. Sigríður bað Þórð bróður sinn forða sér.
Hann brosti að orðum hennar og sagði: "Hvergi mun eg fara því að eg kann engar leiðir. Mun eg senda mann til Reykja að segja Skeggja víg Orms."
Hún segir: "Undarlegur maður ertu bróðir því að Skeggi mun skjótt hér koma og hefna frænda síns með fjölmenni og hefir þú ekki megn að standa í stríði við hann þó að þú sért garpur mikill."
Þórður kveðst ekki að því fara. Síðan fann hann sauðamann sinn og bað hann fara til Reykja og segja Skeggja vígið. Hann kveðst þessa ófús en lést þó fara mundu ef Þórður vildi.
"Seg og það með að Skeggi láti færa í burt afglapa sinn."
Sveinninn fór sem hann bað og sagði Skeggja vígið Orms frænda síns. Skeggi varð reiður mjög.
Sveinninn mælti: "Það bað Þórður mig segja þér að þú skyldir láta flytja í burt afglapa þinn."
Skeggi safnar nú mönnum að sér og ríður út til Óss. En Þórður var heima við hinn tíunda mann og býst til varnar þegar hann sér ferð Skeggja. Þar voru þeir bræður báðir. Allir voru þeir vel vopnaðir. Kveðst Þórður nú hvergi mundu vægja fyrir Skeggja, kvað nú vel að þeir reyndu með sér.
Það er að segja að þenna morgun hafði Eiður farið til stóðhrossa sinna í Línakradal. Þau hafði Þórður gefið honum. Og er hann frétti vígið Orms skundaði hann heim til Óss og vildi koma fyrr en faðir hans og það gekk honum. En er hann kom heim sá hann viðurbúnað þeirra og tók vopn sín og gekk í lið með Þórði fóstra sínum.
Þórður mælti: "Eigi vildi eg fóstri minn að þú værir að þessum fundi því að eg mun nú ekki hlífa föður þínum heldur en öðrum manni ef hann sækir að."
Eiður segir: "Hjá þér mun eg vera fóstri minn hvað sem í gerist því að eitt skal yfir okkur ganga. Var mér það þá í hug er þú gafst mér líf að eg skyldi mitt líf leggja við þitt líf."
Þórður segir: "Þá muntu mér best gefast er mér liggur mest á."
Og þá er þeir höfðu við talast kom Skeggi við marga menn. Skeggi var hinn reiðasti. Og er hann sér Eið son sinn í liði Þórðar stöðvaði hann flokk sinn.
Þórður kastaði orðum á Skeggja og bað hann að sækja "því að nú er eg albúinn að höggva oxann þó að feitur sé því að nú er heldur gamall orðinn."
Þá segir Skeggi: "Eigi mun eg að sækja því að eg vil eigi berjast við Eið en oft muntu til glæpa stefna."
Þórður segir: "Meir ætla eg þér til koma hræðslu en huggæði ef þú sækir nú eigi að."
Skeggi svaraði engu og reið frá og heim.
Ormur var heygður í Miðfjarðarnesi.
Nú verður að nefna fleiri menn til sögunnar.
6. kafliÞorvaldur hét maður, góður bóndi. Hann bjó í Langadal á þeim bæ er heitir í Engihlíð. Hann var læknir góður. Hann átti tvo sonu. Hét annar Einar en annar Bjarni.
Indriði hét maður og félagi Orms. Hann var mikill maður og vígur hverjum manni betur og hinn besti drengur. Hann var kominn út í Kolbeinsárósi. Hann var þá búinn til siglingar er þetta var tíðinda.
Össur hét maður. Hann bjó í Skagafirði á þeim bæ er á Grund heitir. Hann var Arngrímsson. Jórunn hét móðir hans og var systir Miðfjarðar-Skeggja. Össur var höfðingi mikill því að hann hafði goðorð um hinn efra hlut Skagafjarðar og út til móts við Hjaltasonu. Hann var ódældarmaður og ekki var hann vinsæll, meiri og sterkari en flestir menn, ótrúr og undirhyggjufullur.
Þórhallur hét maður. Hann bjó á Miklabæ í Óslandshlíð. Ólöf hét kona hans. Hún var væn kona og hinn mesti skörungur. Þórhallur var vellauðigur að fé. Engi var hann kempa kallaður og heldur hræddur og að öllu hið mesta lítilmenni. Hann var hælinn og hinn mesti skrumari og þóttist flest ráð kunna. Ólöf húsfreyja hans var Hrolleifsdóttir þess er nam Hrolleifsdal upp af Sléttahlíð. Hún var fyrir þeim um alla hluti. Hafði hún verið gefin honum til fjár. Hún var ung en Þórhallur við aldur. Hún var læknir góður.
Kálfur hét bóndi einn í Hjaltadal. Hann bjó á Kálfsstöðum. Hann var mikilhæfur bóndi.
7. kafliNú er þar til að taka að Ósi er Skeggi hefir heygja látið Orm frænda sinn. Hann sendir mann norður til Indriða félaga Orms að segja honum vígið, biður hann búast norðan ef hann vill nokkuð leita til hefnda eftir félaga sinn því að hann hafði svarist í fóstbræðralag við Orm áður þeir fóru til Íslands. Indriði brá við skjótt og tók vopn sín. Hann hafði hjálm og skjöld rauðan, mikið krókaspjót í hendi, gyrður biturlegu sverði. Honum fylgdu tveir Austmenn og aðrir tveir íslenskir menn. Indriði reið frá skipi þá er hann var búinn.
Nú er þar til að taka er þeir Þórður og Skeggi skildu að Ósi að Eiður talaði með Þórð: "Það vildi eg fóstri minn að þú riðir af héraðinu fyrst en eg mun annast um bú þitt meðan þú ert á burt."
Þórður segir: "Þú skalt ráða en ekki er mér mikið um að flýja bólstað minn."
"Svo hlýtur nú að vera að sinni," sagði Eiður, "því að eigi kenni eg kapp föður míns ef þér dugir að sitja samtýnis við hann svo búið."
Síðan bjóst Þórður heiman. Hann tók vopn sín, skjöld og hjálm, sverð og spjót. Bræður hans buðust til ferðar með honum.
"Eigi vil eg það," sagði Þórður, "því að eg vil ykkur í engi vandræði leiða með mér en hafið áður í engum vígaferlum staðið með mér. Og haldið kyrru fyrir með fóstra mínum þar til fleira verður til tíðinda."
Síðan sté hann á bak og bað alla heimamenn vel lifa. Síðan reið hann upp á háls til Línakradals og einn maður með honum til leiðsagnar. Hann léttir eigi fyrr leið en hann kemur út í Langadal til Engihlíðar síð um kveldið. Hann hafði grímu yfir hjálminum og duldist.
Synir Þorvalds þóttust kenna hann og sögðu föður sínum "og ef hann er mun tíðindum gegna er hann fer huldu höfði um héraðið."
Bóndi spurði hinn mikla mann að nafni. Hann sagðist Þórður heita.
"Og ertu Þórður hreða?"
Hann segir: "Kalla máttu svo ef þú vilt. Sá er maðurinn."
Bóndi segir: "Hverju gegnir um ferðir þínar?"
Þórður segir vígið Orms og allan tilganginn og kvað vísu:
- Fátt kann eg fleygi hrotta,
- fegring um vó eg, segja.
- Áðr vildi sá öldu
- ósæma Gná ljósa.
- Því varð eg bráðr að brúði
- blakkrennir nam spenna
- vogs en vildi eigi
- varr unna þess svarra.
Þorvaldur sagði: "Mikil tíðindi segir þú, víg Orms frænda Skeggja, og munu margir frændur eftirsjár veita með Skeggja."
Þórður kvað vísu:
- Veit eg að eftir ýti
- ormreitar munu leita
- frændr og vilja vendi
- vopndöggvar mig höggva.
- Eigi veit þó að ítra
- egg reiði fram Skeggi
- ríkr hvort eg renn frá leiki
- reinar elds fyrir einum.
Þorvaldur segir: "Eigi er það og víst eða hvert ætlar þú nú að ríða?"
Þórður svarar: "Norður ætla eg fyrst til skips er uppi stendur í Kolbeinsárósi hvað sem þá leggst fyrir."
Þorvaldur bauð honum Einar son sinn til fylgdar því að Þórði voru leiðir ókunnigar. Skyldi hann fylgja honum norður úr Vatnsskarði þar til sem leiðir skildust. Þórður þakkaði honum og dró fingurgull af hendi sér og gaf Þorvaldi.
Bóndi þakkaði honum gjöfina og bað hann sín vitja ef honum líkaði: "Segir mér svo hugur að þú munir í þessi ferð verða reyndur um vopnfimi og karlmennsku. Muntu svo eiga við að sjá að Össur frændi Orms mun sitja um líf þitt þá hann fréttir því að hann er höfðingi mikill og ódældarmaður."
Þórður kvað það fram koma um sinn hag sem lagið yrði "og er ekki mark að mínum ættarfylgjum ef eigi týna nokkurir frændur Orms fyrir mér lífi áður eg lýk nösum. En vel fer þér bóndi og haf þökk fyrir. Mun eg þiggja þína vináttu ef eg þarf til að taka."
Síðan reið Þórður á burt og Einar með honum. Skildu þeir Þorvaldur með vináttu. Þeir ríða upp eftir Langadal og norður Vatnsskarð. Og er þeir komu norður úr skarðinu skildi þá á um leiðir. Vildi Þórður ríða um Grindarhóla og hann réð. Þeir riðu til Arnarstapa og áðu þar. Þórður kvað sér svefnhöfugt og kvað sækja að sér ófriðarfylgjur.
Nú er þar til að taka er Indriði fréttir víg Orms félaga síns. Hann reið frá skipi og með honum fjórir menn, tveir norrænir. Hét annar Sigurður en annar Þorgrímur. Þeir voru hinir víglegustu menn. Aðrir tveir voru íslenskir menn. Hét annar Bárður en annar Þorfinnur, miklir menn og sterkir. Þeir voru vel vopnaðir. Þeir riðu sem leið liggur upp eftir Skagafirði til Vatnsskarðs þenna hinn sama dag sem Þórður reið um skarðið.
Nú sjá þeir Þórður reið fimm manna með vopnum. Þórður spurði förunaut sinn hverja hann kenndi þar ríða.
Hann sagði: "Eigi kann eg mann að kenna ef það er eigi Indriði stýrimaður, fóstbróðir Orms, með rauðan skjöld og allmikið krókaspjót í hendi."
Þórður svarar: "Vera má svo að Indriði vilji hafa minn fund. Eða hvers liðs á eg þar von sem þú ert?"
Hann sagði: "Engi er eg vígamaður og eigi má eg mannsblóð sjá. Og er illt að vita ef þú skalt látast fyrir þeim."
Þórður kvað eigi víst "hver skipstjórnarmaður mun vera í kveld að skipi Indriða."
Eftir þetta býst Þórður til varnar en mein kvað Þórður það að félagi hans var huglaus og kvað vísu:
- Eigi skal eg fyr ýtum flýja
- unda logs að þessum fundi,
- gegnir skulu það fyrðar fregna,
- flæðar báls á þessum hálsi.
- Heldr ætla eg, hjálmi faldinn,
- hrotta söng að fremja löngum
- eikikjóls þótt að mér sæki
- ýtar sex að vopna messu.
