SNEGLU - HALLA  ÞÁTTUR  (eftir  Flateyjarbók)




1. kafli

Það er upphaf þessar frásagnar að Haraldur konungur Sigurðarson réð fyrir Noregi. Það var í þann tíma er Magnús konungur frændi hans var andaður. Svo er sagt að Haraldur konungur var allra manna vitrastur og ráðugastur. Varð það og flest að ráði er hann lagði til. Hann var skáld gott og jafnan kastaði hann háðyrðum að þeim mönnum er honum sýndist. Þoldi hann og allra manna best þótt að honum væri kastað klámyrðum þá er honum var gott í skapi. Hann átti þá Þóru dóttur Þorbergs Árnasonar. Honum þótti mikið gaman að skáldskap og hafði jafnan þá með sér er kveða kunnu.

Þjóðólfur hét maður. Hann var íslenskur og ættaður úr Svarfaðardal, kurteis maður og skáld mikið. Hann var með Haraldi konungi í hinum mestum kærleikum. Kallaði konungur hann höfuðskáld sitt og virti hann mest allra skálda. Hann var ættsmár og menntur vel, öfundsjúkur við þá er til komu.

Haraldur konungur elskaði mjög Íslendinga. Gaf hann til Íslands marga góða hluti, klukku góða til Þingvallar. Og þá er hallæri það hið mikla kom á Ísland er ekki hefir slíkt komið annað þá sendi hann út til Íslands fjóra knörru hlaðna með mjöl, sinn í hvern fjórðung, og lét flytja í brott fátæka menn sem flesta af landinu.


2. kafli

Bárður hét maður og var hirðmaður Haralds konungs. Hann sigldi til Íslands og kom út að Gásum og vistaðist þar um veturinn.

Sá maður tók sér far með honum er Halli hét og var kallaður Sneglu-Halli. Hann var skáld gott og orðgreppur mikill. Halli var hár maður og hálslangur, herðilítill og handsíður og ljótlimaður. Hann var ættaður úr Fljótum.

Þeir sigldu þegar þeir voru búnir og höfðu langa útivist, tóku Noreg um haustið norður við Þrándheim við eyjar þær er Hítrar heita og sigldu síðan inn til Agðaness og lágu þar um nótt. En um morguninn sigldu þeir inn eftir firðinum lítinn byr. Og er þeir komu inn um Rein sáu þeir að langskip þrjú reru innan eftir firðinum. Dreki var hið þriðja skipið. Og er skipin reru hjá kaupskipinu þá gekk maður fram úr lyftingunni á drekanum í rauðum skarlatsklæðum og hafði gullhlað um enni, bæði mikill og tigulegur.

Þessi maður tók til orða: "Hver stýrir skipinu eða hvar voruð þér í vetur eða hvar tókuð þér fyrst land eða hvar láguð þér í nótt?"

Þeim varð næsta orðfall kaupmönnum er svo var margs spurt en Halli svarar þá: "Vér vorum í vetur á Íslandi en ýttum af Gásum en Bárður heitir stýrimaður en tókum land við Hítrar en lágum í nótt við Agðanes."

Þessi maður spurði, er reyndar var Haraldur konungur Sigurðarson: "Sarð hann yður ei Agði?"

"Eigi enna," segir Halli.

Konungurinn brosti að og mælti: "Er nokkur til ráðs um að hann muni enn síðar meir veita yður þessa þjónustu?"

"Ekki," sagði hann Halli, "og bar þó einn hlutur þar mest til þess er vér fórum enga skömm af honum."

"Hvað var það?" segir konungur.

Halli vissi gjörla við hvern hann talaði.

"Það herra," segir hann, "ef yður forvitnar að vita að hann Agði beið að þessu oss tignari manna og vætti yðvar þangað í kveld og mun hann þá gjalda af höndum þessa skuld ótæpt."

"Þú munt vera orðhákur mikill," segir konungur.

Ei er getið orða þeirra fleiri að sinni. Sigldu þeir kaupmennirnir inn til Kaupangs og skipuðu þar upp og leigðu sér hús í bænum.

Fám nóttum síðar kom konungur inn aftur til bæjar og hafði hann farið í eyjar út að skemmta sér. Halli bað Bárð fylgja sér til konungsins og kveðst vilja biðja hann veturvistar. En Bárður bauð honum með sér að vera. Halli bað hann hafa þökk fyrir en kveðst með konunginum vilja vera ef þess væri kostur.


3. kafli

Einn dag gekk Bárður til konungs og Halli með honum. Bárður kvaddi konung. Konungur tók vel kveðju hans og spurði margs af Íslandi eða hvort hann hefði flutt utan nokkra íslenska menn.

Bárður sagðist flutt hafa einn íslenskan mann "og heitir hann Halli og er nú hér herra og vill biðja yður veturvistar."

Halli gekk þá fyrir konunginn og kvaddi hann.

Konungurinn tók honum vel og spurði hvort hann hefði svarað honum á firðinum "er vér fundumst."

"Sjá hinn sami," segir Halli.

