1. Upphaf Magnúss konungs ErlingssonarSíðan er Erlingur varð þess vís hver ráðagerð þeirra Hákonar var þá sendi hann boð öllum höfðingjum, þeim er hann vissi að trúnaðarvinir höfðu verið Inga konungs, og svo hirðsveitinni og handgengnum mönnum konungs, þeim er undan höfðu komist, og húskörlum Gregoríusar og gerði þeim stefnulag. En er þeir fundust og áttu tal sitt þá réðst það þegar að þeir skyldu halda saman flokkinum og bundu þeir það fastmælum milli sín. Síðan töluðu þeir hvern þeir skyldu til konungs taka. Þá talaði Erlingur skakki, leitaði ef það væri ráð höfðingja eða annarra lendra manna að tekinn væri til konungs sonur Símonar skálps, dótturson Haralds konungs gilla, en Jón Hallkelsson byndist fyrir flokkinn. Jón mæltist undan. Var þá leitað við Nikulás Skjaldvararson, systurson Magnúss konungs berfætts, ef hann vildi gerast höfðingi fyrir flokkinum. Hann svaraði á þá lund að það væri hans ráð að taka þann til konungs er af konungaætt væri kominn en þann til ráða fyrir flokkinn er vænn væri til vits, lét mundu betra verða til liðs. Var leitað við Árna konungsmág ef hann vildi láta taka til konungs nokkurn sona sinna, bræðra Inga konungs.
Hann svaraði því að sonur Kristínar, dótturson Sigurðar konungs, væri best ættborinn til konungdóms í Noregi: "Er þar," segir hann, "sá maður til forráða með honum er skylda ber til að vera forsjámaður fyrir honum og ríkinu, er Erlingur er faðir hans, maður vitur, harðráður og reyndur mjög í orustum og landráðamaður góður. Mun hann eigi skorta til þessa ráðs framkvæmd ef höfðingjar fylgja."
Tóku margir vel undir þetta ráð.
Erlingur svarar: "Svo heyrist mér til sem þeir séu flestir er þessa máls er leitað við er heldur færist undan að taka upp vandann. Nú sýnist mér jafnvíst þótt vér hefjum þetta mál, hvort heldur er að tignin fæst þeim, er fyrir beitist flokkinum, eða verður hinn veg, sem áður hefir nú mjög mörgum farið þeim er slík stórræði hafa upp tekið, að fyrir það hafa týnt allri eigunni og þar með lífinu. En ef framgangurinn verður að þessu máli þá má vera að þeir séu nokkurir er vildu þenna kost hafa tekið. Mun sá þess þurfa, er gengur í þenna vanda, að setja rammlegar skorður við að eigi sæti hann þá mótgangi eða fjandskap af þeim er nú eru í þessu ráði."
Allir játtu því að gera þetta samband með fullum trúnaði.
Erlingur mælti: "Það er frá mér að segja að næst þykir mér það bana mínum að þjóna Hákoni og þótt mér þyki þetta hið háskasamlegsta þá vil eg heldur til þess hætta að láta yður fyrir sjá og mun eg taka við forráðum flokksins ef það er allra yðarra ráð og fýsi og viljið þér allir binda þetta með svardögum."
Allir játtu því og var á þeirri stefnu það ráðið að þeir skyldu Magnús Erlingsson til konungs taka. Síðan áttu þeir þing í býnum og á því þingi var Magnús til konungs tekinn yfir land allt. Þá var hann fimm vetra gamall. Síðan gengu til handa honum allir menn er þar voru, er höfðingjar höfðu verið Inga konungs, og hafði hver þeirra slíkar nafnbætur sem áður hafði haft með Inga konungi.
2. Ferð Magnúss konungs til DanmerkurErlingur skakki byrjaði ferð sína og réð sér til skipa og hafði með sér Magnús konung og alla handgengna menn þá er þar voru. Þar var í för Árni konungsmágur og Ingiríður, móðir Inga konungs, og synir hennar tveir og Jón kútissa, sonur Sigurðar storks, og húskarlar Erlings og svo þeir er verið höfðu húskarlar Gregoríusar og höfðu alls tíu skip. Þeir fóru suður til Danmerkur á fund Valdimars konungs og þeirra Búriss Heinrekssonar, bróður Inga konungs. Valdimar konungur var frændi, skyldur Magnúss konungs. Þær voru systur, dætur Haralds konungs úr Görðum austan, hann var sonur Valdimars Jarisleifssonar, Ingilborg, móðir Valdimars konungs, og Málmfríður, móðir Kristínar móður Magnúss konungs.
Valdimar konungur tók vel við þeim og voru þeir Erlingur löngum á stefnum og ráðagerðum og kom það upp af tali þeirra að Valdimar konungur skyldi veita styrk Magnúsi konungi allan af sínu ríki, þann er hann þyrfti til þess að eignast Noreg og halda síðan, en Valdimar skyldi hafa það ríki í Noregi sem haft höfðu hinir fyrri frændur hans, Haraldur Gormsson og Sveinn tjúguskegg: Víkina alla norður til Rýgjarbits. Var þessi ráðagerð bundin eiðum og einkamálum. Síðan búa þeir Erlingur ferð sína af Danmörk og sigldu út af Vendilskaga.
3. Orusta í TúnsbergiHákon konungur fór þegar um vorið eftir páskir norður til Þrándheims. Hann hafði þá skip öll þau er átt hafði Ingi konungur. Hákon átti þing í býnum í Kaupangi og var hann þar til konungs tekinn um allt land. Þá gaf hann Sigurði af Reyri jarldóm og var hann þar til jarls tekinn. Síðan fóru þeir Hákon aftur suður og allt í Vík austur. Fór konungur til Túnsbergs en sendi Sigurð jarl austur í Konungahellu að verja land með sumu liðinu ef Erlingur kæmi sunnan.
Þeir Erlingur komu að Ögðum og héldu þegar norður til Björgynjar. Þeir drápu þar Árna Brígiðarskalla, sýslumann Hákonar konungs, og fóru aftur austur þaðan til móts við Hákon konung. En Sigurður jarl hafði ekki orðið var við sunnanferðina Erlings og var hann þá enn austur við Elfi en Hákon konungur var í Túnsbergi. Erlingur lagði við Hrossanes og lá þar nokkurar nætur. Hákon konungur bjóst við í býnum.
Erlingur lagði að býnum. Þeir tóku byrðing einn og hlóðu með viði og hálmi og lögðu í eld en veðrið stóð upp í býinn og rak byrðinginn að býnum. Hann lét bera kaðla tvo á byrðinginn og tengja við skútur tvær, lét róa svo eftir sem byrðinginn rak fyrir. En er eldurinn var mjög kominn inn að býnum þá héldu þeir köðlum er á skútunum voru svo að eigi mátti býrinn brenna. Reyk lagði svo þykkt í býinn að ekki sá af bryggjunum þar sem fylking konungs stóð. Síðan lagði Erlingur öllu liðinu utan eftir, á veðrið eldinum og skutu upp á þá. En er býjarmenn sáu að eldurinn nálgaðist hús þeirra og margir urðu sárir af skotum þá gerðu þeir ráð sitt og sendu Hróald prest langtölu út á fund Erlings að taka sér grið og býnum af Erlingi og rufu fylking konungs þá er Hróaldur sagði þeim að griðin voru tekin. En er býjarmannalið var brott farið þá þynntist lið á bryggjunum.