Og er þeir fundust frétti Indriði hvað Orm dveldi. Þórður segir og kvað Orm hafa keypta sér staðfestu á Miðfjarðarnesi.
Síðan sagði hann honum vígið "og hefndu hans nú því að ekki muntu í betra færi komast við mig en nú."
Indriði kvað svo vera skyldu. Síðan sækja þeir allir að honum. Sigurður austmaður leggur til Þórðar með spjóti og kom í skjöldinn og renndi út af og niður í völlinn. Hann laut eftir laginu. Og er Þórður sá það hjó hann til hans. Kom það á Sigurð miðjan og tók í sundur fyrir ofan mjaðmirnar. Í þessu hjó Þorfinnur til Þórðar og kom í skjöldinn og sneið af mikinn mána af skildinum. Þórður hjó á fótinn Þorfinni fyrir ofan kné og tók af fótinn.
Þórður bað Indriða betur að sækja "ef þú vilt hefna félaga þíns."
Indriði hleypur að Þórði og veitir honum mikla atsókn. Þeir sóttust lengi en svo lauk að Indriði féll fyrir Þórði og flakti allur í sundur af sárum. Þá hljóp Þórður að förunautum Indriða og var eigi langt þeirra vopnaviðskipti áður Þórður drap þá báða. Eftir þetta settist Þórður niður og batt sár sín því að hann hafði fengið mörg sár og stór. Hann gengur að Indriða og spurði ef hann mundi vera græðandi.
Hann segir: "Þess þykir mér von ef læknar koma til."
Þá tók Þórður til Indriða og kippti honum úr blóði og lætur hann á bak hesti sínum. Eftir það tekur Þórður hest sinn og ríður vestur í Bólstaðarhlíð og segir þar tíðindin. Síðan reið hann með Indriða í Engihlíð. Þorvaldur fagnar vel Þórði og býður honum allan þann greiða sem hann vill þiggja og spyr tíðinda.
Hann segir bardagann að Arnarstapa og fimm manna lát "en því er eg hér kominn að eg vildi að þú græddir Indriða því að aldrei fær vaskara mann."
Þorvaldur kvað það skylt vera. Tók hann við Indriða og bjó honum kerlaug og fægði sár hans og hafði hann engi banvænleg sár. Þorvaldur býður Þórði lækning.
Hann kveðst eigi það vilja: "Mun eg norður leita á landið hvað sem fyrir verður."
Indriði tók til orða: "Nú er svo komið sem þér megið vita að eg hefi leitað til hefnda við Þórð eftir Orm. En því skipti svo að féllu fyrir Þórði fjórir mínir félagar en eg sár til ólífis og fór það sem von var með okkur Þórði því að hann er engum manni líkur um vopnfimi. Nú er ráð mitt Þórður að þú ríðir norður til skips míns og bíð mín þar. Ólöf heitir húsfreyja á Óslandi. Hún er kvenskörungur og hinn besti læknir. Beið hana viðtöku, þar til sem eg kem norður, og lækningar. Össur heitir bóndi er býr að Þverá í Skagafirði. Hann er frændi Orms er þú vóst. Hann mun sitja um líf þitt."
Þórður bað hann hafa þökk fyrir tillög "en fara mun eg ferða minna fyrir Össuri sem eg hefi ætlað."
Eftir þetta reið Þórður norður yfir Skarð til Skagafjarðar og allt til skips. Hann kom til Óslands síð um kveldið og fann bónda og spurði bóndi hann að nafni. Þórður nefndi sig.
Þórhallur segir: "Heyrt hefi eg þín getið oft. Hvað heldur þig til hérkomu?"
Hann sagði honum fundinn þeirra Indriða og vígin og kvað vísu:
- Háði eg víst í víðu
- Vatnsskarði sókn harða.
- Þar lét eg fjóra fjörvi
- fleins sýnendur týna.
- En Indriði unninn
- ítr varð í byr rítar.
- Þeim gaf eg líf er Leifa
- láðdýri kann stýra.
Þórhallur kvað hann mikinn afbragðsmann "og líst mér svo sem þú munir vera sár mjög."
Þórður kvað ekki mikið bragð að því en lést hafa þó skeinur nokkurar.
Í þessu kom húsfreyja út.
Hún mælti: "Hver er þessi hinn mikli maður er hér er kominn?"
Þórður segir til sín. Hún kveðst heyrt hafa hans getið jafnan og bað hann af baki stíga og dveljast þar náttlangt. Þórður bað húsfreyju hafa þökk fyrir.
Þórhallur mælti: "Vandhæfi þykir mér á viðtöku þessa manns, ratað í mikil vandræði í vígaferlum en maðurinn mjög sár og þarf lækningar. Eru og miklir menn til eftirsóknar og hefnda um Orm. Þykir mér svo sem sá muni hvorki sjá fyrir fé eða fjörvi sem honum veitir nokkura hjálp."
Þá segir húsfreyja: "Eigi líst okkur þetta einn veg. Þykir mér sem sá muni betur hafa er honum veitir nokkura hjálp. Vil eg bjóða þér Þórður að vera hér svo lengi sem þú vilt og að binda sár þín og græða þig ef þess verður auðið."
Þórður þakkaði henni og kveðst þetta þiggja mundu "ef bóndi samþykkir."
Þórhallur sagði nú enn fara sem vant er "að þú munt vilja ráða. Mun eg heita Þórði að vera honum trúr í öllum hlutum. Má eg halda tungu minni um hérvist Þórðar."
Síðan sté Þórður af baki og fylgdi húsfreyja honum í eitt útibúr en bóndi tók af hesti hans. Húsfreyja setti borð fyrir Þórð og fór hann til matar. Eftir það bjó hún honum kerlaug og fægði sár hans. Hafði hann mörg sár og stór.
Þórður var á Óslandi á laun þar til sem hann var heill orðinn allra sára sinna.
Þá talaði Þórður með Þórhall bónda og húsfreyju: "Svo er nú komið að eg er heill orðinn sára minna og vil eg ekki lengur fara huldu höfði eða vera hér lengur en ykkur hjónum líkar vel."
Húsfreyja segir: "Það er minn vilji að þú sért hér þar til sem einnhvern veg slítur úr málum þessum."
Þórhallur segir: "Það vil eg að Þórður sé hér í vetur. En þó er mér sagt að Össur að Þverá muni ætla að sjá eftir hefndum við þig."
Þórður kveðst eigi það hirða: "Má það eigi víst vita hver hellum hleður að höfði öðrum."
Einn dag reið Þórður til skips. Var það lagið út undir Elenuhólm. Og í þann tíma kom Indriði til skips. Höfðu hásetar búið skipið meðan Indriði var í Engihlíð.
Indriði bauð Þórði að fara utan með sér en ekki kveðst hann mega hann austur halda fyrir frændum Orms er bæði voru margir og ríkir "en sæst hefi eg um víg öll fyrir þína hönd þau sem urðu á fundi okkrum. Hefi eg bætt þau mínum peningum."
Þórður þakkaði honum allt þetta og dró gullhring af hendi sér og gaf honum en ekki lést hann mundu utan fara að sinni. Eftir þetta skildu þeir með vináttu og fór Indriði utan og er hann úr sögunni.
Þórður reið á Ósland.
Þórhallur tók allvel Þórði og kvað það vel að hann fór eigi utan: "Hefir þú hér dvalist um hríð og líkar mér vel við þig. Veit eg og að húsfreyja vill að þú sért hér þeim stundum sem þú vilt. Er eg og maður barnlaus og er gott að gera slíka menn sér að vinum og styrkja þá með peningum þótt í nokkuð falli. Vantar mig hvorki hug né vit til ráðagerða ef Össur slæst á fjandskap við þig."
Þórður tók vel undir þetta.
Þá segir húsfreyja: "Eigi vildi eg Þórður að þú tryðir mjög á vísdóm Þórhalls né brautargengi. En vel ætla eg að þú reynir um sinnsakir ef þú þarft til að taka um garpskap Þórhalls."
Þórður dvelst með Þórhalli um veturinn.
8. kafliKetill hét bóndi. Hann bjó inn frá Óslandi. Hann hafði gefið Þórði hest góðan er Sviðgrímur hét. Við hann eru kenndir Sviðgrímshólar.
Kálfur bóndi á Kálfsstöðum bauð þeim Þórði og Þórhalli til jólaveislu. Það þekktist Þórður.
En áður þeir riðu heiman mælti húsfreyja við Þórð: "Það vildi eg að þú færir varlega því að Össur að Þverá situr um líf þitt. Hann hefir heitast að hefna Orms frænda síns."
Þá sagði Þórhallur: "Ætla þú til þess húsfreyja að vér erum eigi upp gefnir hvorki í ráðagerðum né harðfengi þó að reyna þurfi þó að nokkur liðsmunur sé, eigi alllítill."
Húsfreyja sagði: "Þrífist aldrei þitt hól. Ræð eg þér Þórður að þú treystir ekki á harðfengi Þórhalls."
Þórður segir: "Vel mun gefast."
Síðan ríða þeir á Kálfsstaði og er þeim þar vel fagnað. Var þar veisla góð um jólin.
Nú er að segja frá Össuri að Þverá að hann heldur njósnum til um ferð Þórðar þá hann fer frá jólaveislunni. Safnar hann að sér mönnum og ríður heiman við hinn nítjánda mann um nóttina fyrir affaradag jólanna út til Hjaltadals og nam staðar nær Viðvík þar sem heitir Garðshvammur, skammt frá bænum í Viðvík.
Snemma um morguninn eftir jól bað Þórður menn búast til heimferðar og kvað mart hafa fyrir sig borið um nóttina. Kálfur bóndi spurði hvað hann hafði dreymt.
"Það dreymdi mig," segir hann, "að mér þótti vér félagar ríða upp eftir Hjaltadal og er vér komum nær Viðvík þá hlupu upp fyrir oss átján vargar. Einn var miklu mestur og hljóp að mér með gapanda munninn og réðu á mig og mína menn. Þótti mér þeir bíta menn mína til bana. Eg þóttist drepa marga vargana og hinn mesta varginn þóttist eg særa og þá vaknaði eg."
Kálfur bóndi kvað vera ófriðvænlegt "og eru þetta mannahugir" og bauð honum að sitja þar um daginn og láta njósna ofan til Viðvíkur.
Þórður vildi það eigi.
"Þá vil eg," sagði Kálfur, "fá þér menn fleiri að fylla flokk þinn."
Þórður segir: "Eigi skal það spyrjast að Þórður hreða hræðist eina saman drauma og fyrir það auki hann fjölmenni að hann þori eigi fyrir þeim sökum um hérað að fara."
Þeir ríða nú frá Kálfsstöðum sjö saman, Þórður og Þórhallur og heimamenn þeirra fimm. Kálfur bóndi fékk til fylgdar við Þórð húskarl sinn er Hallur hét, sterkur maður. Eyvindur hét bóndi er bjó í Ási í Hjaltadal. Hann hafði verið á Kálfsstöðum um jólin. Hann hafði gefið Þórði spjót gullrekið og heitið honum sínu liði hvar sem Þórður þyrfti manna við. Eyvindur fór með Þórði.