Konungurinn sagðist ei spara mundu mat við hann og bað vera að búi sínu nokkru. Halli kveðst með hirðinni vera vilja eða leita sér annars ella.

Konungurinn kvað svo fara jafnan "að mér er um kennt ef vor vinskapur fer ei vel af hendi þó að mér þyki varla svo vera. Eruð þér einráðir Íslendingar og ósiðblandnir. Nú ver ef þú vilt og ábyrgst þig sjálfur hvað sem í kann gerast."

Halli kvað svo vera skyldu og þakkaði konunginum. Var hann nú með hirðinni og líkaði hverjum manni vel til hans. Sigurður hét sessunautur Halla, gamall hirðmaður og gæfur.

Sá var siður Haralds konungs að eta einmælt. Var fyrst borin vist fyrir konung, sem von var, og var hann þá jafnan mjög mettur er vistin kom fyrir aðra. En þá er hann var mettur klappaði hann með hnífskafti sínu á borðið og skyldi þá þegar ryðja borðin og voru margir þá hvergi nærri mettir.

Það bar við eitt sinn er konungur gekk úti um stræti og fylgdin með honum og voru margir þá hvergi nærri mettir. Þeir heyrðu í eitt herbergi deild mikla. Þar voru að sútari og járnsmiður og þar næst flugust þeir á. Konungurinn nam staðar og sá á um stund.

Síðan mælti hann: "Göngum brott. Hér vil eg öngvan hlut að eiga en þú Þjóðólfur yrk um þá vísu."

"Herra," segir Þjóðólfur, "ei samir það þar sem eg er kallaður höfuðskáld yðvart."

Konungur svarar: "Þetta er meiri vandi en þú munt ætla. Þú skalt gera af þeim alla menn aðra en þeir eru. Lát annan vera Sigurð Fáfnisbana en annan Fáfni og kenn þó hvern til sinnar iðnar."

Þjóðólfur kvað þá vísu:

Sigurðr eggjaði sleggju
snák válegrar brákar
en skapdreki skinna
skreið af leista heiði.
Mönnum leist ormr áðr ynni
ilvegs búinn kilju,
nautaleðrs á naðri
neflangr konungr tangar.

"Þetta er vel kveðið," segir konungur, "og kveð nú aðra og lát nú vera annan Þór en annan Geirröð jötun og kenn þó hvern til sinnar iðnar."

Þá kvað Þjóðólfur vísu:

Varp úr þrætu þorpi
Þórr smiðbelgja stórra
hvofteldingum höldnu
hafra kjöts að jötni.
Hljóðgreipum tók húðar
hrökkviskafls af afli
glaðr við galdra smiðju
Geirröðr síu þeirri.

"Ekki ertu mæltur um það," segir konungur, "að þú ert úrleysingur til skáldskapar."

Og lofuðu allir að vel væri ort. Ekki var Halli við þetta.

Og um kveldið er menn sátu við drykk kváðu þeir fyrir Halla og sögðu hann ei mundu svo yrkja þótt hann þættist skáld mikið.

Halli kveðst vita að hann orti verr en Þjóðólfur "enda mun þá firrst um fara ef eg leita ekki við að yrkja enda sé eg ekki við," segir Halli.

Þetta var þegar sagt konungi og snúið svo að hann þættist ei minna skáld en Þjóðólfur.

Konungur kvað honum ei að því verða mundu "en vera kann að vér fáum þetta reynt af stundu."


4. kafli

Það var einn dag er menn sátu yfir borðum að þar gekk inn í höllina dvergur einn er Túta hét. Hann var frískur að ætt. Hann hafði lengi verið með Haraldi konungi. Hann var ei hærri en þrevett barn en allra manna digrastur og herðimestur, höfuðið mikið og eldilegt, hryggurinn ei allskammur en sýlt í neðan þar sem fæturnir voru.

Haraldur konungur átti brynju þá er hann kallaði Emmu. Hann hafði látið gera hana í Miklagarði. Hún var svo síð að hún tók niður á skó Haraldi konungi þá er hann stóð réttur. Var hún öll tveföld og svo styrk að aldrei festi járn á. Konungurinn hafði látið fara dverginn í brynjuna og setja hjálm á höfuð honum og gyrti hann sverði. Síðan gekk hann í höllina sem fyrr var ritað og þótti maðurinn vera undurskapaður.

Konungur kvaddi sér hljóðs og mælti: "Sá maður er kveður um dverginn vísu svo að mér þyki vel kveðin þiggi að mér hníf þenna og belti" og lagði fram á borðið fyrir sig gripina "en vitið það víst ef mér þykir ei vel kveðin að hann skal hafa óþökk mína en missa gripanna beggja."

Og þegar er konungur hafði flutt erindi sitt kveður maður vísu utar á bekkinn og var það Sneglu-Halli:

Færðr sýnist mér frændi
Frísa kyns í brynju.
Gengr fyrir hirð í hringum
hjálmfaldinn kurfaldi.
Flærat eld í ári
úthlaupi vanr Túta.
Sé eg á síðu leika
sverð rúghleifa skerði.