Eggjuðu þá sumir Hákonar menn að við skyldi taka en Önundur Símonarson sagði svo, er þá hafði mest ráð fyrir liðinu: "Eigi mun eg berjast til ríkis Sigurði jarli en hann sé hvergi nær."
Síðan flýði Önundur og þá allt lið með konungi og fóru upp á land og féll þar mjög mart manna af Hákonar liði.
Svo var þá kveðið:
- Önundr kvaðst eigi mundu
- við orrostu kosta,
- fyrr en sunnan sigldi
- Sigurðr jarl með húskarla.
- Mjök fara Magnúss rekkar
- mætir upp á stræti.
- En Hákonar haukar
- hart skunduðu undan.
Þorbjörn Skakkaskáld segir svo:
- Greitt frá eg, gumna drottinn,
- gríðar fáks, í víðu,
- trauðr era tenn að rjóða,
- Túnsbergi þér snúna.
- Hræddust bjartra brodda
- býjarmenn við rennu.
- Uggðu eld og sveigðan
- álm dynviðir málma.
Hákon konungur fór hið efra norður í Þrándheim. En er Sigurður jarl spurði þetta þá fór hann með skipum öllum þeim er hann fékk hið ytra norður til móts við Hákon konung.
4. Frá Erlingi og HákoniErlingur skakki tók skip þau öll í Túnsbergi er Hákon konungur átti. Þar fékk hann Bækisúðina er Ingi konungur hafði átt. Erlingur fór síðan og lagði undir Magnús alla Víkina og svo norður allt sem hann fór og sat um veturinn í Björgyn. Þá lét Erlingur drepa Ingibjörn sipil, lendan mann Hákonar konungs, norður í Fjörðum.
Hákon konungur sat í Þrándheimi um veturinn en eftir um vorið bauð hann út leiðangri og bjóst að fara suður til móts við Erling. Þar voru þá með honum Sigurður jarl, Jón Sveinsson, Eindriði ungi og Önundur Símonarson, Filippus Pétursson, Filippus Gyrðarson, Rögnvaldur kunta, Sigurður kápa, Sigurður hjúpa, Frírekur kæna, Áskell á Forlandi, Þorbjörn sonur Gunnars gjaldkera, Strað-Bjarni.
5. Frá liði ErlingsErlingur var í Björgyn og hafði lið mikið og tók það til ráðs að hann lagði farbann fyrir kaupskip öll er fara vildu norður til Kaupangs fyrir því að hann hugði að of skjótt mundi koma Hákoni njósn ef skipin færu í milli og fann þó það til, að Björgynjarmenn væru maklegri að hafa gæsku þá er á skipunum var, þótt ódýrra væri keypt að byrðingsmönnum en þeim þætti fallið "heldur en flutt væri í hendur fjandmönnum vorum og óvinum, þeim til styrks."
Nú söfnuðust skip til býjarins því að mörg komu hvern dag en engi fóru í brott. Þá lét Erlingur setja upp skip sín, þau er léttust voru, og lét þann kvitt fara að hann mundi þar bíða og veita viðurtöku við vina sinna fullting og frænda.
En einnhvern dag lét Erlingur blása til stýrimannastefnu og gaf þá lof öllum kaupskipa stýrimönnum að fara hvert er þeir vildu. En er menn höfðu fengið leyfi af Erlingi skakka, þeir er fyrir byrðingum réðu og áður lágu albúnir að fara með varnaði sínum, sumir með kaupum en sumir áttu önnur erindi, var það þá og veður, er vel var segltækt norður með landi. Og fyrr en nón kæmi þess dags höfðu allir siglt, þeir er búnir voru. Sótti sá sína ferð ákaflegast er skip hafði skjótast. Kepptist hver við annan.
En er þetta samflot kom norður á Mæri, þar var þá fyrir lið Hákonar konungs og sjálfur hann var þar í liðsafnaði og búnaði og stefndi til sín lendum mönnum og leiðangursmönnum og hafði þá áður langa hríð ekki til tíðinda spurt af Björgyn, en nú fengu þeir eina njósn af öllum skipum er sunnan fóru að Erlingur skakki hafði upp sett skip sín í Björgyn og mundu þeir hans eiga þangað að vitja og sögðu að hann hefði mikið lið.
Þaðan sigldi Hákon til Véeyjar en gerði frá sér inn í Raumsdal Sigurð jarl og Önund Símonarson að fá sér lið og skip en hann sendi frá sér menn á Mæri hvoratveggju. En er Hákon konungur hafði dvalist fár nætur í kaupbænum þá lagði hann brott og suður nokkuru lengra og þótti sem þá mundi fljótara byrjuð þeirra ferð og lið mundi skjótara til hans koma.
Erlingur skakki hafði leyft brottferð byrðingum úr Björgyn sunnudag en Týsdag er lokið var formessum var blásið konungslúðri og stefnt til sín liðsmönnum og býjarmönnum og lét setja fram skip þau er áður voru upp sett.
Erlingur átti húsþing við lið sitt og leiðangursmenn, sagði þá ætlan sína, nefndi menn til skipstjórnar, lét lesa upp hverjir skráðir voru á konungsskipinu. Lauk svo þessu þingi að Erlingur bað hvern búast um í sínu rúmi hvar sem skipað var, lét þann missa skyldu lífs eða lima er þá dveldist eftir í bænum er hann legði braut Bækisúðinni. Ormur konungsbróðir lagði þegar brott sínu skipi um kveldið og flest skip höfðu áður verið á floti.
6. Frá Erlingi skakkaÓðinsdag áður messur væru sungnar í býnum lagði Erlingur brott öllu liðinu úr bænum. Þeir höfðu skip eitt og tuttugu. Þá var blásandi byr sunnan með landi. Erlingur hafði með sér Magnús konung son sinn. Margir voru þar lendir menn og höfðu hið fríðasta lið. Þá er Erlingur sigldi norður fyrir Fjörðu þá sendi hann skútu inn af leið til bús Jóns Hallkelssonar og lét taka Nikulás son Símonar skálps og son Maríu Haraldsdóttur gilla og höfðu þeir hann með sér út til liðsins. Fór hann á konungsskipið. Frjádag þegar í óttu sigldu þeir á Steinavog.
Hákon konungur lá þá í höfn þeirri er heitir ... og hafði fjórtán skip. Var hann sjálfur og menn hans uppi á eyjunni á leiki en lendir menn hans sátu á haugi nokkurum. Þeir sáu að bátur nokkur reri sunnan að eynni. Tveir menn voru þar á og létu þeir fallast í kjölinn ofan og tóku þeir fram árum eigi óákaflegar. En er þeir komu að landi festu þeir ekki bátinn og runnu báðir. En þetta sáu ríkismenn og ræddu sín í milli að þessir menn mundu segja kunna tíðindi nokkur, stóðu upp og gengu í móti þeim.
Og þegar er þeir fundust spurði Önundur Símonarson: "Kunnuð þið nokkuð segja til Erlings skakka er þið farið svo ákaflega?"
Sá svarar er fyrri mátti máli upp koma fyrir mæði sakir: "Hér siglir Erlingur sunnan að yður með tuttugu skip eða því nær og mörg ýrið stór og munuð þér nú skjótt sjá segl þeirra."
Þá svaraði Eindriði ungi: "Of nær nefi, kvað karl, var skotinn í auga."