Þeir fóru ofan eftir dalnum og eigi langt áður maður kom í mót þeim er Kálfur hafði gert á njósn og sagði þeim að eigi færri menn mundu sitja fyrir þeim en átján niðri í Garðshvammi. Þórhallur spurði hverjir þeir væru. Hann kvað Össur frá Þverá vera formanninn. Þórður sagði þá kost á að reyna hvatleik manna og vopnfimi.
Þórhallur segir: "Það er ekki ráð að halda til fundar við þá við slíkan liðsmun og mun eg gefa til annað ráð."
"Hvert er það?" segir Þórður.
Þórhallur segir: "Vér skulum snúa hér yfir í tunguna og svo í Kolbeinsdal og svo heim að ekki verði þeir varir við oss."
Þórður segir: "Lítill þykir mér liðsmunur þó að þeir séu átján en vér níu. Veit eg oft mönnum vel hafa vegnað við slíkan liðsmun og eigi mundi Hörða-Kári láta eltast frændi minn þó að nokkuru meiri liðsmunur væri. Mun eg eigi minna hafa af honum eða öðrum göfgum frændum mínum en renna eigi að öllu óreyndu. Nú vil eg fara og finna Össur hversu sem gengur. En þú Þórhallur skalt ekki vera á þessum fundi. Vil eg ekki launa svo húsfreyju þinni ykkarn velgerning að hafa þig í nokkurum lífsháska."
Þórhallur bað hann ráða "en mæla munu það óvinir mínir að eg skiljist ódrengilega við þig."
Þórður bað og Eyvind heim ríða.
Hann sagði: "Illa héldi eg þá félagsskap við góðan dreng ef eg skyldi þá renna frá þér er þú þyrftir helst manna við. Skal það og aldrei verða að mig hendi þá skömm."
Síðan fara þeir þar til er þeir sáu fyrirsát Össurar.
Þórður mælti: "Vér skulum snúa hér upp á brekkuna hjá oss. Þar er vígi gott."
Þeir gera svo og brjóta þar upp grjót. Og er þeir Össur sjá það hlaupa þeir upp að brekkunni.
Þórður spurði: "Hverjir eru þessir er svo láta ófriðlega?"
Össur nefndi sig "eða er Þórður hreða þar á hólnum?"
Hann svaraði: "Sá er maðurinn og er þér nú ráð að hefna Orms frænda þíns ef nokkur er dáð með yður því að nógan hafið þér liðsmun."
Össur bað sína menn að sækja. Tókst þar harður bardagi. Þórður varð skjótt mannsbani. Báru þeir Þórður grjót á þá Össur en þeir hlífðu sér með skjöldum. Létust þá nokkurir menn af Össuri meðan grjótið vannst. Síðan hlupu þeir Þórður ofan af brekkunni. Tókst þá mannfallið. Sá maður hjó til Þórðar er Örn hét og kom í lærið er hann horfði undan því að sá maður sótti að honum framan er Hafþór hét, frændi Össurar. Og er Þórður fékk lagið brást hann undan og hjó til hans annarri hendi með sverðinu og kom á hann miðjan og tók í sundur í miðju. Hann hjó annað högg til Hafþórs og kom á öxlina. Klauf hann niður frá síðunni höndina og féll hann dauður til jarðar. Nú hefir Þórður drepið þrjá menn. Þetta sér Össur og biður þá sína menn að sækja. Hann sækir nú að Þórði og með honum fimm menn en aðrir sóttu að mönnum Þórðar. En svo lýkur þessum fundi að Þórður varð sex manna bani en særði Össur svo að hann var óvígur. Níu menn létust af Össuri en fimm af Þórði. Eftir fundinn gekk Þórður að Össuri og kippti honum úr blóði og skaut yfir hann skildi svo að eigi rifu hann hrafnar því að hann mátti sér enga hjálp veita. Allir flýðu undan menn Össurar. Eigi voru menn Þórðar færir til eftirferðar því að engi komst ósár af fundi þessum. Þórður bauð Össuri að láta græða hann.
"Eigi þarftu að bjóða mér lækning," segir Össur, "því að jafnskjótt skal eg drepa þig sem eg kemst í færi við þig."
Þórður kveðst ekki að því fara og sendi Þórhall yfir í Ás til Þorgríms er þar bjó að hann sækti Össur og græddi hann. Hann gerði svo og flutti hann heim. Lá hann lengi í sárum og varð heill um síðir. Dysjar voru gervar að líkum þeirra manna er þar féllu. Eftir fundinn í Garðshvammi fór Þórður heim með Þórhalli. Hafði hann fengið mörg sár en engi banvæn. Ólöf spurði Þórð að fundinum.
Hann kvað vísu:
- Féllu í fleina sköllu
- fimmtán viðir mána,
- lundar, Leifnis grundar,
- lungs báru en sjö sárir.
- Þar vó eg sex, en særði
- sigrhnuggna þar duggu,
- Össur hét sá, ýta
- eldbrands þrumu landa.
"Þetta eru mikil tíðindi," sagði hún.
Húsfreyja græddi Þórð. Líður af veturinn svo að ekki bar til tíðinda.
9. kafliUm vorið reið Þórður upp í hérað því að bóndi sá er Þorgrímur hét hafði sent honum orð að smíða skála sinn því að Þórður var manna hagastur. Þorgrímur bjó í Flatatungu. Það er ofarlega í Skagafirði.
Þórður er að skálasmíðinni um sumarið og er mjög var alger skálinn kom skip af hafi að Gásum í Eyjafirði. Þórður segir bónda að hann vill ríða til skips og kaupa þá viðu er honum þótti mest þurfa. Bóndi biður hann ráða og fær honum þrjá húskarla að flytja heim viðinn. Síðan fara þeir norður og eru í kaupstefnu þá stund er þeir þurfa og bera norðan við á mörgum hestum. Þórður ríður jafnfram þeim. Hann hafði alvæpni, hjálm og skjöld, gyrður sverði og spjót hið góða. Þeir riðu Hörgárdalsheiði og ofan eftir Norðurárdal, svo yfir á fyrir framan Egilsá og ofan eftir eyrunum. Þá sjá þeir tólf menn spretta upp fyrir sér með vopnum. Þar var kominn Össur frá Þverá. Þórður hleypur þegar af baki og setur fyrir sig skjöldinn. Förunautar hans verða við hið vasklegasta og stíga af baki og bregða vopnum sínum. Þórður bað þá hafa sig í engri hættu. Þeir báðu þann aldrei þrífast er stæði hjá en hann þyrfti manna við.
Þá mælti Þórður við Össur: "Eigi ertu enn horfinn í fyrirsátunum við mig. Þætti mér sem þér mundi minnissamur fundur okkar. Muntu nú eigi fara betrum förum en næst áður við skiljum."
Össur svaraði: "Það sagði eg þér að eg skyldi þér aldrei trúr ef eg lifnaði og það skal eg efna. Sækjum nú að honum og njótum nú liðsmunar."
Þórður segir: "Eigi er eg enn upp gefinn. Þykir mér ekki víst hvað þér munduð á vinna þó að eg væri einn en nú hálfu síður er þessir menn fylgja mér."
Síðan rann Þórður fram að Össuri og lagði spjótinu í gegnum þann mann sem fremstur stóð.
Þórður mælti: "Féll þar nú einn og er eigi öðrum að firr."
Þeir sækja nú að Þórði Össur og með honum sex menn en förunautar Össurar fjórir sóttu þrjá félaga Þórðar. Lýkur þar svo að þar falla hvorirtveggju. En frá þeim Þórði og Össuri er það að segja að Þórður drepur fjóra menn af Össuri en særði hann mörgum sárum.
Nú er þar til að taka er smalamaður Þorgríms bónda sér fundinn af hálsinum og þykist vita hverjir mennirnir munu vera, veit og að Þórður þarf manna við. Hleypur hann heim í Flatatungu og sagði bónda fundinn og biður hann skunda að veita lið Þórði. Bóndi bregður við skjótt og ríður upp á eyrarnar við hinn tíunda mann. Og er Össur sér mannaferðina skundar hann til hests síns og kemst á bak við illan leik og ríður undan sem mest getur hann uns hann kemur heim til Þverár og unir illa við sína ferð, látið menn sína en er sjálfur sár mjög. Þrír menn létust af Þórði. Voru þeir þar dysjaðir í hólunum sem fundurinn var. Þorgrímur bóndi spurði Þórð að tíðindum.
Hann kvað vísu:
- Tólf vildu mér moldar
- meiðendr bana seiða
- veita vafðra brauta.
- Vann eg þeim skaða sannan.
- Sendi eg sjö með skunda
- sækjendr vopna lækjar
- ells til ítrar hallar
- Óðins með brynglóðu.
Þórður var nú í Flatatungu og lauk við skálasmíðina. Var það furðusterkt hús. Stóð sá skáli allt til þess er Egill biskup var að Hólum. Og er Þórður vill á burtu fara fylgir Þorgrímur bóndi honum við hinn tíunda mann og ríða ofan eftir Skagafirði. Og er Össur sá ferð þeirra þóttist hann eigi hafa mannafla að ríða eftir þeim. Ríða þeir leið sína uns þeir koma á Miklabæ í Óslandshlíð. Tekur Þórhallur vel við Þórði en húsfreyja betur. Þorgrímur bóndi reið heim og skildu þeir Þórður góðir vinir.
Þórður verður nú frægur mjög víða um landið. Þetta fréttir Miðfjarðar-Skeggi og lætur sem hann viti eigi hvað fram fer með Össuri frænda hans og Þórði. Situr Þórður um kyrrt framan mjög til jóla.
Það var einn morgun fyrir jól að Þórður vildi fara að sjá hest sinn Sviðgrím. Hann stóð með fjórum hrossum.
Þórhallur bað Þórð bíða og fara þremur nóttum síðar "því að eg vildi áður færa hey mín úr stakkgörðum."
Þórður bað hann ráða "en ekki kemur mér á óvart að vér munum mönnum eiga að mæta."
Þórhallur kvað þá eigi upp gefna þótt nokkur liðsmunur sé.
Þórður brosti að orðum hans og mælti: "Svo mun vera ef þú stendur á aðra hönd mér."
Húsfreyja mælti: "Aldrei þrífist þitt hól. Þótti mér sem Þórði yrði lítið lið að þér á þeim fundi sem þú varst á og er sú kona illa gefin er þig á því að þú ert bæði hælinn og huglaus."
Þórður segir: "Ekki er það svo að skilja. Þórhallur er engi áhlaupamaður og forsjáll en mun vera hinn vopndjarfasti ef reyna skal."
Þórhallur segir: "Ekki þarftu húsfreyja að vera svo harðorð því að ekki ætla eg mér á hæl að hopa fyrir eins hverjum ef við erum jafnbúnir til."
Skildu þau nú talið. Við tal þeirra var staddur einn umrenningur. Hann kastar fótum undir sig og kemur um kveldið til Þverár. Össur spurði hann tíðinda eða hvaðan hann væri að kominn.
Hann kveðst engi kunna tíðindi að segja "en á Miklabæ í Óslandshlíð var eg í nátt."
Össur segir: "Hvað hafðist Þórður hreða að, kappinn?"
Sveinninn segir: "Víst máttu það til segja að hann sé kappi, svo sneypilega sem þú hefir fyrir honum farið. En ekki sá eg hann gera utan hann hnauð hugró á sverði sínu. En það heyrði eg Þórhall segja að þeir mundu færa hey úr görðum innan þriggja nátta."