Konungur bað færa honum gripuna "og skaltu ná hér á sannmæli því að vísan er vel kveðin."

Það var einn dag er konungurinn var mettur að konungur klappaði hnífi á borðið og bað ryðja. Þjónustumenn gerðu svo. Þá var Halli hvergi nærri mettur. Tók hann þá stykki eitt af diskinum og hélt eftir og kvað þetta:

Hirði eg ei
hvað Haraldr klappar.
Læt eg gnadda grön.
Geng eg fullur að sofa.

Um morguninn eftir er konungur var kominn í sæti sitt og hirðin gekk Halli í höllina og fyrir konunginn. Hann hafði skjöld sinn og sverð á baki sér.

Hann kvað vísu:

Selja mun eg við sufli
sverð mitt, konungr, verða,
og rymskyndir randa
rauðan skjöld við brauði.
Hungrar hilmis drengi.
Heldr göngum vér svangir.
Mér dregr hrygg, að hvoru,
Haraldr sveltir mig, belti.

Engu svarar konungur og lét sem hann heyrði ei en þó vissu allir menn að honum mislíkaði.

Litlu síðar var það einn dag er konungurinn gekk úti um stræti og fylgdin með honum. Þar var og Halli í för. Hann snaraði fram hjá konunginum.

Konungurinn kvað þetta:

"Hvert stillir þú Halli?"

Halli svarar:

"Hleyp eg fram að kýrkaupi."

"Graut muntu gervan láta?"

segir konungur.

"Gjör matr er það, smjörvan,"

segir Halli.

Hleypur hann Halli þá upp í garðinn og þangað sem var eldahús. Þar hafði hann látið gera graut í steinkatli og settist til og etur grautinn.

Konungurinn sér að Halli hverfur upp í garðinn. Hann kvaddi til Þjóðólf og tvo menn aðra að leita Halla. Konungur veik og upp í garðinn. Þeir finna hann þar sem hann át grautinn. Konungurinn kom þá að og sá hvað Halli hafðist að. Konungurinn var hinn reiðasti og spurði Halla því hann fór af Íslandi til höfðingja til þess að gera af sér skömm og gabb.

"Látið eigi svo herra," segir Halli, "jafnan sé eg yður ei drepa hendi við góðum sendingum."

Halli stóð þá upp og kastaði niður katlinum og skall við haddan.

Þjóðólfur kvað þá þetta:

Haddan skall en Halli
hlaut offylli grautar.
Hornspónu kveð eg honum
hlýða betr en prýði.

Konungurinn gekk þá brottu og var allreiður.

Og um kveldið kom engi matur fyrir Halla sem fyrir aðra menn. Og er menn höfðu snætt um stund komu enn tveir menn og báru í milli sín trog mikið, fullt grautar, og með spón og settu fyrir Halla. Hann tók til og át sem hann lysti og hætti síðan.

Konungur bað Halla eta meira. Hann kveðst ei mundu eta meira að sinni. Haraldur konungur brá þá sverði og bað Halla eta grautinn þar til er hann spryngi af. Halli kveðst ei mundu sprengja sig á grauti en segir konung ná mundu lífi sínu ef hann væri á það einhugi. Konungur sest þá niður og slíðrar sverðið.


5. kafli

Nokkru síðar var það einn dag að konungur tók disk einn af borði sínu og var á steiktur grís og bað Tútu dverg færa Halla "og bið hann yrkja vísu ef hann vill halda lífinu og hafa kveðið áður þú kemur fyrir hann og seg honum ei fyrr en þú kemur á mitt gólf"

"Ekki er eg þess fús," segir Túta, "því að mér líkar vel við Halla."

"Sé eg," sagði konungur, "að þér þykir góð vísan sú er hann orti um þig og muntu gjörla heyra kunna. Nú far í burt í stað og ger sem eg býð."

Túta tók nú við diskinum og gekk á mitt gólfið og mælti: "Þú Halli yrk vísu að boði konungs og haf ort áður eg kem fyrir þig ef þú vilt halda lífinu."

Halli stóð þá upp og rétti hendur í móti diskinum og kvað vísu:

Grís þá greppr að ræsi
gruntrauðustum dauðan.
Njörðr sér börg á borði
bauglands fyrir standa.
Runa síðr lít eg rauðar.
Ræð eg skjótt gera kvæði.
Rana hefir seggr af svíni,
send heill konungr, brenndan.

Konungur mælti þá: "Nú skal gefa þér upp reiði mína Halli því að vísan er vel kveðin svo skjótt sem til var tekið."


6. kafli

Frá því er sagt einn dag að Halli gekk fyrir konunginn þá er hann var glaður og kátur. Þar var þá Þjóðólfur og margt annarra manna. Halli sagðist hafa ort drápu um konunginn og bað sér hljóðs. Konungurinn spurði hvort Halli hefði nokkuð kvæði fyrri ort. Halli kveðst ekki hafa ort.