Gengu þeir þá þegar skyndilega þar til sem leikurinn var og því næst kvað lúður við og var blásinn herblástur öllu liði til skipa sem ákaflegast og var það í þann tíma dags er mjög var matbúið. Til skipanna stefndi allt fólk. Hljóp hver þar út á skip sem honum var næst og urðu skipin ójafnskipuð. Taka þeir til ára, sumir reisa viðuna og snúa norður skipunum og stefna til Véeyjar fyrir því að þeir væntu sér þar mikils liðs af býjarmönnum.
7. Fall Hákonar konungsÞessu næst sjá þeir segl þeirra Erlings og sjá hvorir aðra. Eindriði ungi hafði það skip er kallað var Draglaun, langskipsbússa mikil, og hafði þá orðið liðfátt því að þeir höfðu hlaupið á önnur skip er þar höfðu áður á verið. Það var seinst skipa Hákonar. En þá er Eindriði kom gegnt eynni Sekk þá kom Bækisúðin eftir þeim, er Erlingur skakki stýrði, og festi saman þau skip. En Hákon var þá nálega kominn inn til Véeyjar er þeir heyrðu lúðragang því að aftur sneru þau skipin er næst voru og vildu veita lið Eindriða og leggja þá hvorirtveggju til orustu svo sem við komust. Fóru mörg seglin ofan þverskipa en engi voru tengd og lögðu borð við borð.
Þessi orusta var ekki löng áður en skipan ryfist á skipi Hákonar konungs. Féllu sumir en sumir hljópu fyrir borð. Hákon steypti yfir sig grárri kápu og hljóp á annað skip. En er hann hafði þar dvalist litla hríð og þóttist hann vita að hann var með óvinum þar kominn, og er hann hugsaði fyrir sér, þá sá hann enga sína menn eða sín skip allnær, þá gekk hann á Bækisúðina og fram í stafnsveit og bað sér griða en stafnbúar tóku hann til sín og gáfu honum grið.
En í þessi hríð hafði orðið mikið mannfall og þó meira af Hákonar mönnum. Fallinn var þá á Bækisúðinni Nikulás sonur Símonar skálps og var hans dráp kennt þeim sjálfum, Erlings mönnum.
Eftir þetta varð hvíld á orustu og greiddust sér hvor skipin. Þá var sagt Erlingi að Hákon konungur var þar á skipinu og stafnbúar hans höfðu tekið hann til sín og heituðust að verja hann. Erlingur sendi mann fram á skipið og bað það segja stafnbúum að þeir varðveittu Hákon svo að hann færi eigi á brott en lést mundu eigi í móti mæla að konungur hefði grið ef það væri ráð ríkismanna og væri þaðan leitað um sættir. Stafnbúar mæltu allir að hann skyldi mæla allra höfðingja heilastur.
Þá lét Erlingur blása ákaflega og bað menn þess að menn skyldu leggja að skipum þeim er óhroðin voru, sagði að þeir mundu eigi komast í betra færi að hefna Inga konungs. Þá æptu allir heróp og eggjaði hver annan og greiddu til atlögunnar. Í þessum þys var Hákon konungur særður banasári.
En eftir fall hans, og þá er hans menn urðu þess varir, þá reru þeir að fast og köstuðu hlífunum og hjuggu tveim höndum og hirtu þá ekki um líf sitt. Þessi ofrausn gerðist þeim brátt að skaða miklum því að Erlings menn sáu bera höggstaði á þeim. Féll lið Hákonar konungs mikill hlutur. Bar það mest til að liðsmunur var mikill og menn Hákonar hlífðu sér lítt en engi þurfti griðin að nefna af Hákonar mönnum nema þeir einir er ríkismenn tóku á vald sitt og festu fé fyrir.
Þessir menn féllu af Hákonar liði: Sigurður kápa, Sigurður hjúpa, Rögnvaldur kunta. En nokkur skip komust undan og reru inn í fjörðu og hjálpu svo lífi sínu.
Lík Hákonar konungs var flutt inn í Raumsdal og var þar jarðað. Sverrir konungur bróðir hans lét flytja lík Hákonar konungs norður til Kaupangs og leggja í steinvegginn í Kristskirkju fyrir sunnan í kórinum.
8. Flótti liðshöfðingja Hákonar konungsSigurður og Eindriði ungi, Önundur Símonarson, Frírekur kæna og enn fleiri höfðingjar héldu saman flokkinum, leifðu skipin í Raumsdal og fóru síðan til Upplanda.
Erlingur skakki og Magnús konungur fóru liði sínu norður til Kaupangs og lögðu land allt undir sig hvar sem þeir fóru. Síðan lét Erlingur stefna Eyraþing. Var þar Magnús til konungs tekinn um land allt. Dvaldist Erlingur þar litla hríð því að honum þóttu Þrændir ekki vera trúlegir þeim feðgum. Var Magnús þá kallaður konungur yfir öllu landi.
Hákon konungur var maður heldur fríður sýnum, vel vaxinn, hár og mjór. Hann var herðibreiður mjög. Því kölluðu liðsmenn hann Hákon herðibreið. En fyrir því að hann var ungur að aldri höfðu aðrir höfðingjar ráðagerð með honum. Hann var kátur og lítillátur í máli, leikinn og hafði ungmennisæði. Vinsæll var hann við alþýðu.
9. Upphaf Sigurðar konungsMarkús á Skógi hét maður upplenskur, frændi Sigurðar jarls. Markús fóstraði son Sigurðar konungs. Sá hét Sigurður. Síðan tóku Upplendingar Sigurð til konungs með ráði Sigurðar jarls og annarra höfðingja þeirra er fylgt höfðu Hákoni konungi og höfðu þeir þá enn styrk mikinn liðs. Fór flokkurinn oftlega í tvenningu. Var konungur og Markús minnur á viðborða en Sigurður jarl og aðrir höfðingjar með sínar sveitir meir við háskann. Fóru þeir með flokkinn mest um Upplönd en stundum ofan í Víkina.
Erlingur skakki hafði með sér jafnan Magnús son sinn. Hafði hann skipastól allan og landvarnir. Var hann í Björgyn um haustið hríð nokkura og fór þaðan austur í Vík og settist í Túnsbergi, efnaði þar til vetursetu og safnaði að sér um Víkina sköttum og skyldum þeim er konungur átti. Hann hafði og frítt lið og mikið.
En með því að Sigurður jarl hafði lítið af landi en mikið var fjölmenni varð brátt féfátt og þar er eigi voru höfðingjar nær þá varð eftir fénu leitað mjög aflaga, sumt með freklegum sakagiftum en sumt berlega með ránum.
10. Fyrdæmdur Sigurður jarlÍ þann tíma stóð Noregsveldi með blóma miklum. Var bóndafólk auðigt og ríkt og óvant ófrelsi eða ófriði flokkanna. Gerðist brátt mikið orðlag og stórar frásagnir þá er rænt var. Víkverjar voru fullkomnir vinir Magnúss konungs og Erlings. Olli því mest vinsæld Inga konungs Haraldssonar því að Víkverjar höfðu með sínum styrk jafnan þjónað undir þann skjöld.
Erlingur lét hafa varðhöld á bænum og vöktu tólf menn hverja nótt.
Erlingur átti jafnan þing við bændur og var þar talað oft um óspektir Sigurðar manna. Og með fortölum Erlings og annarra liðsmanna þá fékkst mikill rómur til þess af bóndum að það væri mikið happaverk að menn létu þann flokk aldrei þrífast.