Össur segir: "Hversu margmennir mundu þeir vera?"
Sveinninn svarar: "Eigi fleiri en Þórður og Eyvindur og Þórhallur."
"Vel segir þú sveinn," segir Össur.
Síðan kvaddi hann til ferðar með sér tólf menn og reið út í Óslandshlíð.
Þenna sama morgun ríða þeir Þórður heiman og Eyvindur og Þórhallur. Þórður bað Eyvind hafa vopn sín, kvað því ekki ofaukið. Hann gerði svo. Þeir ríða út í Sviðgrímshóla.
Þá mælti Þórður: "Það vil eg Þórhallur að þú sért hér eftir en við Eyvindur skulum leita hrossanna upp í hálsinn."
Þórhallur bað hann ráða. Þeir gengu upp í hlíðina. Snjór var í hlíðinni og harðfenni víða. Össur kemur að garðinum og þeir tólf saman og slá hring um Þórhall og brugðu vopnum sínum og báðu mannfýluna segja til Þórðar. Þórhallur varð ógurlega hræddur og heyktist niður undir garðinn og kvað Þórð genginn upp í hlíðina við annan mann.
Össur mælti: "Illt er að eiga þræl að einkavin" og laust hann öxarhamarshögg svo að hann lá í svíma.
Síðan runnu þeir upp í hlíðina.
Þá mælti Þórður við Eyvind: "Menn koma neðan í hlíðina og kenni eg þá gjörla. Þar er Össur kominn og vill enn hafa minn fund. Nú skulum við við leitast að komast á Skeggjahamar og þaðan í Sviðgrímshóla. Þar er vígi gott."
Eyvindur svarar: "Vel megum við komast á hamarinn."
Þeir hlaupa nú á hamarinn. Í því koma þeir Össur að. Þórður gengur á framanverðan hamarinn. Skafl var lagður af hamrinum niður á jöfnu og ákaflega brattur. Var þar hin mesta mannhætta ofan að fara. Síðan settu þeir spjótin í milli fóta sér og riðu svo ofan af hamrinum allt á jöfnu. Komust þeir nú á Sviðgrímshóla. Bar þá Össur nú skjótt að.
Þórður mælti: "Mikið kapp leggur þú á að hafa líf mitt Össur. Væri það og eigi illa að þú fyndir sjálfan þig fyrir. Skulum við og báðir eigi af þessum fundi með fjörvi burt komast."
Össur kveðst það og ætlað hafa að Þórður skyldi eigi lengur undan draga. Sækja þeir nú að þeim Þórði og Eyvindi. Þórður skaut spjóti til Össurar og í því hljóp einn hans maður fram fyrir hann og fló spjótið í gegnum hann. Einn maður hjó til Þórðar. Hann brá við skildinum og kom þar í höggið og varð hann ekki sár. Þórður hjó til þessa manns og veitti honum banasár. Hann hjó þegar annan. Það högg kom á hálsinn og renndi niður í brjóstið. Féll hann dauður á jörð. Hinn þriðja lagði hann í gegnum með sverðinu. Eyvindur drap hinn fjórða. Sótti Össur nú að í ákafa. Féllu þá enn tveir menn hans. Þá bárust og sár á Eyvind. Mæddi hann þá blóðrás og settist hann þá niður og var ákaflega móður. Sóttu þeir þá sex að Þórði. Varðist hann svo að þeir komu engu sári á hann.
Þórður mælti þá til Össurar: "Illa sækist yður sex. Hvað eg vildi síður en þykjast vera formaður þessara manna en hafa þá að skildi einum í dag. Og er nú hitt ráð að sækja að og hefna Orms frænda þíns og allra þeirra svaðilferða er þú hefir fyrir mér farið."
Össur verður nú reiður mjög við allt saman, skapraunarorð Þórðar og þá heift sem hann hafði á honum, hleypur nú að honum og höggur tveim höndum til hans. Það kom í skjöldinn og renndi niður í skjöldinn svo að af tók mána mikinn. Í því hjó Þórður til Össurar og kom það högg undir hina vinstri höndina og renndi niður með hryggnum svo að hann leysti frá og rifin. Hljóp sverðið þar á hol. Féll hann þegar dauður niður.
En þeir förunautar Össurar sem eftir lifðu runnu undan og sögðu víg Össurar. Þórður lét flytja Eyvind heim og var hann mjög sár og lá lengi í sárum og varð heill. Haugur var orpinn eftir Össur.
Þórður sagði víg Össurar á Miklabæ og kvað vísu:
- Enn hefi eg sex, hin svinna,
- svellr móðr af því, þella,
- goldið gálga valdi,
- gullbaugs, jöru drauga.
- Grund, lét eg Össur öndu,
- arms sýnar, þar týna.
- Lundr var hann lóns hinn sjaundi
- logs, pells, veginn, þella.
Illa líkaði Ólöfu við Þórhall er hann hafði sagt til Þórðar og var við sjálft búið að hún mundi skilja við hann fyrir þessum sökum. Þórður átti jafnan hlut að með þeim að betur færi og kvað vorkunn að hann leysti líf sitt og kvað einskis ills örvænt fyrir Össur. Líður nú svo fram um jólin að ekki ber til tíðinda. Situr Þórður nú um kyrrt.
10. kafliÞar er frá að segja að Miðfjarðar-Skeggi frétti norðan fall Össurar frænda síns, þykir Þórður nær sér höggvið hafa og fylltist upp við hann mikillar reiði, ber það þó upp fyrir engan mann því að hann vildi eigi að Eiður son hans og bræður Þórðar hefðu nokkurn grun af hans ráðagerðum fyrr en fram kæmi. Hann lætur setja inn tólf hesta sína á laun og ætlar að ríða að Þórði þegar eftir jólin. Ríður hann nú leynilega heiman frá Reykjum við hinn tólfta mann. Hann reið norður Vatnsskarð, ofan um Hegranes, svo út með byggð um nóttina og koma nokkuru fyrir dag til Miklabæjar. Tunglsljós var mikið. Þeir drepa högg á dyr. Maður gekk til hurðar. Hann spurði hverjir komnir væru. Skeggi sagði til sín og spurði hvort Þórður hreða væri þar.
Maðurinn svarar: "Hvað viltu honum?"
Hann sagði: "Spyr þú hann hvort hann vill úti eða inni þola högg undir Sköfnungi."
Og er inn kom sögnin, hver hans erindi voru, stendur Þórður upp og tók vopn sín.
Þá mælti Ólöf húsfreyja: "Standi menn upp og vopnist og verjið góðan dreng því að hér er mart röskra drengja og manna fyrir og látið illa verða för Skeggja hingað."
Þá svaraði Þórhallstötur: "Það fyrirbýð eg heimamönnum mínum öllum að veita Skeggja mótgang og geri sig eigi að híbýlaskömm við utanhéraðshöfðingja."
Húsfreyja segir: "Löngu vissi eg að þú varst ónýtur til vopns enda dáðlaus til drengskapar."
Þórður mælti: "Bóndi á híbýlum að ráða húsfreyja" og gekk út í dyrnar.
Skeggi bað hann út ganga og gefa sér höggrúm.
Þórður kvað þá vísu:
- Kost geri eg þér á þessu
- þar er þú eggjar mig Skeggi,
- að eg skundi út undir
- eggfránan hjör seggja.
- Ef færa mig fúra
- festendr þangað hesta
- ýgs er Össur vógum
- afrendan fegins hendi.
"Og mun eg ganga út með þeim skilmála," segir Þórður, "að eg fylgi þér þangað sem eg drap Össur frænda þinn. Má þér þá minnissamara verða hvílíkt ættarhögg eg hefi höggvið þér."
Skeggi mælti: "Ekki munu bityrði þín nú veita þér lið en viðurkvæmilegt þykir mér að þar fram komi hefndin."
Síðan fór Þórður með þeim þar til sem Össur var dysjaður. Hurfu þeir nú um hauginn.
Þórður kvað þá vísu:
- Nú er þér ráð að rjóða,
- ríkr, egg á mér, Skeggi,
- ef þú stýrir, hvort eg heyri
- heldr þá tekr að kvelda,
- og minnist svo manna,
- morðeggjandi, tveggja,
- þeira er, Þundar særir,
- þér nána vó eg, mána.
Skeggi brá þá sverðinu Sköfnungi og mælti: "Hér skal ekki öðrum að hlíta að vega að Þórði."
Þórður brá sverði og mælti: "Engi von er þér Skeggi að eg standi kyrr fyrir höggum þínum meðan eg er óbundinn."
Í þessu hleyptu að þeim átján menn allir með brugðnum sverðum. Þar var kominn Eiður, Eyjólfur og Steingrímur bræður Þórðar. Eiður spurði hvort Þórður lifði. Þórður sagði sér eigi nær dauða. Allir hlupu þeir af baki. Bauð Eiður föður sínum tvo kosti hvorn hann vildi heldur, selja Þórði grið svo að hann mætti ríða heim til Óss og sitja í friði ella mundi hann veita fóstra sínum og berjast með honum.
Skeggi segir: "Löngu hefði eg drepið Þórð ef færi hefði eg til séð, ef eigi fyndi eg að þú mætir meira Eiður fósturneyti Þórðar en frændsemi við mig."
Eiður kvað Þórð þess alls maklegan: "Hefir Þórður þau ein víg vegið er hann átti hendur sínar að verja utan vígið Orms og var þó vorkunn á."
Skeggi svaraði: "Það er líkast Eiður að þú munir verða að ráða því að eigi mun eg berjast við þig."
Eftir þetta ríður Skeggi á Miklabæ um náttina og gengur inn með brugðnu sverði og að hvílu Þórhalls og bað húsfreyju upp standa, kvað hana helsti lengi hafa sæmt við klækismann þann. Hún gerði svo. Hún bað Þórhalli griða. Hann kvað mannfýlu þá helst til lengi lifað hafa.
Síðan tók hann í hár honum og kippti honum fram á stokkinn og hjó af honum höfuðið og mælti: "Miklu er þetta nær að slíðra Sköfnung í þínu blóði en Þórðar því að að honum er mikill skaði ef hann létist en að þér er engi með öllu og launaði eg nú Sköfnungi það að honum var brugðið."
Skeggi ríður nú á burt og heim til Reykja og unir illa við sína ferð.
Þeir Þórður og Eiður komu á Miklabæ í þann tíma er Skeggi reið í burt. Ólöf sagði þeim víg Þórhalls.
Eiður kvað eigi minna að von: "Miklu var faðir minn reiðari er við skildum."
Ólöf bað þá svo lengi sitja þar sem þeir vildu. Eiður kvað henni vel fara og voru þar viku og hvíldu hesta sína. Bjuggust þeir þá í burt.
Þórður gekk að Ólöfu og mælti: "Þess vil eg biðja þig að þú giftist engum manni innan tveggja vetra ef þú spyrð mig á lífi því að þú ert svo kvenna að helst mundi ástir af mér geta."
Hún svarar svo: "Þessu vil eg heita þér því að eg vænti mér eigi framar gjaforðs en þvílíks."
Ríða þeir nú vestur til Miðfjarðar og heim til Óss. Eyvindur fór með Þórði en setti mann fyrir bú sitt því að hann vildi eigi við Þórð skilja meðan hann var eigi sáttur um vígaferli sín. Nú líður af veturinn og er allt kyrrt.