"Það munu sumir menn mæla," segir konungur, "að þú takist mikið á hendur, slík skáld sem ort hafa um mig áður eftir nokkrum málefnum. Eða hvað sýnist þér ráð Þjóðólfur?"

"Ekki kann eg herra að gefa yður ráð," segir Þjóðólfur, "en hitt mun hóti nær að eg mun kunna að kenna Halla heilræði."

"Hvert er það?" segir konungur.

"Það fyrst herra að hann ljúgi ekki að yður."

"Hvað lýgur hann nú?" segir konungur.

"Það lýgur hann að hann sagðist ekki kvæði ort hafa," segir Þjóðólfur, "en eg segi hann ort hafa."

"Hvert er kvæði það," segir konungur, "eða um hvað er ort?"

Þjóðólfur svarar: "Það köllum vér Kolluvísur er hann orti um kýr er hann gætti út á Íslandi."

"Er það satt Halli?" segir konungur.

"Satt er það," segir Halli.

"Því sagðir þú að þú hefðir ekki kvæði ort?" segir konungur.

"Því," segir Halli, "að lítil kvæðismynd mundi á því þykja ef þetta skal heyra og lítt mun því verða á loft haldið."

"Það viljum vér fyrst heyra," segir konungur.

"Skemmt mun þá fleira," segir Halli.

"Hverju þá?" segir konungur.

"Kveða mun Þjóðólfur þá skulu Soðtrogsvísur er hann orti út á Íslandi," segir Halli, "og er það vel að Þjóðólfur leitaði á mig eða afvirti fyrir mér því að upp eru svo komnir í mér bitar og jaxlar að eg kann vel að svara honum jöfnum orðum."

Konungur brosti að og þótti honum gaman að etja þeim saman.

"Hvern veg er kvæði það eða um hvað er ort?" segir konungur.

Halli svarar: "Það er ort um það er hann bar út ösku með öðrum systkinum sínum og þótti þá til einkis annars fær fyrir vitsmuna sakir og varð þó um að sjá að ei væri eldur í því að hann þurfti allt vit sitt í þann tíma."

Konungur spyr ef þetta væri satt.

"Satt er það herra," segir Þjóðólfur.

"Því hafðir þú svo óvirðulegt verk?" segir konungur.

"Því herra," segir Þjóðólfur, "að eg vildi flýta oss til leika en ekki voru verk á mig lagin."

"Það olli því," segir Halli, "að þú þóttir ei hafa verkmanns vit."

"Ekki skuluð þið við talast," segir konungur, "en heyra viljum vér kvæðin bæði."

Og svo varð að vera. Kvað þá hvor sitt kvæði.

Og er lokið var kvæðunum mælti konungurinn: "Lítið er kvæðið hvorttveggja enda munu lítil hafa verið yrkisefnin og er það þó enn minna er þú hefir ort Þjóðólfur."

"Svo er og herra," segir Þjóðólfur, "og er Halli orðhvass mjög. En skyldara þætti mér honum að hefna föður síns en eiga sennur við mig hér í Noregi."

"Er það satt Halli?" segir konungur.

"Satt er það herra," segir hann.

"Hví fórstu af Íslandi til höfðingja við það að þú hafðir eigi hefnt föður þíns?" segir konungur.

"Því herra," segir Halli, "að eg var barn að aldri er faðir minn var veginn og tóku frændur málið og sættust á fyrir mína hönd. En það þykir illt nafn á voru landi að heita griðníðingur."

Konungurinn svarar: "Það er nauðsyn að ganga ei á grið eða sættir og er úr þessu allvel leyst."

"Svo hugði eg herra," segir Halli, "en vel má Þjóðólfur tala stórmannlega um slíka hluti því að öngvan veit eg jafngreypilega hefnt hafa síns föður sem hann."

"Víst er Þjóðólfur líklegur til að hafa það hraustlega gert," segir konungur, "eða hvað verkum gert um það að hann hafi það framar gert en aðrir menn?"

"Það helst herra," segir Halli, "að hann át sinn föðurbana."

Nú æptu menn upp og þóttust aldrei slík undur heyrt hafa. Konungurinn brosti að og bað menn vera hljóða.

"Ger þetta satt er þú segir Halli," segir konungur.

Halli mælti: "Það hygg eg að Þorljótur héti faðir Þjóðólfs. Hann bjó í Svarfaðardal á Íslandi og var hann fátækur mjög en átti fjölda barna. En það er siður á Íslandi á haustum að bændur þinga til fátækra manna og var þá engi fyrri til nefndur en Þorljótur faðir Þjóðólfs og einn bóndi var svo stórlyndur að honum gaf sumargamlan kálf. Síðan sækir hann kálfinn og hafði á taum og var lykkja á enda taumsins. Og er hann kemur heim að túngarði sínum hefur hann kálfinn upp á garðinn og var furðulega hár garðurinn en þó var hærra fyrir innan því að þar hafði verið grafið torf til garðsins. Síðan fer hann inn yfir garðinn en kálfurinn veltur út af garðinum. En lykkjan er á var taumsendanum brást um háls honum Þorljóti og kenndi hann ei niður fótum. Hékk nú sínumegin hvor og voru dauðir báðir er til var komið. Drógu börnin heim kálfinn og gerðu til matar og hygg eg að Þjóðólfur hefði óskert sinn hlut af honum."

