ÞÓRARINS  ÞÁTTUR  OFSA




Þórarinn hét maður er kallaður var ofsi. Hann bjó að Stokkahlöðum í Eyjafirði, ofláti mikill og afbragðsmaður. Hann var sonur Þórðar, er mjög verður getið við Esphælinga sögu, en Hildur var móðir hans dóttir Gauta Ármóðssonar. Þórarinn var farmaður mikill.

Það var eitt sinn að Þórarinn kom skipi sínu af hafi í Hraunhöfn og hafði sótt sér húsavið. Þar lá fyrir skip Þorgeirs Hávarssonar og hafði hann sekur orðið um sumarið um víg Þorgils frænda Grettis Ásmundarsonar og um launvígsmál Þóris að Hrófá.

Kallaði Þórarinn saman menn sína og mælti: "Svo er við látið að hér liggja þeir menn fyrir sem mörgum eru kunnir að óspekt og hafa drepið frændur vora og er nú mál eftirsjá að veita og er Þorgeir hinn versti maður."

Síðan bjuggust þeir til að vinna knörrinn. Már hét maður en annar Þórir er voru með honum.

En er Þorgeir vissi þetta þá bað hann menn sína sýna drengskap og verjast. Síðan gerðist orusta mikil og sóttu að fjórir tigir manna og var allmikill liðsmunur. Varði Þorgeir stafninn alldrengilega. Og er þynntist skipanin með borðunum þá óx atsóknin um stafninn og í þeirri svipan felldi Þorgeir þá Má og Þóri og tvo menn aðra og féll hann þar sjálfur. Þá hafði hann alls vegið fjórtán menn. Þórarinn felldi þar sjö menn og hjó hann af Þorgeiri höfuðið og hafði með sér til Eyjafjarðar og lagði það í salt er hann kom heim.

Þessi tíðindi spurðust víða. Lofuðu margir þetta verk og þótti hið mesta snarræði í vera.

En Eyjólfur Guðmundarson að Möðruvöllum kvað hinn veginn oftast farið hafa að húskarlar Ólafs konungs hafi fáir óbættir drepnir verið "og er enn eigi víst hversu lengi þeir allir eiga sigri að hrósa. Hefir mér og svo til spurst sem Þorgeir hafi átt við liðsmun að etja. Og þótt hann væri óvinsæll þá var hann þó kær konungi."

Eyjólfur var hirðmaður Ólafs konungs sem Guðmundur faðir hans.

En er menn búast til alþingis þá lét Þórarinn taka höfuðið og kvað þá skyldu hafa það með sér og sýna hvað þeir höfðu unnið. En er Þórarinn kom til Lögbergis var þar sem mest fjölmenni.

Tók hann þá til orða: "Kunnigt mun hér öllum mönnum vera um atburð þann er gerðist hið fyrra haust í lífláti Þorgeirs Hávarssonar. Eru þeir menn er fé hafa gefið til höfuðs honum og harmsakar átt að reka. Ætla eg að þeim muni berast vitni um það að eg veld því verki og þykist eg þessa fjár eigandi orðinn er menn lögðu til að þetta verk væri unnið. Og ef nokkur grunar sögu mína þá má hér nú líta höfuð af honum" og lét hann því þá upp halda.

Þá mælti Eyjólfur Guðmundarson: "Það ætla eg að Þorgeir mun mjög harmdauði vera ef eg sést vel um í alla staði því að vér vitum að Ólafur konungur var vel til hans og hirðmaður hans var Þorgeir Hávarsson. En þú ferð að þessu Þórarinn með miklu ofurkappi. En mikil er alvalds raun og mörg konungs ráð."

Síðan skilja þeir og hafði Þórarinn aftur með sér norður höfuð Þorgeirs.

Og mælti Þórarinn er hann kom í Eyjafjörð: "Þá mun flestum mönnum helst í hug koma dráp Þorgeirs ef vér leggjum í haug höfuð hans hjá Vaðilshorni."

Og svo var gert.

En er skip gengu milli landa þá komu þessar fréttir fram í Noregi fyrir Ólaf konung um líflát Þorgeirs Hávarssonar og förunauta hans. Konungur spurði hver því olli en þeir segja að Þórarinn ofsi hafi gert og það með hversu ferlega hann hafi með farið, saltað höfuðið Þorgeirs um veturinn en flutt það síðan til alþingis um sumarið eftir.

Við þessi tíðindi varð konungur ákaflega reiður og mælti: "Oft hafa menn drepnir verið en þess vitum vér eigi dæmi að svo hafi menn með farið. Og víst vildum vér að hann hefði þetta feigum höndum gert."

Í þenna tíma var Þormóður Kolbrúnarskáld farinn að drepa Þorgrím trölla til Grænlands og hefna Þorgeirs Hávarssonar. Hann orti og erfidrápu er sannar þann allan atburð.

Konungur heimti á tal við sig þann mann er Sigurður hét. Hann var þá búinn til Íslands.

Konungur mælti við Sigurð: "Þá er þú kemur til Íslands þá far þú á fund Eyjólfs Guðmundarsonar vinar míns og hirðmanns og fá honum þetta fé. Það eru átta merkur vegnar. Vil eg gefa honum féið og þar með vingan mína en eg vil það í móti hafa að hann ráði af dögum Þórarin ofsa."

Sigurður tók við fénu, fór síðan leiðar sinnar, lét í haf og kom skipi sínu í Eyjafjörð. Tókst þar brátt kaupstefna með mönnum.

Eyjólfur reið til skips og hitti stýrimann. Þeir töluðust við um vistir og kaup og bauð Eyjólfur honum heim til sín en hásetar vistuðust um Eyjafjörð.

Og er Sigurður kom heim á Möðruvöllu segir hann Eyjólfi orðsending konungs og bar fram féið "en hér í móti vill hann að þú drepir Þórarin ofsa fyrir víg Þorgeirs Hávarssonar."

Eyjólfur kvaðst þakka konungi fyrir gjafar sínar og vinmæli "en það álag er hann vill að eg geri þá mun eg til stýra með konungs hamingju."

En um haustið er menn riðu til leiðar reið Eyjólfur með flokk sinn. Þórarinn ofsi reið og með mikla sveit. Þar var og þræll hans í för með honum er Greipur hét, mikill og sterkur. Menn riðu hart um daginn og hleypti þrællinn hesti sínum fram hjá Þórarni svo að klæði hans verguðust.

Þórarinn mælti: "Ver þú allra þræla armastur, gerandi mér slíkt" og lýstur hann á hrygginn með sverðshjöltunum.

En þrællinn snýst við og spyr ef hann vill nokkuð leggja til bóta ...

(Hér þrýtur þáttinn)




Netútgáfan - apríl 1999