11. kafliÞað er nú sagt að skip kom af hafi í Blönduósi. Þar var á Ásbjörn stýrimaður, frændi Skeggja. Skeggi ríður til skips og býður Ásbirni heim með sér. Fóru þeir til Reykja átján saman. Var Ásbjörn ekki kátur um veturinn. Þórður hreða sat heima að Ósi og hafði mart röskra manna með sér. Var Eiður þar við tíunda mann.
Litla hríð hafði Ásbjörn verið á Reykjum er hann sagði Skeggja hverja ætlan hann hefði á við Þórð um málaferli, kveðst þungt þykja að hafa bótalaust víg Orms bróður síns en hafa nógan afla til hefnda.
Skeggi kvað vandhæfi á málinu "því að Eiður stendur jafnan með Þórði og skil eg eigi hvað drjúgast verður um skipti vor Óssmanna."
Hættu þeir nú talinu.
Þetta sama sumar kom skip í Hvítá í Borgarfirði. Riðu menn til kaupa norðan úr sveitum, bæði úr Miðfirði og annars staðar. Þórður hreða reið til skips við tólfta mann og allir vel vopnaðir. Þar voru bræður hans báðir, Eyjólfur og Steingrímur. Fór það orð af að hann ætlaði að ríða upp eftir Borgarfirði að erindum sínum og sunnan Arnarvatnsheiði. Þetta fréttir Skeggi og býst heiman við hinn átjánda mann á laun svo að Eiður varð ekki var við og ætlar að sitja fyrir Þórði er hann ríður sunnan. Þar var Ásbjörn í ferð. Ríða þeir norður yfir háls í Víðidal, fyrir framan byggð alla og svo suður á heiði þar sem skiljast götur og ofan hallar af Víðidal.
Sá maður fór með Skeggja er Þorbjörn hét og kallaður vesalingur. Hann bjó á landi Skeggja og hafði gerst arfsalsmaður hans. Hann átti auð fjár og tímdi hvorki að hafa sjálfur né láta aðra hafa og því var hann vesalingur kallaður. Fátt hafði hann manna hjá sér utan konu sína.
Eiður var riðinn út á Miðfjarðarnes að annast um bú þess manns er Þorbjörn hét og kallaður aumingi. Hann var arfsalsmaður Þórðar hreðu og hafði hann farið með Þórði. Hann átti allra handa ganganda fé. Bjó hann á utanverðu Miðfjarðarnesi. Gekk sjálfala fé hans þar í skógunum. Hafði Þórður það af hans peningum sem hann vildi. Eiður var þar nokkurar nætur og reið síðan heim til Óss og fréttir nú hvað um var að vera. Safnar hann nú að sér mönnum og ríður við fimmtánda mann suður á heiði eftir föður sínum.
Nú er þar til að taka að Þórður hreða er í kaupstefnu þvílíka stund sem hann þurfti. Ríður hann síðan upp eftir Borgarfirði og svo norður á heiði allt þar til þeir sjá fyrirsátina.
Þórður mælti: "Hverja menn kennið þér hér?"
Eyjólfur segir: "Eigi veit eg það gjörla en Skeggja þætti mér líkast."
Þórður mælti: "Lengi halda þeir frændur á fyrirsátunum við mig. En þó að liðsmunur sé mikill þá skulu þeir þó fá viðnám."
Ríða þeir nú fram að þeim með brugðnum sverðum. Skeggi stökkur þá upp og mælti: "Sækjum nú að þeim Ásbjörn frændi og látum þá nú kenna liðsmunar og hefn nú Orms bróður þíns."
"Svo skal vera," sagði Ásbjörn.
Þórður svarar: "Eigi er enn sopið kálið þó að í ausuna sé komið."
Sækja þeir nú að Þórði og hans mönnum. Þórður skaut spjóti til Skeggja og stefndi á hann miðjan. Sá maður hljóp fyrir Skeggja er Halldór hét náfrændi Skeggja. Kom spjótið á hann miðjan og í gegnum hann og svo í brjóst á þeim manni er stóð á baki honum og féllu þeir báðir dauðir. Hinn þriðja hjó hann með sverðinu á hálsinn svo að af fauk höfuðið. Verður nú sókn hin harðasta. Berjast þeir Þórður og Skeggi lengi dags svo að engi skakkar með þeim. Þeir Eyjólfur og Ásbjörn sóttust í ákafa. Mátti þar eigi sjá hvor drjúgari mundi verða. Veitti hvor öðrum stór sár. Steingrímur barðist alldjarflega og varð fjögurra manna bani. Skiptist nú svo til að Steingrímur er í móti Skeggja en Þórður berst við menn þeirra með sínum mönnum. Drap hann nú enn fimm menn. Þeir nafnar sóttust í ákafa, Þorbjörn aumingi og Þorbjörn vesalingur, og lauk svo að þeir féllu báðir dauðir. Í þessu hleypti Eiður þar að þeim og þeir fimmtán saman. Eiður hljóp þegar af baki og gekk í milli og skildi þá. Skeggi var hinn reiðasti og reið heim til Reykja og þeir Ásbjörn og undu illa við sína ferð. Ásbjörn lá lengi í sárum og varð þó heill. Þórður og Eiður riðu heim til Óss af fundinum. Þrettán menn féllu af Skeggja á fundinum en sjö af Þórði. Sitja nú hvorirtveggju um kyrrt. Líður nú á veturinn.
Það var einn dag að Eiður reið til Reykja við hinn tíunda mann. Faðir hans tók vel við honum. Eiður kvaðst vilja leita um sættir.
Skeggi kvað langt tóm að því "og ver hér í vetur."
Eiður kvað svo vera skyldu. Fátt var með þeim Eiði og Ásbirni um veturinn. Jafnan hafði Eiður grun á um tal þeirra Skeggja og Ásbjarnar að þeir sætu um líf Þórðar fóstra síns. Hann sendi Þórði orð að hann væri var um sig.
12. kafliÞað var einn tíma um veturinn að Eiður varð var við að faðir hans reið heiman á laun og upp í hérað. Þóttist hann vita að hann ætlaði til stórræða nokkurra. Því reið hann eftir honum við hinn tíunda mann. Fundust þeir uppi við Króksmela. Skeggi spurði Eið hvert hann ætlaði.
Eiður segir: "Eg vildi fylla flokk þinn faðir minn."
"Vel mun þér það fara frændi en eg mun ríða heim aftur því að mér er krankt."
"Svo má vera að sé," sagði Eiður, "en eg mun ríða til Torfustaða því að eg á þangað erindi."
Síðan skilja þeir.
Þenna sama dag hafði Ásbjörn gengið til laugar og sex menn með honum.
Nú er að segja frá Þórði hreðu.
Hann vaknar þann sama morgun og mælti við bræður sína: "Svo hafa mér draumar gengið sem þeir Miðfjarðar-Skeggi og Ásbjörn muni sitja um líf mitt. Mun eg nú fara frá húsi í dag og gildra til veiða nokkurra, ef færi gefst á, því að eg vil eigi lengur eiga þá báða yfir höfði mér, Ásbjörn og Skeggja. Skulum vér fara sjö saman, bræður mínir og Eyvindur og þrír menn aðrir."
Síðan taka þeir vopn sín og ríða til Reykja. Í þann tíma gekk Ásbjörn frá laugu og sá mannareiðina.
Ásbjörn mælti við sína menn: "Þar fer Þórður hreða og láta ófriðlega og mun hann vilja hafa minn fund. Skulum vér snúa upp á hólinn og bíða þar."
Þeir gera nú svo. Kemur Þórður nú að og slær þegar í bardaga. Voru hvorirtveggju hinir áköfustu því að engi var liðsmunur. Þórður varð skjótt mannsbani. Þar féllu þrír menn af Ásbirni en einn af Þórði. Þá sótti Þórður að Ásbirni og veitti honum mörg sár svo að hann var nær óvígur. Í því kom Skeggi að með brugðnum Sköfnungi.
Hann mælti til Ásbjarnar: "Hví rennur þú eigi hinn armi?"
Hann svaraði og kvað vísu:
- Læt eg í hug mér hvíta,
- hart mót er nú spjóta,
- lind, þarf eg liðs þíns frændi
- leggfarms koma Skeggi.
- Eigi renn eg því að innan
- eg minnist Gnár tvinna.
- Hörð mun vörn sú er verðum
- vit frændr saman litnir.
Settist Ásbjörn nú niður því að hann mæddi blóðrás svo að hann var yfirkominn. Skeggi hjó til Þórðar og kom það á öxlina. Var það svöðusár. Og í því kom Eiður að með tíunda mann og hljóp þegar á millum og kvað þá eigi lengur berjast skulu. Hann kveðst og skyldu drepa Ásbjörn nema hann gerði einn um.
Ásbjörn segir: "Það var mitt erindi út hingað að sækja festarmey mína. En er eg frétti víg bróður míns þá var víst með mér að hefna hans. En nú er svo orðinn fundur vor að eg kýs heldur frið við Þórð."
Þórður svaraði: "Fóstra mínum vil eg unna virðingar af málum þessum en ekki hirti eg ella um sættir. Færu þá enn leikar sem verða mætti."
Svo lýkur að þeir sættast og skal Eiður gera um öll mál þeirra og vígaferli. Gengu þeir til handsala, Þórður og Ásbjörn og Skeggi. Hönd Þórðar þrútnaði og blés upp. Eiður skar úr eggfarveginn úr sárinu. Tók þá úr verkinn allan.
Eiður stefnir nú héraðsfund. Komu þeir þar allir, Skeggi og Ásbjörn og Þórður. Lauk Eiður þá upp sættargerð með þeim.
"Það er gerð mín," segir Eiður, "að fyrir víg Össurar geri eg tvö hundruð silfurs en hið þriðja skal falla niður fyrir fjörráð við Þórð og allan fjandskap en menn Össurar allir óhelgir fyrir tilför við Þórð. En fyrir víg Orms geri eg tvö hundruð silfurs en fyrir áverka þann er faðir minn veitti Þórði geri eg hundrað silfurs. Síðan skal Ásbjörn fá Sigríðar sem ætlað var í fyrstu. Skal Þórður hafa inni brullaupið. Hér er og hundrað silfurs Ásbjörn er við fóstri viljum gefa þér í frændbætur."
Allir þökkuðu honum fyrir. Skeggja fannst fátt um en kvaðst mundu halda sættir og grið.
Þórður þakkaði fóstra sínum sættargerð "en ekki vil eg hafa það hundrað er þú gerðir mér til handa. Skal Skeggi þetta fé ekki út greiða því að ekki mundi Þórður faðir minn eða Hörða-Kári taka fémútu á sér og eigi skal eg taka."
Þetta mæltist vel fyrir. Hafði Þórður virðing af málum þessum.
Nú býst Þórður við brullaupi og býður til mörgum mönnum. Og um kveldið skipar Eiður mönnum í sæti. Skeggi sat í öndvegi á hinn æðra bekk og Þórður næst honum. Gegnt Skeggja í öðru öndvegi sat Ásbjörn brúðgumi og Eiður hið næsta honum. Brúðkonur sátu á þverpallinn. Var þar veitt vel um kveldið. Allir menn voru þar kátir nema Skeggi. Hann var heldur ófrýnn. Gengu menn til svefns um kveldið. Um morguninn gengu menn til drykkju eftir vanda. Þunglíft var Skeggja og sofnaði hann undir borðinu. Hann hafði lagt Sköfnung að baki sér. Illa líkaði Þórði er Skeggi var ókátur um veisluna og tók hann sverðið Sköfnung og brá.