"Nærri hófi mundi það," segir konungur.

Þjóðólfur brá sverði og vildi höggva til Halla. Hljópu menn þá í milli þeirra.

Konungur kvað hvorigum hlýða skyldu að gera öðrum mein: "Leitaðir þú Þjóðólfur fyrri á Halla."

Varð nú svo að vera sem konungur vildi. Færði Halli drápuna og mæltist hún vel fyrir og launaði konungur honum góðum peningum.

Leið nú á veturinn og var allt kyrrt.


7. kafli

Einar var maður nefndur og var kallaður fluga. Hann var son Háreks úr Þjóttu. Hann var lendur maður og hafði sýslu á Hálogalandi og finnferð af konungi og var nú í kærleikum miklum við konung en þó eldi þar jafnan ýmsu á. Einar var óeinarðarmaður mikill. Drap hann menn ef ei gerðu allt sem hann vildi og bætti öngvan mann. Einars var von til hirðarinnar að jólunum.

Þeim Halla og Sigurði sessunaut hans varð talað til Einars. Sagði Sigurður Halla frá að engi maður þorði að mæla í móti Einari eða í aðra skál að leggja en hann vildi og hann bætti ekki fé fyrir víg eða rán.

Halli svarar: "Vændishöfðingjar mundu slíkt kallaðir á voru landi."

"Mæl þú varlega félagi," segir Sigurður, "því að hann er lítilþægur að orðum ef honum er í móti skapi."

"Þó að þér séuð allir svo hræddir," segir Halli, "að enginn yðvar þori að mæla eitt orð í móti honum þá segi eg þér það að eg skyldi kæra ef hann gerði mér rangt og þess get eg að hann bæti mér."

"Hví þér en öðrum?" segir Sigurður.

"Það mundi honum sýnast," segir Halli.

Þar til þræta þeir hér um að Halli býður Sigurði að veðja hér um. Leggur Sigurður hér við gullhring er stóð hálfa mörk en Halli leggur við höfuð sitt.

Einar kemur að jólunum og situr hann á aðra hönd konungi og menn hans út frá honum. Var honum öll þjónusta veitt sem konungi sjálfum.

Og jóladag er menn voru mettir mælti konungurinn: "Nú viljum vér hafa fleira til gamans en drekka. Skaltu nú Einar segja oss hvað til tíðinda hefir orðið í förum yðrum."

Einar svarar: "Ekki kann eg það í frásagnir að færa herra þó að vér hnúskum búfinna eða fiskimenn."

Konungur svarar: "Segið settlega því að vér erum lítilþægir að og þykir oss gaman að því öllu þó að yður þyki lítils vert er jafnan standið í stríði."

"Það er þó herra helst að segja," segir Einar, "að í fyrra sumar er vér komum norður á Mörkina mættum vér Íslandsfari einu og höfðu þeir orðið þangað sæhafa og setið þar um veturinn. Bar eg á hendur þeim að þeir mundu átt hafa kaup við Finna fyrir utan yðvart lof eða mitt en þeir duldu og gengu ei við en oss þóttu þeir ótrúlegir og beiddi eg þá rannsóknar en þeir synjuðu þverlega. Eg sagði það þá að þeir skyldu hafa það er þeim væri verra og maklegra og bað eg mína menn vopnast og leggja að þeim. Eg hafði fimm langskip og lögðum vér að á bæði borð og léttum ei fyrr en hroðið var skipið. Og einn íslenskur maður er þeir kölluðu Einar varðist svo vel að hans maka fann eg aldrei og víst var skaði að um þann mann og ei hefðum vér unnið skipið ef slíkir hefðu allir verið innanborðs."

"Illa gerðir þú það Einar," segir konungur, "er þú drepur saklausa menn þó að ei geri allt sem þér líkar best."

"Mun eg ei," segir Einar, "sitja fyrir hættu þeirri. En mæla það sumir menn herra að þér gerið ei allt sem guðréttilegast. En þeir reyndust illa og fundum vér mikinn finnskrepp í skipinu."

Halli heyrði hvað þeir töluðu og kastaði hnífinum fram á borðið og hætti að eta. Sigurður spurði ef hann væri sjúkur.

Hann kvað það ei vera en kvað þetta þó sótt verra: "Einar fluga sagði lát Einars bróður míns er hann kveðst fellt hafa á kaupskipinu í fyrra sumar og má vera að nú gefi til að leita eftir bótunum við hann Einar."

"Tala ekki um félagi," segir Sigurður, "sá mun vænstur."

"Nei," sagði Halli, "ekki mundi hann svo við mig gera ef hann ætti eftir mig að mæla."