Árni konungsmágur talaði langt um þetta mál og hart að lyktum. Beiddi hann þess alla menn er á voru þinginu, bæði liðsmenn og bændur og býjarmenn, að menn skyldu gera vopnatak að því að dæma með lögum Sigurð jarl og allan flokk þeirra til fjandans bæði lífs og dauða. En með ákafa lýðsins og óstilling þá játtu allir því. Var þetta ódæmaverk gert og fest svo sem lög voru til að dæma á þingum.
Hróaldur prestur langtala talaði um þetta mál. Hann var maður málsnjallur og kom sú tala mjög í einn stað svo sem áður hafði talað verið.
Erlingur veitti um jólin í Túnsbergi en hann gaf mála þar um kyndilmessu.
11. Frá ErlingiSigurður jarl fór með hið fríðasta lið sitt um Víkina og gekk undir hann mart lið fyrir ofríkis sakir en margir guldu fé. Fór hann svo víða uppi á landi og kom fram í ýmsum stöðum. Voru þeir sumir í flokkinum er sér leituðu griða á laun til Erlings en þar komu þau svör í mót að allir menn þeir er þess leituðu skyldu hafa lífsgrið en þeir einir landsvist er eigi væru í stórsökum við hann. En er það spurðu flokksmenn að menn skyldu eigi landsvistina hafa þá hélt það mjög saman flokkinum því að þeir voru margir, að sig vissu að því sanna er Erlingi mundu þykja mjög sakbitnir.
Filippus Gyrðarson gekk til sætta við Erling og fékk aftur eignir sínar og fór aftur til búa sinna. Litlu síðar komu þar Sigurðar menn og drápu hann. Mörg slög veittu hvorir öðrum í eltum eða í manna aftökum og er það ekki ritað er eigi áttust höfðingjar við.
12. Frá ErlingiÞað var á öndverðri föstu er njósn kom Erlingi að Sigurður jarl mundi koma á fund hans og var til hans spurt hér og hvar, stundum nær en stundum firr meir. Erlingur gerði þá njósn frá sér að hann skyldi var verða hvar sem þeir kæmu fram. Hann lét og hvert kveld blása öllu liðinu upp úr býnum og lágu þeir um nætur í safnaði og var allt skipað liðinu í fylkingar. Þá kom Erlingi njósn að þeir Sigurður jarl voru þaðan skammt í brott uppi á Ré.
Erlingur byrjar þá ferðina úr bænum og hafði með sér allt bæjarfólk það er vígt var og vopnað og svo kaupmenn nema tólf menn er eftir voru að gæta býjarins. Hann fór úr býnum Týsdag í annarri viku langaföstu eftir nón og hafði hver maður sér tveggja daga vist, fóru þá um nóttina og varð þeim seint að koma liðinu úr býnum. Um einn hest og einn skjöld voru tveir menn. Þá er skorað var liðið þá var nær þrettán hundruð manna. En er njósn kom í mót þeim var þeim sagt að Sigurður jarl var á Ré á þeim bæ er Hrafnsnes heitir með fimm hundruð manna. Lét þá Erlingur kalla saman liðið og sagði þau tíðindi er hann hafði spurt en allir eggjuðu að þeir skyldu skunda og taka hús á þeim eða berjast þegar um nóttina.
Erlingur talaði og mælti svo: "Það mun líklegt þykja að fundur vor Sigurðar jarls muni brátt að berast. Eru í þeirra flokki og margir aðrir þeir menn er oss mætti minnisamt vera þeirra handaverk er þeir hjuggu niður Inga konung og svo marga aðra vora vini sem seint er tölu á að koma. Gerðu þeir þau verk með fjandakrafti og fjölkynngi og níðingskap því að það stendur hér í lögum vorum og landsrétti að engi maður hefir svo fyrirgert sér að eigi heiti það níðingsverk eða morðvíg er menn drepast um nætur. Hefir þessi flokkur sér leitað þeirra heilla að tilvísan fjölkunnigra manna að þeir skyldu um nætur berjast en eigi undir sólu. Hafa þeir og með þvílíkri framkvæmd þann sigur unnið að stíga yfir höfuð þvílíkum höfðingja sem þeir hafa að jörðu lagt. Nú höfum vér það oftlega sagt og sýnt hvernug af leitt oss sýnist um þeirra hátt er þeir hafa um nætur til bardaga ráðið. Skulum vér fyrir því heldur hafa hinna höfðingja dæmi er oss eru kunnari og betra er eftir að líkja að berjast um ljósa daga og með fylking en stelast eigi um nætur á sofandi menn. Höfum vér lið gott í móti eigi meira her en þeir hafa. Skulum vér bíða dags og lýsingar og haldast saman í fylkingu ef þeir vilja nokkur áhlaup oss veita."
Eftir það settist niður allt liðið. Tóku sumir í sundur heyhjálma nokkura og gerðu sér af ból, sumir sátu á skjöldum sínum, og biðu svo lýsingar. Svalt var veður og votadrífa.
13. Frá fylking Sigurðar jarlsSigurður jarl hafði svo fremi fengið njósnina er liðið var komið nær að þeim. Stóðu menn hans upp og vopnuðust og vissu ógerla hversu mikið lið þeir Erlingur höfðu. Vildu sumir flýja en flestir vildu bíða. Sigurður jarl var vitur maður og snjallur í máli en kallaður ekki mikill áræðismaður. Var hann og fúsari þá að flýja og fékk hann af því mikið ámæli af liðsmönnum.
En er lýsa tók, tóku hvorirtveggju að fylkja liðinu. Fylkti Sigurður jarl á brekku nokkurri fyrir ofan brúna milli og býjarins. Þar féll lítil á. En þeir Erlingur fylktu öðrum megin árinnar. Á bak fylking þeirra voru menn á hestum vel vopnaðir. Þeir höfðu konung með sér. Jarlsmenn sáu þá að liðsmunur mundi vera mikill og töldu það ráð að leita á skóginn.
Jarl svarar: "Það segið þér að mér fylgi engi hugur en nú skal það reyna og gæti nú hver sín að eigi flýi eða fálmi fyrr en eg. Vér höfum vígi gott. Látum þá ganga yfir brúna en er merkið kemur yfir brúna þá steypumst vér á þá fyrir brekkuna og flýi nú engi frá öðrum."
Sigurður jarl hafði brúnaðan kyrtil og rauða skikkju og drepið upp skautunum, fitskúa á fótum. Hann hafði skjöld og sverð er Bastarður var kallað.
Jarl mælti: "Það veit guð með mér, að heldur en þiggja mikið gull, þá vildi eg ná með Bastarði að koma einu höggi við Erling skakka."
14. Fall Sigurðar jarlsLið Erlings skakka vildi ganga fram að brúnni.
Hann mælti, bað þá venda upp með ánni, "er á þessi lítil og engi torfæra því að slétt er að."
Var svo gert. Jarls fylking fór upp eftir brekkunni gegnt til. En þá er þraut brekkuna og slétt var yfir ána og gott þá mælti Erlingur að hans menn skyldu syngja Pater noster [Faðir vor] og biðja að þeir hefðu gagn er betur gegndi. Þá sungu þeir kirjál [kýrie eleíson] allir hátt og börðu vopnum allir á skjöldu sína. En við þann gný skutust á brott og flýðu þrjú hundruð manna af Erlings liði. Gekk Erlingur og hans lið yfir ána en jarlsmenn æptu heróp og þeim brást framhlaupið fyrir brekkuna að Erlings fylking. Tókst orusta á framanverðri brekkunni. Voru fyrst spjótalög og þegar brátt höggorusta. Fór á hæl jarls merki svo að Erlingur og hans menn komust upp á brekkuna. Varð þá skömm orusta áður jarls lið flýði á skóginn er að baki þeim var áður. Þá var sagt Sigurði jarli og báðu menn hann flýja.