Eiður mælti: "Þetta er þarfleysa fóstri minn."
Þórður svarar: "Hvað mun saka?"
Eiður segir: "Það er náttúra sverðsins að nokkuð verður að höggva með því hvern tíma er brugðið er."
Þórður segir: "Það skal prófa" og hljóp út og kvað hann skyldu görtra við merarbeinin og höggur hross eitt er stóð í túninu.
Eiður kvað þetta illa orðið.
Nú vaknar Skeggi og saknar bæði sverðsins og Þórðar. Hann varð reiður og hljóp út og spurði hvort Þórður hefði tekið sverðið.
Eiður segir: "Eg veld því faðir minn er Þórður hjó hrossið því að eg sagði náttúru sverðsins."
Þórður kvaðst sjálfur valda.
Þá mælti Skeggi reiður mjög: "Eg vil nú að við reynum með okkur."
Þórður kvaðst þess albúinn. Þeir Eiður og Ásbjörn ganga á milli svo að þeir náðu eigi að berjast.
Þá mælti Þórður: "Með því að þeir vilja eigi að við reynum með okkur þá ætla eg vel fallið að Skeggi geri einn um ef honum þykir sér nokkur svívirðing ger hafa verið."
Eiður mælti: "Þetta er vel boðið faðir að taka sjálfdæmi af slíkum manni sem Þórður er."
Þetta þiggur Skeggi og gerði tíu kýr til handa sér.
Þórður svaraði: "Þetta skal vel greiða."
Líkaði nú hvorumtveggja allvel og skildu með vináttu.
13. kafliSkjótt eftir brullaupið kom Þórður að máli við Eið og mælti: "Það vildi eg fóstri minn að þú riðir með mér norður á Miklabæ að biðja Ólafar Hrolleifsdóttur til handa mér."
Eiður segir: "Skylt er það fóstri minn að eg ríði hvert er þú vilt."
Síðan ríða þeir heiman, Þórður og Eiður, Ásbjörn, Eyjólfur og Steingrímur. Þeir ríða þar til er þeir koma á Miklabæ. Var þeim þar vel fagnað. Um morguninn bar Þórður upp erindi sín og hóf bónorðið við Ólöfu. Hún tók því vel og gekk kaupið skjótt fram. Voru vottar að heitorði og ríða þeir heim. Ólöf húsfreyja hafði brullaup inni. Þórður bauð Eiði til veislunnar og Ásbirni mági sínum og leysti þá út með virðulegum gjöfum.
Um vorið setti Þórður bú á Miklabæ en þeir bræður hans Eyjólfur og Steingrímur bjuggu á Ósi í Miðfirði. Þórður varð skjótt auðigur maður af smíðum sínum.
Maður er nefndur Þorgils, góður bóndi. Hann bjó að Hrafnagili í Eyjafirði. Hann gerði Þórði hreðu orð að hann skyldi koma norður til hans og smíða skála hans. Þórður hét ferðinni og reið heiman þegar hann var búinn, við annan mann, upp eftir Skagafirði og norður Öxnadalsheiði.
Í þann tíma kom skip af hafi að Gásum í Eyjafirði. Þar var á sá maður er Sörli hét og kallaður Sörli hinn sterki. Hann var allra manna sterkastur og vígur hverjum manni betur. Hann var vel að sér. Hverjum manni líkaði vel við hann. Hann var föðurbróðir Orms er Þórður hreða drap og Ásbjarnar. Sörli fær sér hesta og ætlar að ríða vestur til Miðfjarðar til frænda sinna. Frétt hafði hann víg Orms bróðursonar síns. Hann reið frá skipi við hinn átjánda mann upp eftir Öxnadal og svo fram á heiði til Lurkasteins.
Þenna sama dag reið Þórður hreða yfir heiðina allt þar til er kom norður á hólana fyrir ofan Lurkastein. Hann sá þá hvar átján menn ríða í mót honum og þykist eigi vita hverjir væru og stígur af baki. Þessa menn ber brátt að. Þórður heilsar mönnum þessum og spyr foringja þeirra að nafni. Hann kveðst Sörli heita.
"Ertu kallaður Sörli hinn sterki?" segir Þórður.
"Kalla máttu mig það sem þú vilt," segir Sörli, "eða hver ertu?"
"Eg heiti Þórður," segir hann.
"Ertu Þórður hreða er drepið hefir Orm frænda minn?"
"Sá er maðurinn hinn sami," segir Þórður, "og máttu nú hefna hans ef þú vilt. En ekki hefi eg nú búist við þínum fundi því að eg vissi eigi að þú varst út kominn. En heyrt hefi eg þín getið og bætt hefi eg víg bróðursonar þíns."
"Engu hefir þú mér bætt," segir Sörli, "og skal eg ekki níðast á þér. Allir mínir menn skulu sitja hjá en við skulum berjast tveir einir. Svo þó að eg falli fyrir þér þá banna eg hverjum manni að gera þér mein nokkurt."
Síðan ganga þeir saman og berjast alldjarflega. Fann Þórður það brátt að Sörli var afbragðsmaður sakir vopnfimi og eigi þóttist hann hraustara mann fyrir hafa fundið. Veitti hvor öðrum stór sár og mörg en svo lauk að Sörli féll dauður til jarðar enda var Þórður svo yfirkominn að hann komst eigi sjálfur á bak utan förunautur hans styddi hann og þurfti þó alls við og riðu ofan í Öxnadal til þess bæjar er Þverá hét. Þar bjó bóndi sá er Einar hét. Hann tók vel við Þórði. Lá hann þar lengi í sárum og varð heill. Sörli var heygður þar í hólunum sem fundurinn var og þótti að honum hinn mesti skaði. Menn hans riðu vestur í Miðfjörð til Reykja og sögðu Ásbirni og Skeggja víg Sörla frænda þeirra. Þótti þeim það mikið að frétta en þótti þó vorkunn á við Þórð að hann verði hendur sínar.
14. kafliNú er þar til að taka að Þórði batnar sára sinna og ríður þaðan inn til Hrafnagils og smíðaði þar skála um sumarið, þann sem enn stendur í dag. Hann hefir og gert skálann út í Höfða í Höfðahverfi. Eftir það reið Þórður vestur í sveitir og sættist á víg Sörla við Ásbjörn mág sinn og Skeggja, reið síðan norður til Miklabæjar til bús síns.
Ásbjörn keypti Bakkaland í Miðfirði og bjó þar þrjá vetur. Hann var ofbeldismaður í skapi svo að hann mátti eigi vera hér með frændum sínum. Því seldi hann landið og fór utan og staðfestist í Noregi og jók þar ætt sína. Góðar voru samfarir þeirra Sigríðar og þótti hún hinn mesti kvenskörungur sem kyn hennar var til.
Eiður var löngum í kaupferðum og var á hendi tignum mönnum og jafnan mikils virður. En er honum leiddist það settist hann í búnað.
Hinn efra hlut ævi Skeggja fór hann suður í Ás í Borgarfjörð til Eiðs sonar síns og andaðist þar. Var hann heygður fyrir norðan garð. Má þar sjá bein hans í náttmálavörðunni.
Eiður bjó í Ási til elli. Jafnan fundust þeir fóstrar, Eiður og Þórður, og gáfust gjöfum. Skildi aldrei þeirra vináttu meðan þeir lifðu. Ekki kom Þórður til Noregs síðan hann fór þaðan því að hann var útlægur ger og bræður hans fyrir aftöku Sigurðar konungs slefu Eiríkssonar. Mikil ætt er komin frá Þórði hreðu og margir göfgir menn bæði í Noregi og Íslandi.
Það er mál manna að það hafi orðið að áhrínsorðum er Þórður mælti, að jafnan mundi vera nokkurar hreður í Miðfirði. Hefir þar jafnan verið deilugjarnara en í öðrum héruðum.
Þórður hreða varð sóttdauður. Höfum vér ekki fleira heyrt með sannleik af honum sagt.
Og lýkur hér nú sögu Þórðar hreðu.
(Í Vatnshyrnu eru eftirfarandi brot úr Þórðar sögu.)
1. kafliHrólfur í Bergi Upplendingakonungur var faðir Sölga konungs, föður Böðvars konungs kaums, föður Þóris konungs svíra, föður Ónars konungs arnarhyrnu. Hans synir voru þeir Þorleifur hvalakúfur, faðir Böðvars snæþrimu, föður Þorleifs miðlungs, annar Áslákur biflukári, faðir Ketils Hörða-Kára. Hann var ágætur maður og réð fyrir Upplöndum. Hann lagði undir sig þrjá konunga af sinni hreysti og harðfengi og eignaðist þeirra ríki. Hann átti mörg börn og er frá honum kominn hinn gildasti ættbogi og mart stórmenni.
Þessi voru börn Hörða-Kára: Þorleifur hinn spaki, Ögmundur, Ölmóður hinn gamli, Þórður hreða, Þóra móðir Úlfljóts er lög hafði til Íslands.
Ögmundur var faðir Þórólfs skjálgs, föður Erlings á Sóla.
Ölmóður hinn gamli var faðir Áskels, föður Ásláks Fitjaskalla, föður Sveins bryggjufóts, föður Bergþórs bukks, föður Sveins.
Úlfljótur son Þóru Hörða-Káradóttur hafði út lög til Íslands að ráði Þorleifs hins spaka móðurbróður síns, þau er síðan voru kölluð Úlfljótslög. En er hann kom út var alþingi sett og höfðu allir menn síðan ein lög hér fyrir landi. En lög þau voru sett flest að því sem þá voru Gulaþingslög og eftir ráði Þorleifs hins spaka hvar við skyldi leggja eða af taka.
Það var upphaf laga þeirra að menn skyldu eigi sigla að landinu með gínandi höfðum eða gapandi trjónum svo að landvættir fældust við. En þá er landinu var skipt í fjórðunga þá skyldu vera þrjú þing í hverjum fjórðungi en þrjú höfuðhof í hverju þingi. Þar voru menn vandaðir til að varðveita hofin að hyggindi og réttlæti. Þeir skyldu dómnefnur eiga á þingum og stýra sakferli. Þeir voru kallaðir hofgoðar. Hver maður skyldi gefa toll til hofs svo sem nú er kirkjutíund. Baugur tvíeyringur eða meiri skyldi liggja á stalli í höfuðhofi hverju. Þann baug skyldi hafa á hendi til allra mannfunda og rjóða hann þar í roðru blótnauts þess er hann blótaði. Hann skyldi vinna eið að baugi og nefna votta í það vætti að hann ynni lögeið að baugi: "Hjálpi mér svo Freyr og Njörður og ás hinn almáttki sem eg skal svo sök sækja eða verja eða vætti bera eða kviðu kveða eða dóm dæma og öll lögmælt skil af hendi leysa sem eg veit réttast og sannast og helst að lögum, þau er undir mig koma."
Svo sagði vitur maður, Þormóður er þá var allsherjargoði, að með þessum orðum og þingmörkum helguðu langfeðgar hans alþingi alla ævi.