Hljóp hann þá fram yfir borðið, gekk innar fyrir hásætið og mælti: "Tíðindi sögðuð þér Einar bóndi, þau mér akta ærið mjög, í drápi Einars bróður míns er þér sögðust felldan hafa á kaupskipinu í fyrra sumar. Nú vil eg vita hvort þú vilt nokkru bæta mér Einar bróður minn."

"Hefir þú ei spurt að eg bæti engan mann?" segir Einar.

"Eigi er mér skylt að trúa því," segir Halli, "að þér væri allt illa gefið þó að eg heyrði það sagt."

"Gakk burt maður," segir Einar, "annar mun verri."

Halli gekk að sitja. Sigurður spyr hve farist hefði. Hann svarar og kveðst hafa hótun fyrir fébætur. Sigurður bað hann ei oftar koma á þetta mál og sé laus veðjanin.

Halli kvað honum vel fara "en á skal koma oftar."

Og annan dag eftir gekk Halli fyrir Einar og mælti: "Það mál vil eg vekja Einar ef þú vilt nokkru bæta mér bróður minn."

Einar svarar: "Þú ert seinþreyttur að og ef þú dregst ei brott þá muntu fara slíka för sem bróðir þinn eða verri."

Konungurinn bað hann ei svo svara "og er það frændunum ofraun og veit ei hvers hugar hverjum lér. En þú Halli kom ei aftur á þetta mál því að stærri bokkar verða að þola honum slíkt en þú ert."

Halli svarar: "Svo mun vera verða."

Gekk hann þá til rúms síns. Sigurður fagnar honum vel og spurði hve farist hafði. Halli kveðst hafa heitan fyrir fébætur af Einari.

"Þótti mér það í hug," segir Sigurður, "og sé laus veðjanin."

"Vel fer þér," segir Halli, "en á skal eg koma þriðja sinn."

"Gefa vil eg þér nú til hringinn," sagði Sigurður, "að þú látir vera kyrrt er þetta hefir þó nokkuð af mér til hlotist í fyrstu."

Halli svarar: "Sýnir þú hver maður þú ert og ekki má þér um kenna hversu sem til vegar fer. En prófa skal enn um sinn."

Og þegar um morguninn er konungur tók handlaugar og Einar fluga gekk Halli að honum og kvaddi konunginn. Konungurinn spyr hvað hann vildi.

"Herra," segir Halli, "eg vil segja yður draum minn. Eg þóttist vera allur maður annar en eg er."

"Hvað manni þóttist þú vera?" segir konungur.

"Eg þóttist vera Þorleifur skáld en hann Einar fluga þótti mér vera Hákon jarl Sigurðarson og þóttist eg hafa ort um hann níð og mundi eg sumt níðið er eg vaknaði."

Sneri Halli þá utar eftir höllunni og kvað nokkuð fyrir munni sér og námu menn ei orðaskil.

Konungur mælti: "Þetta var ekki draumur annar en hann dregur þessi dæmi saman. Og svo mun fara með ykkur sem fór með þeim Hákoni Hlaðajarli og Þorleifi skáldi og það sama gerir Halli. Hann svífst einkis og megum við sjá að bitið hefir níðið ríkari menn en svo sem þú ert Einar, sem var Hákon jarl, og mun það munað meðan Norðurlönd eru byggð og er verri einn kviðlingur, ef munaður verður eftir, en lítil fémúta, um dýran mann kveðinn og ger svo vel og leys hann af með nokkru."

"Þér skuluð ráða herra," segir Einar, "og seg honum að hann taki þrjár merkur silfurs af féhirði mínum er eg fékk honum síðast í sjóði."

Þetta var sagt Halla. Gekk hann að finna féhirðinn og sagði honum. Hann kvað vera fjórar merkur silfurs í sjóðnum. Halli kveðst þrjár hafa skyldu. Halli gekk þá fyrir Einar og sagði honum.

"Hafa mundir þú það er í var sjóðnum," segir Einar.

"Nei," sagði Halli, "öðruvís skaltu ná lífi mínu en eg verði þjófur af fé þínu og sá eg að þú hafðir það ætlað mér."

Og svo var að Einar hafði það ætlað Halla að hann mundi það er í var sjóðnum hafa og þótti honum það nóg banasök.

Gekk Halli nú til sætis síns og sýndi Sigurði féð. Sigurður tók hringinn og kvað Halla vel hafa til unnið.

Hann svarar: "Eigi erum við þá jafnir þegnar og tak hring þinn og njót manna best. En þér satt að segja þá átti eg aldrei skylt við þenna mann er Einar hefir drepið og vildi eg vita ef eg næði fénu af honum."

"Engum manni ertu líkur að prettum," segir Sigurður.

Einar fór brott eftir jólin norður á Hálogaland.


8. kafli

Um vorið bað Halli konung orlofs að fara til Danmerkur í kaupferð.

Konungur bað hann fara sem hann vildi "og kom aftur skjótt því oss þykir gaman að þér og far varlega fyrir Einari flugu. Hann mun hafa illan hug á þér og sjaldan veit eg honum jafnsleppt tekist hafa."