Hann svaraði: "Fram vér nú meðan vér megum."
Gengu þeir þá fram allhraustlega og hjuggu til beggja handa. Í þeirri hríð féll Sigurður jarl og Jón Sveinsson og nær sex tigum manna. Þeir Erlingur létu fátt manna og ráku flóttann að skóginum. Þá kannaði Erlingur liðið og hvarf aftur.
Hann kom þar að er þrælar konungs vildu draga klæði af Sigurði jarli og var hann eigi með öllu örendur og vissi þó ekki. Hann hafði fólgið sverð sitt í umgerð og lá það hjá honum. Erlingur tók það upp og laust með þrælana, bað þá braut skríða.
Eftir það hvarf Erlingur aftur með liði sínu og settist í Túnsbergi.
Sjö nóttum síðar en jarl féll tóku þeir Erlings menn Eindriða unga og var hann drepinn.
15. Frá MarkúsiMarkús af Skógi og þeir Sigurður fóstrar réðu ofan í Víkina er voraði og fengu sér þar skip. En er Erlingur spurði það þá fór hann austur eftir þeim og hittust þeir í Konungahellu. Flýðu þeir Markús út í eyna Hísing. Dreif þar ofan landsfólk, Hísingsbúar, og gengu í fylking með Markúss mönnum. Þeir Erlingur reru að landi en Markúss menn skutu á þá.
Þá mælti Erlingur við sína menn: "Tökum skip þeirra og göngum ekki upp að berjast við landsher. Hísingsbúar eru illir heimsóknar, harðir menn og óvitrir. Munu þeir litla hríð hafa flokk þenna með sér því að Hísing er lítið land."
Svo var gert að þeir tóku skipin og fluttu yfir til Konungahellu. Markús og hans lið fóru upp á Markir og ætluðu þaðan til áhlaupa. Höfðu þá hvorir njósn af öðrum. Erlingur hafði fjölmenni mikið, nefndi þar til lið úr héruðum. Veittu þá hvorigir öðrum árásir.
16. Upphaf Eysteins erkibiskupsEysteinn sonur Erlends hímalda var kosinn til erkibiskups eftir andlát Jóns erkibiskups. Eysteinn var vígður á sama ári og Ingi konungur féll. En er Eysteinn erkibiskup kom til stóls var hann vel þokkaður öllu landsfólki. Hann var skörungur mikill, maður ættstór. Tóku Þrændir vel við honum því að flest stórmenni í Þrændalögum var bundið í frændsemi eða í nokkurum tengdum við erkibiskup en allir fullkomnir í vináttu.
Erkibiskup hóf þá málaleitan við bændur, talaði fyrst um fjárþurft staðarins og það með hversu mikla uppreist staðurinn þurfti að hafa, ef hann skyldi þá vera þeim mun sæmilegar haldinn en áður, sem hann var þá tignari en áður, er þar var erkibiskupsstóll settur. Hann beiddi þess bændur að þeir skyldu veita honum silfurmetinn eyri í sinn sakeyri. En áður hafði hann sakmetinn eyri, sem gekk í konungs sakeyri, en þess auralags er helmingsmunur að meiri er sá er hann vildi hafa, silfurmetinn eyrir. En við styrk frænda erkibiskups og vina en framkvæmd hans sjálfs þá gekk þetta við og var það dæmt að lögum um öll Þrændalög og þetta gekk við um fylki þau er í hans erkibiskupsríki voru.
17. Frá Markúsi og SigurðiSigurður og Markús, þá er þeir höfðu látið skip sín í Elfinni, sáu það að þeir fengu ekki fang á Erlingi. Þá snerust þeir til Upplanda og fóru svo hið efra norður til Þrándheims. Var þeim þar vel fagnað. Var Sigurður þar til konungs tekinn á Eyraþingi. Réðust þar til flokksins margir góðra manna synir.
Réðu þeir þar til skipa og bjuggust skyndilega, fóru er sumraði suður á Mæri og tóku allar konungstekjur hvar sem þeir fóru. Þeir voru í Björgyn lendir menn til landvarnar, Nikulás Sigurðarson, Nökkvi Pálsson og enn fleiri sveitarhöfðingjar, Þórólfur dryllur, Þorbjörn gjaldkeri og margir aðrir. Þeir Markús sigldu norðan og spurðu að Erlings menn höfðu fjölmennt í Björgyn, sigldu þar útleið suður um. Það höfðu menn á máli að það sumar höfðu Markúss menn byr hvar sem þeir vildu fara.
18. Dráp SigurðarErlingur skakki, þegar hann spurði að þeir Markús höfðu norður snúið, þá hélt hann norður í Víkina og dró að sér lið og varð brátt fjölmennur og hafði skip stór og mörg. En er hann sótti út í Víkina fékk hann andviðri og lá lengi hér og hvar í höfnum allt það sumar.
En er þeir Markús komu austur á Lista þá spurðu þeir að Erlingur hafði her óvígjan í Víkinni, ventu þá aftur norður. En er þeir komu á Hörðaland þá ætluðu þeir til Björgynjar. En er þeir koma fyrir býinn þá róa þeir Nikulás innan í móti þeim og höfðu lið miklu meira og skip stærri. Sáu þeir Markús þá engi annan sinn kost en róa suður undan. Stefna sumir til hafs út, sumir suður í sund, sumir í fjörðu inn en Markús og sumt lið með honum hljóp upp í ey þeirri er Skarpa heitir. Þeir Nikulás tóku skip þeirra, gáfu grið Jóni Hallkelssyni og nokkurum mönnum öðrum en drápu flest það er þeir náðu.
Nokkurum dögum síðar fann Eindriði heiðafylja þá Sigurð og Markús. Voru þeir fluttir til Björgynjar. Var Sigurður höggvinn út frá Grafdali en Markús hengdur við annan mann á Hvarfsnesi en það var Mikjálsmessu. Flokkur sá er þeim hafði fylgt dreifðist þá.
19. Frá Erlingi og HísingsbúumFrírekur kæna og Bjarni hinn illi, Önundur Símonarson, Örnólfur skorpa, þeir höfðu róið á haf út með nokkurum skipum og héldu hið ytra með hafi austur fyrir land en hvar sem þeir komu við land rændu þeir og drápu vini Erlings.
En er Erlingur spurði dráp þeirra Markúss þá gaf hann heimleyfi lendum mönnum og leiðangursmönnum en hann sjálfur hélt þá sínu liði austur yfir Foldina því að hann spurði þar til Markúss manna. Erlingur hélt til Konungahellu og dvaldist þar um haustið.
Á fyrstu viku vetrar fór Erlingur út í eyna Hísing með miklu liði og krafði þar þings. Hísingsbúar komu ofan og héldu upp þingi. Erlingur bar sakir á hendur þeim um það er þeir höfðu hlaupið í flokk með Markúss mönnum og fylkt liði í móti honum.
Össur hét sá maður er ríkastur var bónda er talaði af þeirra hendi. Var þingið langt en að lyktum festu bændur dóm Erlingi en hann gerði þeim stefnulag á viku fresti í bænum og nefndi til fimmtán menn af bóndum að koma þar. En er þeir komu dæmdi Erlingur á hönd þeim að gjalda þrjú hundruð nauta. Fóru bændur heim og undu illa sínum hluta.