Gunnar hét son Laga-Úlfljóts. Hann átti Þóru dóttur Helga hins magra. Þeirra son var Ketill í Djúpadal.
2. kafliÞórður, hreða var fyrst kallaður, son Ketils Hörða-Kára var ágætur maður á Upplöndum. Hans son var Klyppur hersir. Annar son hans var Steingrímur, þriðji Eyjólfur. Sigríður hét dóttir hans.
Klyppur hersir var hinn ágætasti maður af örvi sinni og atgervi eftir því sem foreldri hans var til. Hann átti Ólöfu Ásbjarnardóttur. Þeirra dóttir hét Guðrún, kvenna vænst og vitrust og skörungur hinn mesti.
Þórður hreða kvongaðist í elli og annan tíma eftir er hin fyrri kona hans var dauð. Hann fékk þá Helgu Vémundardóttur jarðlokars, Þórólfssonar voganefs, Hrærekssonar slöngvanbauga, Haraldssonar hilditannar Danakonungs. Þá færði Þórður byggð sína í ey þá er Hísing hét. Hann var þá bæði gamall og sköllóttur. Var þá skipt um nöfn við hann og var hann þá kallaður Þórður Hísingarskalli.
Bárekur er maður nefndur. Hann réð fyrir eyjum þeim er Brenneyjar heita. Hann var berserkur svo að menn kölluðu hann eigi einhama. Fjölkunnigur var hann og að flestu illa fallinn. Hann hafði hár bæði stórt og mikið. Því var hann Brenneyjarfaxi kallaður.
Bárekur gerði ferð sína til Hísingar og bað Sigríðar dóttur Þórðar en hún vildi eigi gera að því. Við það reiddist Bárekur og kvaðst því skyldu þann drepa er hennar bæði. Við það reiddist Þórður hreða og skoraði á hólm Báreki innan þriggja nátta. Var Þórður áttræður að aldri. Helga kona hans var kviðug að barni.
Þórður var svo búinn er hann á hólminn gekk, hann hafði hjálm á höfði en sverð í hendi, refil hafði hann vafið um hinn vinstra armlegg sér. Ekki hafði hann hlífar fleiri. En Bárekur hafði hjálm á höfði og brynju en sverð í hendi, skjöld á hlið. Hann átti fyrri að höggva. En er hann hjó til Þórðar brá hann við sverðinu hendinni og bar svo af sér höggið en hjó annarri hendi til Báreks og stefndi á höfuðið en Bárekur bar upp fyrir skjöldinn. Þórður lét skjótt síga sverðið og slæmdi til niðri og undan honum fótinn þar er kálfinn var mestur.
Féll Bárekur þá og mælti: "Nú munum við skilja því að eg em sár orðinn."
Leysti Bárekur sig þá af hólmi sem lög stóðu til og hélt heim síðan. En er Þórður kom heim sáu menn að hann var sár á vinstri hendi og ekki mjög. Það sár greri illa svo að blástur hljóp og illindi í og það varð honum að bana því að eitur hafði verið í sverðseggjum Báreks.
Síðan fæddi Helga sveinbarn. Það var vatni ausið og nafn gefið og skyldi heita Þórður eftir föður sínum. Það var merki á sveininum að hann hafði ör á vinstra armlegg þar sem faðir hans hafði særður verið. Tók hann þá þegar auknefni föður síns, það er hann hafði fyrri, og var kallaður Þórður hreða. Móðir hans andaðist af sængurför en Þórður óx upp í Hísing þar til er hann var tólf vetra. Var hann þá hverjum manni stærri og sterkari, vænni og víglegri og vel að íþróttum búinn.
Nú býr Þórður ferð sína úr Hísing og vill hitta Bárek föðurbana sinn. Þeir voru tólf á skipi jafnaldrar hans og kunni engi áralag. En er þeir komu skammt fram með landi sáu þeir skip stórt sigla í móti sér. Þar var þá kominn Bárekur og ætlaði að nema burt Sigríði. Hann spurði hverjir á bátinum væru. Þórður sagði til sín og spurði Bárek að erindum en hann sagði fyrirætlan sína.
Þórður svarar: "Fyrr vil eg skora þér á hólm og hefna svo föður míns ef þess verður auðið en að þú hertakir systur mína."
Bárekur kvað það ekki barnafæri. Þó varð svo að vera sem Þórður vildi. Þórður bar af sér hið fyrsta högg Báreks með skildi en hjó undan Báreki fótinn fyrir ofan kné, þann er heill var, en í öðru höggi hjó hann höfuðið af Báreki. Fór Þórður heim síðan í Hísing og þótti hann mikið hafa vaxið af verki þessu.
3. kafliÍ þann tíma réð fyrir Noregi Eiríkur konungur blóðöx. Hann átti Gunnhildi konungamóður. Þeirra synir voru þeir Haraldur gráfeldur, Gamli, Guttormur, Guðröður, Sigurður slefa, Ragnfröður, Hrærekur, Eyvindur og Tósti. Þórður réðst til fylgdar við Gamla Gunnhildarson.
Litlu síðar varð höfðingjaskipti í Noregi. Kom í land Hákon Aðalsteinsfóstri en Eiríkur konungur og Gunnhildur urðu út rekin með sonum sínum og landflótta. Varð Eiríkur konungur að Norðimbralandi. Hann tók skírn á Englandi og féll í víking. En þegar synir hans höfðu þroska lögðust þeir í hernað og voru hinir mestu stríðsmenn.
Dvaldi Þórður hreða nú með Gamla konungi. Og er hann hafði verið þrjá vetur með Gamla konungi gekk hann fyrir konung og beiddi hann orlofs að vitja frænda sinna og fara til Upplanda.
Gamli konungur svarar: "Leyfa skal þér Þórður að fara þangað sem þú vilt en ósýnt þykir mér um fundi okkra. En vel hefir þú með oss verið. Nú skulum við eigi skildir að vináttu þó að við skiljum að samvistum. Hér er eitt sax er eg vil gefa þér. Vildi eg að þú lógaðir eigi nema þú eigir lífi þínu að forða" og segir að gæfa hefir fylgt saxinu.
Þórður segir: "Þykir þér það sýnna fóstri minn að það muni þurfa?"
"Eigi þykir mér það ólíklegt," segir Gamli, "því að þú ert eigi ávallt jafn forsjáll og fyrirleitinn um þinn hag ef þér býður við horfa."
Og skildu þeir Gamli með hinni mestu vináttu og fór Þórður til Upplanda og fundust þeir Gamli aldrei síðan.
4. kafliLitlu síðar féll Gamli konungur, sem segir í ævisögu Noregskonunga, og gerði Haraldur gráfeldur með bræðrum sínum hinn mesta ófrið í Noregi. En hina síðustu orustu áttu þeir á Hörðalandi í Storð á Fitjum og fékk Hákon konungur sigur og banasár. Hann andaðist við Hákonarhellu, þar hafði hann og fæddur verið, og er hann heygður á Sæheimi.
Eiríkssynir lögðu land undir sig og hétu þeir öllum mönnum lögum þeim sem Hákon konungur hafði sett í landinu. Þeir gáfu og höfðingjum nafnbætur sem áður höfðu þeir haft feður þeirra og svo ríki. En er þeir voru sestir í ríki og festir í landi þá þótti þeim of mikið vald hafa Sigurður jarl í Þrándheimi. Þeir komu norður til hans um nótt, tóku hús á honum og brenndu hann inni. Þeir drápu og Guðröð konung og Tryggva föður Ólafs konungs og marga aðra ágæta menn tóku þeir af lífi. Á þeirra dögum var í Noregi hallæri mikið bæði á sjó og landi svo að margir göfugir menn þoldu eigi vanrétti og rangindi og drápu bændur ríkismenn ...
(Hér endar fyrra brotið. Síðara brotið hefst í ræðu Þórðar þegar hann er að hverfa úr Miðfirði og nær til loka sögunnar.)
5. kafli"... ga sínum. Það annað að eg vildi firrast vandræði við Skeggja sakir þín fóstri minn. Hitt hið þriðja að eg sé að Skeggi er bæði mannmargur og þingríkur. Það hið fjórða er fyrir bítur að eg má eigi mönnum þeim trúa er í Miðfirði vinir mínir látast. Og sé eg að mér dugir það eigi ef þú ert í burtu fóstri minn ef nokkuð skerst í með okkur föður þínum. En mér þykir það eigi ólíklegt sakir beggja okkar skapsmuna. Hefi eg og nokkuð reynt ótrúleika þeirra við mig sem er Börkur hinn gamli á Barkarstöðum og Svertingur á Svertingsstöðum og þeir bræður Þórveigarsynir á Steinsstöðum og Grímur Skárason á Skárastöðum í Austurárdal."
Nú búast þeir allir brott úr Miðfirði. Reið Eyvindur með þeim.
Og er þeir komu á þá borg er Bessaborg heitir þá sneri Þórður aftur og leit á fjörðinn og mælti: "Fagur ertu þó Miðfjörður þó að eg verði nú við þig að skilja. Mun þeim nú höfðingjunum þykja af einn hinn ólmasti er eg em á burtu. En það læt eg um mælt að þeir sem mestir menn eru í Miðfirði verði aldrei samhuga svo að árum skipti. Og það annað að það haldist sem mér þykir nú vera og hefi raun í hendi mér um að hér er fólk orðslaugarmeira og ósannorðara en í flestum sveitum öðrum. Það hið þriðja að af takist hafskipalægi í Miðfirði. Það mæli eg og um sakir þess að mér er vel við sveitina að hér séu menn gestrisnari en annars staðar og búandi þó betur. Það annað að hér sé bóndaval betra en víða annars staðar og komi sjaldan óár. Það hið þriðja að sá maður er hér vex upp verði hér aldrei hengdur."
Síðan riðu þeir allir norður til Miklabæjar og fagnar Ólöf þeim vel og býður þeim vel þar að vera og svo gerðu þeir. Þeir segja henni sín erindi. Hún tók því vel en vill þó gera þetta við ráð þeirra feðga Kálfs og Eyvindar. Fór nú þetta fram að Ólöf var gefin Þórði og bjuggu þau á Miklabæ lengi síðan en þeim bræðrum sínum Eyjólfi og Steingrími gaf hann jörðina að Ósi í Miðfirði og búið með. Síðan fékk hann þeim sæmileg kvonföng sem þeim sómdi því að þeir voru hinir bestu bændur. Bjuggu þeir að Ósi til elli og er mart manna frá þeim komið og hinn mesti ættbogi. Þeir Eiður og Þórður skildu með hinni mestu vináttu og hélst þeirra vinfengi meðan þeir lifðu báðir.
6. kafliÞað sama sumar er Þórður reisti bú á Miklabæ í Óslandshlíð og hann hafði fengið Ólafar sigldu þeir Eiður og Eyvindur Kálfsson og fóru þeir landa milli um hríð og voru með tignum mönnum og reyndust hinir röskustu menn í öllum mannraunum. Eiður varð og manna vitrastur til lögmáls og allra ráðagerða. Eyvindur var hinn besti drengur og kunni vel að vera með tignum mönnum og var áburðarmaður mikill og því var hann kallaður Eyvindur prúði. Héldu þeir Eiður og Eyvindur sínum félagsskap alla stund meðan þeir voru í kaupferðum.