Halli tók sér far með kaupmönnum suður til Danmerkur og svo til Jótlands. Rauður hét maður er þar hafði sýslu og réðst Halli þar til vistar.

Það bar til eitt sinn er hann skyldi hafa þing fjölmennt og er menn skyldu þar mæla lögskilum sínum þá var svo mikið háreysti og gap að engi maður mátti þar málum sínum fram koma og fóru menn við það heim um kveldið.

Það var um kveldið er menn komu til drykkjar að Rauður mælti: "Það væri ráðleitinn maður er ráð fyndi til að fólk þetta allt þagnaði."

Halli svarar: "Það fæ eg gert þegar eg vil að hér skal hvert mannsbarn þagna."

"Það færð þú ei gert landi," segir Rauður.

Um morguninn komu menn til þings og var nú slíkt óp og gap sem hinn fyrra dag og varð öngum málum skilað. Fóru menn við það heim.

Þá mælti Rauður: "Viltu veðja um Halli hvort þú færð hljóðið á þinginu eða ei?"

Halli kveðst þess búinn.

Rauður svarar: "Legg við höfuð þitt en eg gullhring er stendur mörk."

"Það skal vera," segir Halli.

Um morguninn spurði Halli Rauð ef hann vildi veðjanina halda. Hann kveðst halda vilja.

Komu menn nú til þingsins og var nú slíkt óp eða meira sem hina fyrri dagana.

Og er menn varði síst hleypur Halli upp og æpir sem hæst mátti hann: "Hlýði allir menn. Mér er máls þörf. Mér er horfin hein og heinasmjör, skreppa og þar með allur skreppuskrúði sá er karlmanni er betra að hafa en að missa."

Allir menn þögnuðu. Sumir hugðu að hann mundi ær orðinn en sumir hugðu að hann mundi tala konungs erindi nokkur. Og er hljóð fékkst settist Halli niður og tók við hringinum. En þegar menn sáu að þetta var ekki nema dáruskapur þá var háreysti sem áður og komst Halli á hlaupi undan því að Rauður vildi hafa líf hans og þótti þetta verið hafa hin mesta ginning. Létti hann eigi fyrr en hann kom til Englands.


9. kafli

Þá réð fyrir Englandi Haraldur Guðinason. Halli fer þegar á konungs fund og kveðst hafa ort um hann drápu og bað sér hljóðs. Konungur lét gefa honum hljóð. Sest Halli fyrir kné konungi og flutti fram kvæðið. Og er lokið var kvæðinu spurði konungur skáld sitt er var með honum hvern veg væri kvæðið. Hann kveðst ætla að gott væri. Konungur bauð Halla með sér að vera en Halli kveðst búinn vera til Noregs áður.

Konungur kvað þá þann veg fara mundu af hendi "um kvæðislaun við þig sem vér njótum kvæðisins því að enginn hróður verður oss að því kvæði er enginn kann. Sit nú niður á gólfið en eg mun láta hella silfri í höfuð þér og haf þá það er í hárinu loðir og þykir mér þá hvort horfa eftir öðru er vér skulum eigi ná að nema kvæðið."

Halli svarar: "Bæði mun vera að lítilla launa mun vert vera enda munu þessi launin og lítil vera. Lofa munuð þér herra að eg gangi út nauðsynja minna."

"Gakk sem þú vilt," segir konungur.

Halli gekk þar til er skipsmiðir voru og bar í höfuð sér tjöru og gerði sem diskur væri og gekk síðan inn og bað hella silfrinu yfir sig. Konungur kvað hann vera brögðóttan og var nú hellt yfir hann og var það mikið silfur er hann fékk.

Fór hann síðan þangað er skip þau voru er til Noregs ætluðu og voru öll burtu nema eitt og var þar ráðinn fjöldi manna með miklum þunga. En Halli hafði of fjár og vildi gjarna í burt því að hann hafði ekki kvæði ort um konung annað en kveðið endilausu og mátti hann því ekki kenna það. Stýrimaður bað hann fá til ráð að suðurmenn gengju úr skipinu og kveðst þá vilja gjarna taka við honum. En þá var komið að vetri. Halli var hjá þeim í herbergjum um hríð.

Eina nótt lét Halli illa í svefni og var lengi áður þeir fengu vakið hann. Þeir spurðu hvað hann hefði dreymt.

Halli kvað lokið því að hann mundi biðja þá fars héðan frá, "mér þótti maður koma að mér ógurlegur og kvað þetta:"

Hröng er þars hafnan þöngul
held eg um, síð er eg fjör seldag.
Hverft er sitk að Ránar.
Sumir eru í búð með humrum.
Ljóst er lýsu að gista.
Lendi eg út við ströndu.
Því sit eg bleikr í brúki.
Blakir mér þarmr um hnakka,
blakir mér fyrir þínum hnakka.

Og er suðurmenn vissu draum þenna réðust þeir úr skipinu og þótti bani sinn ef þeir færu þar í. Halli réðst þegar í skip og sagði að þetta var prettur hans en engi draumur. Og tóku þeir út þegar þeir voru búnir og tóku Noreg um haustið og fór Halli þegar til Haralds konungs. Hann tók vel við Halla og spurði hvort hann hefði þá ort um aðra konunga.