Litlu síðar lagði ís á ána og fraus inni skip Erlings. Þá héldu bændur gjaldinu og lágu í safnaði um hríð. Erlingur bjó þar til jólaveislu en Hísingsbúar höfðu samburðaröl og héldu sveit um jólin.
Um nóttina eftir fimmta dag jóla fór Erlingur út í eyna og tók hús á Össuri og brenndi hann inni og alls drap hann tíu tigu manna og brenndi þrjá bæi, fór síðan aftur í Konungahellu. Síðan komu bændur til hans og guldu gjaldið.
20. Dráp Fríreks og BjarnaErlingur skakki bjóst þegar um vorið er hann mátti flota skipum sínum fyrir ísum og fór úr Konungahellu. Hann spurði að þeir herjuðu norður í Víkinni er verið höfðu fyrr Markúss menn. Erlingur hélt til njósnum um farar þeirra og fór að leita þeirra og hitti þá er þeir lágu í höfn nokkurri. Önundur Símonarson og Örnólfur skorpa komust undan en Frírekur kæna og Bjarni hinn illi urðu handteknir og drepið mart af sveitum þeirra. Erlingur lét binda Frírek við akkeri og kasta fyrir borð. Var Erlingur af því verki hið mesta óþokkaður í Þrændalögum því að Frírekur átti þar hina bestu ætt. Bjarna lét Erlingur hengja og mælti hann þá, sem hann var vanur, hin mestu orðskræpi áður hann var hengdur.
Svo segir Þorbjörn Skakkaskáld:
Urð dró austan fjarðar Erlingr að víkingum, mein fékk margr af Kænu maðr, er hann fór þaðra. Færðr var fleinn meðal herða Fríreks. Ofar nökkvi skolldi, óþarfr öldum, illgjarn við tré Bjarni.
Önundur og Örnólfur og þær sveitir er undan höfðu komist flýðu til Danmerkur en voru stundum á Gautlandi eða í Víkinni.
21. Vígður Magnús konungurErlingur skakki hélt síðan til Túnsbergs og dvaldist þar lengi um vorið. En er sumraði hélt hann norður til Björgynjar. Var þar þá allmikið fjölmenni. Þar var þá Stephanus legatus [Stefán erindreki] af Rúmaborg og Eysteinn erkibiskup og aðrir biskupar innlenskir. Þar var og Brandur biskup er þá var vígður til Íslands. Þar var og Jón Loftsson, dótturson Magnúss konungs berfætts. Þá hafði Magnús konungur og aðrir frændur Jóns tekið við frændsemi hans.
Eysteinn erkibiskup og Erlingur skakki voru oft á tali og á einmælum.
Og eitt sinn var það í ræðum þeirra að Erlingur spurði: "Er það með sannindum, herra, er menn segja að þér hafið aukið auralag um sakeyri yðarn við bændur norður í landið?"
Erkibiskup svarar: "Það er víst satt að bændur hafa mér það veitt að auka auralag um sakeyri minn. Hafa þeir það gert að sjálfræði sínu en með engum pyndingum, aukið í því guðs dýrð og auðæfi staðar vors."
Erlingur segir: "Hvort eru það lög, herra, hins helga Ólafs konungs eða hafið þér tekið nokkuru frekara þetta mál en svo sem ritið er í lögbókinni?"
Erkibiskup segir: "Svo mun hinn heilagi Ólafur konungur lögin hafa sett sem hann fékk þá jáorð og samþykki alþýðu til en ekki finnst það í hans lögum að bannað sé að auka guðs rétt."
Erlingur segir: "Viljið þér auka yðarn rétt þá munuð þér styrkja vilja oss til þess að vér aukum jafnmiklu konungsréttinn."
Erkibiskup segir: "Aukið hefur þú nú áður með gnógu nafn og ríki sonar þíns. En ef eg hefi aflaga tekið auralögin af þeim Þrændum þá ætla eg stærra bera hin lagabrotin er sá er konungur yfir landi er eigi er konungssonur. Eru þar hvorki til þess lög né dæmi hér í landi."
Erlingur segir: "Þá er Magnús var til konungs tekinn yfir Noregsríki var það gert með yðarri vitand og ráði og svo annarra biskupa hér í landi."
Erkibiskup segir: "Því héstu þá, Erlingur, ef vér samþykktum með þér að Magnús væri til konungs tekinn að þú skyldir styrkja guðs rétt í öllum stöðum með öllum krafti þínum."
"Játi eg því," segir Erlingur, "að eg hefi heitið að halda guðs lög og landsrétt með öllum mínum styrk og konungs. Nú sé eg hér betra ráð til en hvor okkar kenni öðrum brigðmæli. Höldum heldur öll einkamál vor. Styrkið þér Magnús konung til ríkis svo sem þér hafið heitið en eg skal styrkja yðart ríki til allra farsællegra hluta."
Fór þá öll ræðan mjúklega með þeim.
Þá mælti Erlingur: "Ef Magnús er eigi svo til konungs tekinn sem forn siður er til hér í landi þá megið þér af yðru valdi gefa honum kórónu sem guðs lög eru til, að smyrja konung til veldis. En þótt eg sé eigi konungur eða af konungaætt kominn þá hafa þeir konungar nú verið flestir í voru minni er eigi vissu jafnvel sem eg til laga eða landsréttar. En móðir Magnúss konungs er konungs dóttir og drottningar skilfengin. Magnús er og drottningarsonur og eiginkonusonur. En ef þér viljið gefa honum konungsvígslu þá má engi hann taka síðan af konungdóminum að réttu. Eigi var Vilhjálmur bastarður konungssonur og var hann vígður og kórónaður til konungs yfir Englandi og hefir síðan haldist konungdómur í hans ætt á Englandi og allir verið kórónaðir. Eigi var Sveinn Úlfsson í Danmörk konungssonur og var hann þó þar kórónaður konungur og síðan synir hans og hver eftir annan þeirra frænda kórónaður konungur. Nú er hér í landi erkistóll. Er það mikill vegur og tign lands vors. Aukum vér nú enn með góðum hlutum, höfum konung kórónaðan eigi síður en enskir menn eða Danir."
Síðan töluðu þeir erkibiskup og Erlingur um þetta mál oftlega og fór allt sáttgjarnlega. Síðan bar erkibiskup þetta mál fyrir legátann og fékk auðveldlega snúið legátanum til samþykkis við sig. Átti erkibiskup þá stefnu við ljóðbiskupa og aðra kennimenn og bar þetta mál fyrir þá en allir svöruðu á eina lund, sögðu það sitt ráð sem erkibiskup vildi vera láta og fýstu allir að vígsla færi fram þegar þeir fundu að erkibiskup vildi svo vera láta. Var það þá allra dómur.
22. Vígsla Magnúss konungsErlingur skakki lét búa í konungsgarði til veislu mikillar og var höll hin mikla tjölduð pellum og bakklæðum og búin með hinum mesta kostnaði. Var þá veitt hirðinni og öllum handgengnum mönnum. Þar var fjöldi boðsmanna og margir höfðingjar. Magnús tók þá konungsvígslu af Eysteini erkibiskupi og þar voru að vígslunni aðrir fimm biskupar og legátinn og fjöldi kennimanna. Erlingur skakki og með honum tólf lendir menn sóru lagaeiða með konungi.
Og þann dag er vígslan var, hafði konungur og Erlingur í boði sínu erkibiskup og legátann og alla biskupa og var sú veisla hin vegsamlegsta. Gáfu þeir feðgar þar margar stórgjafar. Þá var Magnús konungur átta vetra. Þrjá vetur hafði hann þá konungur verið.