En er þeir léttu förum fór Eyvindur norður til Miklabæjar til móts við Þórð mág sinn og vin. Þau Þórður og Ólöf tóku við honum með hinni mestu virðingu og buðu honum með sér að vera og það þá Eyvindur og var þar um veturinn. En um vorið spurði Þórður hvað Eyvindur vildi ráða taka.
Hann svarar: "Það hefi eg helst staðfest með mér að leggja af kaupferðir og staðfesta ráð mitt því að svo hefir Eiður gert nú félagi minn."
Þórður segir: "Skal eg hlut í eiga sem þú vilt að snúa og ekki þar til spara, hvorki peninga né mannskap. Eða hvar viltu að snúa?"
Eyvindur mælti: "Eyjólfur heitir maður er býr norður í Ólafsfirði á Gunnólfsstöðum, son Þorbjarnar þjóts úr Sogni. Eyjólfur vó Végeir föður Vébjarnar Sygnakappa. Hann á þá konu er Gróa heitir, dóttir Þorvarðs frá Urðum. Þau eiga fjögur börn. Synir þeirra eru þeir Steinólfur, Þórir og Þorgrímur en dóttir þeirra heitir Þórarna, kvenna best mennt. Hennar vil eg fá mér til handa."
"Svo skal vera," segir Þórður.
Búast þeir heiman við tólfta mann og ríða norður til Gunnólfsstaða. Verður þeirra erindi hið besta. Fékk Eyvindur Þórörnu og fór hún heim með honum. Reistu þau bú um vorið á Óslandi og bjuggu þar síðan. Er mart manna frá þeim komið.
Eftir skilnað þeirra Eyvindar og Eiðs fór Eiður suður til Borgarfjarðar bónorðsför til Grímsgils. Þar bjó sá maður er Grímur hét og átti þá dóttur er Ingibjörg hét. Hennar fékk Eiður. Bræður Ingibjargar voru þeir Þorgils auga á Augastöðum og Hrani á Hranastöðum, faðir Stafngríms er bjó á Stafngrímsstöðum. Það heitir nú á Sigmundarstöðum. Segja það sumir menn að Eiður ætti aðra konu síðar. Eiður átti mörg börn. Þórhallur hét son hans, Eysteinn og Illugi.
Björn var og son hans er þeir vógu synir Helga frá Kroppi, Grímur og Njáll. Njáll drukknaði litlu síðar í Hvítá en Grímur varð sekur skógarmaður um vígið og lá hann úti á fjöllum meðan hann var í sektinni. Hann var mikill maður og sterkur. Eiður var þá gamlaður mjög og var að þessu ger engi reki.
Í þenna tíma var í förum Þorkell Eyjólfsson. Hann var hinn frægasti maður og kynstór. Hann var mikill vin Snorra goða. Hann var og jafnan með Þorsteini Kuggasyni frænda sínum þá er hann var út hér. Þorkell var náfrændi Eiðs. Hróðný var systir Eiðs, móðir Eyjólfs, föður Þorkels. Menn lágu mjög á hálsi Þorkeli Eyjólfssyni er hann rak eigi þessa réttar.
Um veturinn er Þorkell bjó skip sitt er uppi stóð í Vaðli á Barðaströnd fer hann suður til Borgarfjarðar og fær sér þar hest og ríður einn samt og léttir eigi fyrr ferðinni en hann kemur í Ás til Eiðs frænda síns. Eiður tók við honum feginsamlega. Þorkell segir honum sitt erindi að hann vill leita til hefnda við Grím skógarmann hans. Þorkell spyr þá Eið ef hann vissi nokkuð til hvar bæli hans væri.
Eiður svarar: "Ekki er eg þess fús. Þykir mér þú of miklu til hætta, hversu ferðin tekst, að eiga við heljarmann slíkan sem Grímur er. En ef þú vilt fara þá farðu við svo marga menn að þú eigir allt undir þér."
"Það þykir mér eigi frami," segir Þorkell, "að draga fjölmenni að einum manni. En það vildi eg að þú léðir mér sverðið Sköfnung og vænti eg þá eg muni bera af einum einhleypingi þótt hann sé vel að sér búinn."
"Nú muntu ráða," segir Eiður, "en eigi kemur mér á óvart þó að þú iðrist eitthvert sinn þessa einræðis þíns. En með því að þú þykist þetta fyrir mínar sakir gera þá skal eigi þess varna er þú beiðir því að eg ætla þetta sverð vera vel niður komið þó að þú berir það. En sú er náttúra sverðsins að eigi skal sól skína á hjöltin og eigi skal því bregða svo að konur séu hjá. Ef maður fær sár af sverðinu þá má það sár eigi græða nema lyfsteinn sá sé riðinn er þar fylgir."
Þorkell kveðst þessa skyldu vandlega gæta og tekur við sverðinu. Eiður kveðst ætla að Grímur ætti bæli norður á heiðum við Fiskivötn.
Síðan ríður Þorkell norður á heiðina þá leið er Eiður hafði vísað honum. Og er hann sótti á heiðina sér hann við vatn eitt mikinn skála og sækir hann þangað til. En er hann kemur til skálans sér hann hvar maður situr við vatnið við einn lækjarós og dró fiska. Hann hafði feld á höfði. Þorkell stígur af baki og bindur hestinn undir skálanum. Síðan gengur hann fram að vatninu þar sem maðurinn sat. Grímur sá skuggann mannsins og spratt upp skjótt því að skuggann bar í vatnið. Þorkell var þá kominn að honum og höggur til hans og kemur á höndina fyrir ofan úlflið og var það ekki mikið sár. Grímur rann þegar á Þorkel og takast þeir fangbrögðum. Þar kenndi brátt aflsmunar og féll Þorkell en Grímur á hann ofan.
"Hver er maður þessi?" segir Grímur.
Þorkell kvað hann það engu skipta.
Grímur mælti: "Nú hefir öðruvís orðið en þú mundir ætla því að nú er þitt líf í mínu valdi."
Þorkell kveðst eigi mundu sér griða biðja.
Grímur segir: "Vaxa mín óhöpp þó að eg drepi þig því að mér líst vel á þig og gæfusamlega. Mun þér og annarra forlaga auðið verða en þú látist af okkrum fundi og vil eg þér líf gefa en þú launa sem þú vilt."
Standa þeir nú upp og ganga nú heim til skálans. Þorkell sér að Grím mæðir blóðrás og tekur steininn Sköfnungs og ríður honum í sárið og bindur höndina og tók þegar allan þrota og sviða úr sárinu. Þar eru þeir um nóttina. En um morguninn býst Þorkell brott og spyr hvort Grímur vill fara með honum. Hann kveðst það að vísu vilja. Þorkell snýr þegar vestur og kemur ekki á fund Eiðs, léttir eigi fyrr en hann kemur í Sælingsdalstungu. Eiður fréttir þetta og þótti hafa farið að getu sinni og unir nú illa við og verður þó svo búið að vera.
Þórhallur Eiðsson átti tvo sonu, Skeggja og Eið. Skeggi átti Guðrúnu Þorkelsdóttur, Brandssonar, Þorgrímssonar, Kjallakssonar hins gamla. Þeirra börn voru þau Úlfur og Halldór, Þorleikur og Þórarna. Úlfur átti Helgu dóttur Eyjólfs Snorrasonar goða. Þessi voru börn þeirra: Snorri og Eyjólfur, Sigurður og Sumarliði, Þórður og Einar, Hallbera og Kolþerna er Loftur átti Þorgrímsson en Hallberu átti Þormóður Lýtingsson. Þeirra son var Lýtingur.
Eiður Þórhallsson var faðir Þórhalls. Hann átti Hallbjörgu Hafþórsdóttur. Þessi voru börn þeirra: Steinn og Eiður, Þorgeir og Oddný. Hana átti Árni son Víga-Gunnars. Þeirra dóttir var Geirlaug. Hana átti Högni auðgi í Bæ. Þeirra dóttir var Snjólaug er átti Þórður prestur Böðvarsson. Þeirra son var Böðvar í Bæ og Þorleifur í Görðum og Markús á Melum. Hans son var Mela-Snorri. Hann átti Helgu Ketilsdóttur prests, Þorlákssonar, Ketilssonar, Þorsteinssonar. Þeirra son var Þorsteinn böllóttur er var ábóti að Helgafelli.
7. kafliSkeggi lifði litla stund síðan eftir viðskipti þeirra Þórðar og var þó gamall maður og þótti vera mikill höfðingi og hinn mesti garpur og fullhugi.
Þórður hreða bjó á Miklabæ í Óslandshlíð til elli og var hinn mesti garpur og jafnan ófyrirleitinn og hinn hagasti bæði á tré og járn. Hann smíðaði skála að Hrafnagili, þann er enn stendur í dag, og mörg stór hús önnur á Íslandi þau er eftir eru vel standandi.
Hann gifti Guðrúnu Klyppsdóttur hersis bróðurdóttur sína Einari Þveræing Eyjólfssyni og voru þessi börn þeirra: Járnskeggi, Klyppur, Þorleifur og Áslákur, Halldóra, Hallfríður, Helga, Jórunn, Valgerður og Vigdís.
Járnskeggi átti Jórunni dóttur Hjalta Skeggjasonar.
Halldóru Einarsdóttur átti Þórarinn sælingur. Hallfríði Einarsdóttur átti Snorri goði. Þeirra son var Halldór, faðir Guðrúnar er átti Kjartan Ásgeirsson. Þeirra son var Þorvaldur, faðir Ingiríðar er átti Guðlaugur Þórðarson Auðunarsonar. Þeirra dóttir var Vigdís er átti Oddur Þorvarðarson af Söndum úr Dýrafirði. Þeirra son var Áli hinn auðgi, faðir herra Hrafns og Herdísar, móður Bjarnar, föður Gissurar galla, föður Hákonar, föður Jóns.
Helgu Einarsdóttur átti Ljótur son Halls af Síðu. Þeirra dóttir var Guðrún, móðir Hallberu, móður Þorgils Oddasonar.
Jórunni Einarsdóttur átti Þorkell Geitisson. Þeirra dóttir var Ragnheiður er átti Loftur Þórarinsson, Loftssonar hins gamla af Eyrum. Þeirra dóttir var Þuríður er átti Þórður Klængsson, Örnólfssonar, Þórólfssonar. En móðir Þórðar Klængssonar var Hallgríma Þorbjarnardóttir, Eiríkssonar úr Guðdölum örðigskeggja. Margrét var dóttir þeirra Þuríðar og Þórðar Klængssonar. Hana átti Bárður hinn svarti úr Selárdal, faðir Sveinbjarnar, föður Hrafns, föður Steinunnar, móður Herdísar, móður Bjarnar, föður Gissurar galla, föður Hákonar, föður Jóns.
Valgerði Einarsdóttur átti Grímur Oddason Ásólfssonar. Þeirra dóttir var Hallbera, móðir Markúss lögsögumanns, föður Valgerðar er átti Þórður Skúlason, Egilssonar, Hriflusonar, Þorsteinssonar, Egilssonar, Skalla-Grímssonar, Kveld-Úlfssonar. Böðvar var sonur Þórðar og Valgerðar, faðir Guðnýjar er átti Hvamm-Sturli. Þeirra son var herra Sighvatur, faðir Þórðar kakala, föður Kolbeins, föður Þórðar, föður Árna, föður Ingileifar.