Halli kvað þetta:

Orti eg eina
um jarl þulu.
Verðrat drápa
með Dönum verri.
Föll eru fjórtán
og föng tíu.
Opið er og öndvert,
öfugt stígandi.
Svo skal yrkja
sá er illa kann.

Konungur brosti að og þótti honum jafnan gaman að Halla.


10. kafli

Haraldur konungur fór um vorið til Gulaþings. Og um daginn spurði konungur Halla hversu honum yrði til kvenna um þingið.

Halli svarar:

Gott er Gulaþing þetta,
giljum við hvað er viljum.

Konungurinn fór þaðan norður til Þrándheims. Og er þeir sigldu fyrir Stað áttu þeir Þjóðólfur og Halli búðarvörð að halda og var Halli sæsjúkur mjög og lá undir báti en Þjóðólfur varð að þjóna einn. Og er hann bar vistina féll hann um fót Halla er stóð út undan bátinum.

Þjóðólfur kvað þetta:

Út stendr undan báti
ilfat. Muntu nú gilja?

Halli svarar:

Þjón geri eg þann að sveini,
Þjóðólf læt eg mat sjóða.

Fór konungurinn nú leiðar sinnar uns hann kom í Kaupangur.

Þóra drottning var nú með honum og var hún lítt til Halla en konungur var vel til hans og þótti gaman að Halla jafnan.

Þess er getið einn dag að konungurinn gekk út um stræti og fylgdin með honum. Halli var þar í för. Konungurinn hafði öxi í hendi og öll gullrekin en silfurvafið skaftið og silfurhólkur mikill á forskeftinu og þar í ofan steinn góður. Það var ágætur gripur. Halli sá jafnan til öxarinnar. Konungur fann það brátt og spurði hvort Halla litist vel á öxina. Honum kveðst vel á lítast.

"Hefir þú séð betri öxi?"

"Eigi ætla eg," segir Halli.

"Viltu láta serðast til öxarinnar?" segir konungur.

"Eigi," segir Halli, "en vorkunn þykir mér yður að þér viljið svo selja sem þér keyptuð."

"Svo skal vera Halli," segir konungur, "tak með og njót manna best, gefin var mér enda skal svo selja."

Halli þakkaði konungi.

Um kveldið er menn komu til drykkjar talaði drottning við konung að það væri undarlegt "og ei vel til skipt að gefa Halla þá gripi er varla er ótiginna manna eiga fyrir klámyrði sín en þá fá sumir lítið fyrir góða þjónustu."

Konungur kveðst því ráða vilja hverjum hann gæfi gripi sína, "vil eg ei snúa orðum Halla til hins verra þeim er tvíræði eru."

Konungur bað kalla Halla og svo var gert. Halli laut honum.

Konungur bað Halla mæla nokkur tvíræðisorð við Þóru drottningu "og vit hversu hún þolir."

Halli laut þá að Þóru og kvað:

Þú ert maklegust miklu,
munar stórum það, Þóra,
flenna upp að enni
allt leðr Haralds reðri.

"Takið hann og drepið," segir drottning. "Vil eg eigi hafa hrópyrði hans."

Konungur bað öngvan svo djarfan vera að á Halla tæki hér fyrir: "En að því má gera ef þér þykir önnur maklegri til að liggja hjá mér og vera drottning og kanntu varla að heyra lof þitt."

Þjóðólfur skáld hafði farið til Íslands meðan Halli var í burtu frá konungi. Þjóðólfur hafði flutt utan af Íslandi hest góðan og vildi gefa konungi og lét Þjóðólfur leiða hestinn í konungsgarð og sýna konungi. Konungurinn gekk að sjá hestinn og var mikill og feitur. Halli var þar hjá er hesturinn hafði úti sinina.

Halli kvað þá:

Sýr er ávallt,
hefir saurugt allt
hestr Þjóðólfs erðr,
hann er drottinserðr.

"Tví, tví," segir konungur, "hann kemur aldrei í mína eigu að þessu."

Halli gerðist hirðmaður konungs og bað sér orlofs til Íslands. Konungur bað hann fara varlega fyrir Einar flugu.

Halli fór til Íslands og bjó þar. Eyddust honum peningar og lagðist hann í útróður og eitt sinn fékk hann andróða svo mikinn að þeir tóku nauðulega land. Og um kveldið var borinn fyrir Halla grautur og er hann hafði etið fá bita hnígur hann aftur og var þá dauður.

Haraldur spurði lát tveggja hirðmanna sinna af Íslandi, Bolla hins prúða og Sneglu-Halla.

Hann svaraði svo til Bolla: "Fyrir dörrum mun drengurinn hnigið hafa."

En til Halla sagði hann svo: "Á grauti mundi greyið sprungið hafa."

Lýk eg þar sögu frá Sneglu-Halla.




Netútgáfan - júlí 1999