23. Frá sendimönnum Valdimars konungsValdimar Danakonungur hafði þá spurt þau tíðindi af Noregi að þar var þá Magnús einn konungur, þá var eytt flokkum öllum öðrum þar í landi. Þá sendi konungur menn sína með bréfum til Magnúss konungs og þeirra Erlings, minnti þá á einkamál þau er Erlingur hafði bundið við Valdimar konung, svo sem hér var fyrr ritað, að Valdimar konungur skyldi eignast Víkina austan til Rýgjarbits ef Magnús yrði einvaldskonungur í Noregi.
En er sendimenn komu fram og sýndu Erlingi bréf Danakonungs og hann skilur tilkall það er Danakonungur hefir í Noreg þá bar Erlingur þetta fyrir aðra menn, þá er hann skaut ráðum til, en þeir sögðu allir einn að aldrei skyldi Dönum miðla af Noregi því að menn sögðu að sú öld hefði verst verið þar í landi er Danir höfðu vald yfir Noregi. Sendimenn Danakonungs töluðu sitt mál fyrir Erlingi og beiddu hann úrskurðar. Erlingur bað þá fara með sér í Vík austur um haustið, sagði að hann mundi þá veita úrskurð er hann hefði hitta þá menn í Víkinni er vitrastir voru.
24. Frá ErlingiErlingur skakki fór um haustið austur í Vík og dvaldist í Túnsbergi, gerði menn yfir til Borgar og lét stefna þar fjögurra fylkna þing í Borginni. Síðan fór Erlingur þannug með liði sínu.
En er þing var sett þá talaði Erlingur og sagði frá því hver ráðagerð hafði verið staðfest með þeim Danakonungi þá er þeir Erlingur höfðu hafið flokk þenna fyrsta sinn: "Vil eg," segir hann, "og halda öll einkamál þau, er vér gerðum þá, ef það er vilji og samþykki yðart bóndanna að þjóna Danakonungi heldur en þessum konungi er hér er vígður og kórónaður til lands."
Bændur svöruðu Erlingi og sögðu svo: "Fyrir engan mun viljum vér gerast menn Danakonungs meðan einn vor er á lífi Víkverjanna."
Geystist þá að múgur allur með ópi og kalli og báðu Erling halda eiða sína er hann hafði þá svarið öllu landsfólki að verja "land sonar þíns en vér skulum allir fylgja þér."
Sleit svo því þingi.
Síðan fóru sendimenn Danakonungs heim suður til Danmerkur og sögðu sitt erindi slíkt sem var. Danir veittu Erlingi mikið ámæli og öllum Norðmönnum, sögðu að þeir væru aldrei reyndir nema að illu. Fóru þau orð um að Danakonungur mundi eftir um vorið hafa úti her sinn og herja í Noreg. Erlingur fór um haustið norður til Björgynjar og sat þar um veturinn og gaf þar mála.
25. Frá bréfum ÞrændaVetur þann fóru menn nokkurir danskir hið efra um land og sögðu það sem margtítt er að þeir skyldu til hins helga Ólafs konungs til vöku. En er þeir komu til Þrándheims þá hittu þeir þar marga ríkismenn, segja þá erindi sín að Danakonungur hafði sent þá að leita sér vináttu til þeirra og viðtöku, ef hann kemur í land, en hann heitir að gefa þeim bæði ríki og fé. Þessari orðsending fylgdi bréf og innsigli Danakonungs og það með að þeir bændurnir skyldu senda í mót sín bréf og innsigli. Þeir gerðu svo og urpust flestir vel undir orðsending Danakonungs. Sendimenn fóru aftur austur er á leið langaföstu.
Erlingur sat í Björgyn. En er voraði sögðu vinir Erlings honum pata þann er þeir höfðu spurt af byrðingsmönnum er komnir voru norðan úr Þrándheimi, að Þrændir væru berir í fjandskap við hann og þeir lýstu því á þingum sínum, ef Erlingur kæmi í Þrándheim, að hann skyldi aldregi koma út um Agðanes með fjörvi. Erlingur sagði að slíkt væri upplostning og hégómi. Erlingur lýsti því að hann mundi fara suður á Unarheim til gagndagaþings og lét búa snekkju, tvítugsessu, og skútu, fimmtánsessu, og enn vistabyrðing. En er skipin voru búin þá lögðust á sunnanveður hvöss. Týsdag í gagndögum lét Erlingur blása liði sínu til skipa en menn voru trauðir úr býnum og þótti illt að róa andróðann. Erlingur lagði norður í Biskupshöfn.
Þá mælti Erlingur: "Illa kurrið þér að róa andróðann, takið nú og reisið viðurnar, dragið síðan seglin og látum ganga norður skipin."
Þeir gerðu svo, sigldu norður um daginn og um nóttina. Óðinsdag að kveldi sigldu þeir inn um Agðanes. Varð þá fyrir þeim samflot mikið, byrðingar og róðrarferjur og skútur, það var vökulið, fóru inn til býjar, sumir fyrir þeim en sumir eftir. Gáfu býjarmenn engi gaum að fyrir þá sök um langskipasigling.
26. Frá Erlingi og ÞrændumErlingur skakki kom til býjarins þann tíma er sunginn var óttusöngur uppi að Kristskirkju. Þeir Erlingur hljópu í býinn og var þeim sagt að Álfur hroði, sonur Óttars birtings, lendur maður, sat þá enn og drakk með sína sveit. Erlingur veitti þeim atgöngu. Var Álfur drepinn og flest öll sveit hans. Fátt féll annarra manna því að flestir höfðu gengið til kirkju. Þetta var um nóttina fyrir uppstigningardag.
Þegar um morguninn lét Erlingur blása öllu liðinu út á Eyrar til þings. En á þinginu bar Erlingur sakir á Þrændi og kenndi þeim landráð við konunginn og sig og nefndi til Bárð standala og Pál Andrésson og Rassa-Bárð, hann hafði þá býjarbyggð, og enn mjög marga aðra. Þeir svöruðu og færðu sig undan sökum.
Þá stóð upp kapalín Erlings og hélt upp bréfum mörgum og innsiglum og spurði ef þeir kenndu innsigli sín þar, þau er þeir höfðu sent um vorið Danakonungi. Voru þá og lesin upp bréfin. Þar voru og þeir hinir dönsku menn með Erlingi er með bréfum höfðu farið um veturinn. Hafði Erlingur fengið þá til þess.
Sögðu þeir þá fyrir allri alþýðu, hvers þeirra orð er mælt hafði: "Svo mæltir þú, Rassa-Bárður, og barðir á brjóstið: "Úr þessu brjósti komu að upphafi öll þessi ráð.""
Bárður svaraði: "Ær var eg þá, herra minn, er eg mælti slíkt."
Urðu þá engi föng önnur en festa Erlingi sinn dóm á öllu því máli. Tók hann þá þegar ógrynni fjár af mörgum mönnum en lagði alla ógilda, þá er drepnir voru, fór síðan aftur suður til Björgynjar.
27. Ferð Valdimars konungs í NoregValdimar konungur hafði það vor úti her mikinn í Danmörk og hélt liðinu norður í Víkina. Þegar hann kom í veldi Noregskonungs þá höfðu bændur fyrir safnað og múg manns. Konungur fór friðsamlega og spaklega en hvar sem þeir fóru við meginland þá skutu menn á þá og þótt einn eða tveir væru og þótti Dönum það fullur illvilji landsmanna. En er þeir komu til Túnsbergs þá stefndi Valdimar konungur þar þing á Haugum en ekki sótti til úr héruðum.
Þá talaði Valdimar konungur og mælti svo: "Auðsætt er um landsfólk þetta að allir standa oss í móti. Eigum vér nú tvo kosti fyrir höndum, þann annan að fara herskildi yfir landið og eira engu hvorki fé né mönnum, hinn er annar kostur að fara suður aftur við svo búið. Og er það nær mínu skapi að fara heldur í Austurveg til heiðinna landa er gnóg eru fyrir en drepa eigi hér kristið fólk þótt þeir hefðu ærna maklegleika til þess."
En allir aðrir voru fúsir til að herja en þó réð konungur að þeir fóru aftur suður og var þó allvíða rænt um úteyjar og hvarvetna þegar konungur var eigi nær. Fóru þeir suður til Danmerkur.
28. Ferð Erlings til JótlandsErlingur skakki spurði að Danaher var kominn í Víkina. Þá bauð hann út almenningi um allt land að liði og skipum og varð það hið mesta herhlaup og hélt her þeim austur með landi. En er hann kom til Líðandisness spurði hann að Danaher var farinn suður aftur til Danmerkur og þeir höfðu víða rænt í Víkinni. Þá gaf Erlingur heimleyfi öllu leiðangursliði en hann sjálfur og nokkurir lendir menn sigldu með mjög mörg skip suður eftir Dönum til Jótlands.
En er þeir komu þar sem heitir Dýrsá þá lágu þar fyrir Danir, komnir úr leiðangri, og höfðu skip mörg. Erlingur lagði að þeim og barðist við þá. Danir flýðu brátt og létu mart manna en þeir Erlingur rændu skipin og svo kaupstaðinn og fengu þar allmikið fé og fóru síðan aftur til Noregs. Var þá um hríð ófriður milli Noregs og Danmerkur.
29. Ferð Erlings til DanmerkurKristín konungsdóttir fór um haustið suður til Danmerkur. Fór hún á fund Valdimars konungs frænda síns. Þau voru systrabörn. Fagnaði konungur henni forkunnarvel og fékk henni veislur þar með sér svo að hún fékk þar vel haldið sína menn. Var hún oft á tali við konunginn og var hann allblíður til hennar. En eftir um vorið sendi Kristín menn til Erlings og bað hann fara á fund Danakonungs og sættast við hann.
Um sumarið eftir var Erlingur í Víkinni. Hann bjó eitt langskip og skipaði hinu fríðasta liði sínu. Síðan sigldi hann yfir til Jótlands. Hann spurði að Valdimar konungur var í Randarósi. Sigldi Erlingur þannug og kom til býjarins þann tíma er flest fólk sat um mat.
En er þeir höfðu tjaldað og fest skip sitt gekk Erlingur upp og þeir tólf saman og allir brynjaðir, höfðu höttu yfir hjálmum en sverð undir möttlum, gengu til konungsherbergis. Þá fóru þar sendingar inn og voru opin dyrin. Gengu þeir Erlingur þegar innar fyrir hásætið.
Mælti Erlingur: "Grið viljum vér hafa, konungur, bæði hér og til heimfarar."
Konungur leit við honum og mælti: "Ertu þar Erlingur?"
Hann svaraði: "Erlingur er hér og seg oss skjótt hvort vér skulum grið hafa."
Þar voru inni átta tigir konungsmanna og allir vopnlausir.
Konungur mælti: "Grið skuluð þér hafa, Erlingur, sem þú beiðist. Á engum manni níðist eg ef á minn fund kemur."
Þá kyssti Erlingur á hönd konungi og gekk út síðan og til skips síns. Dvaldist hann þar um hríð með konungi. Töluðu þeir um sættargerð milli sín og landanna og kom það ásamt að Erlingur settist þar í gísling með Danakonungi en Ásbjörn snara, bróðir Absalons erkibiskups, fór til Noregs í gísling í móti.
30. Tal Valdimars konungs og ErlingsÞað var eitt sinn er þeir töluðu Valdimar konungur og Erlingur.
Mælti Erlingur: "Herra, það þykir mér líkast til sætta að þér hafið allt það af Noregi sem yður var heitið í einkamálum vorum. En ef svo er, hvern höfðingja viljið þér yfir setja þar, hvort nokkurn danskan? Nei," segir hann, "engir Danahöfðingjar munu fara vilja í Noreg og fást þar við hart fólk og óhlýðið en hafa hér áður ærið gott með yður. Eg fór fyrir þá sök hingað að eg vil fyrir engan mun missa yðarrar vináttu. Hingað til Danmerkur hafa fyrr farið menn af Noregi, Hákon Ívarsson og Finnur Árnason, og gerði Sveinn konungur, frændi yðar, hvorntveggja þeirra jarl sinn. Eigi em eg nú minni valdsmaður í Noregi en þeir voru þá og gaf konungur þeim yfirsókn á Hallandi, því ríki er hann átti áður. Nú þykir mér, herra, þér vel mega unna mér þess lands, ef eg gerist yðar maður handgenginn, að eg haldi af yður þessu ríki. Svo og Magnús konungur sonur minn má og eigi mér þess synja en eg vil við yður vera skeyttur og skyldur til allrar þjónustu þeirrar er því nafni byrjar."
Slíkt talaði Erlingur og annað þessu líkt og kom svo að lyktum að Erlingur gerðist handgenginn Valdimar konungi en konungur leiddi Erling til sætis og gaf honum jarldóm og Víkina til léns og yfirsóknar. Þá fór Erlingur heim til Noregs og var síðan jarl meðan hann lifði og hélst í sætt við Danakonung jafnan síðan.
Erlingur átti fjóra frillusonu. Einn hét Hreiðar, annar Ögmundur, þeir voru sér um móður, þriðji Finnur, fjórði Sigurður. Þeirra móðir var Ása hin ljósa. Þeir voru yngri. Kristín konungsdóttir og Erlingur áttu dóttur er Ragnhildur hét. Hún var gift Jóni Þorbergssyni af Randabergi. Kristín fór af landi með þeim manni er Grímur rusli var kallaður. Þau fóru út í Miklagarð og voru þar um hríð og áttu þau börn nokkur.
31. Upphaf ÓlafsÓlafur, sonur Guðbrands Skafhöggssonar og sonur Maríu Eysteinsdóttur konungs Magnússonar, var að fóstri með Sigurði agnhött á Upplöndum. En er Erlingur var í Danmörk þá hófu þeir fóstrar flokk, Ólafur og Sigurður, og réðust til margir Upplendingar. Var þar Ólafur til konungs tekinn. Þeir fóru með flokkinn um Upplönd en stundum í Víkina, stundum austur á Markir. Ekki voru þeir á skipum.
En er Erlingur jarl spurði til flokks þessa þá fór hann liði sínu í Víkina og var á skipum um sumarið og um haustið í Ósló og veitti þar um jólin. Hann lét halda njósnum upp á landið til flokksins og fór sjálfur upp á land að leita þeirra og með honum Ormur konungsbróðir. En er þeir komu til vatns þess er heitir ... þá tóku þeir skip öll þau er voru við vatnið.
32. Frá ErlingiPrestur sá er söng á Ryðjökli, það er við vatnið, bauð þeim jarli til veislu og að koma þar að kyndilmessu. Jarl hét förinni, þótti það gott að hafa þar tíðir. Reru þeir þannug yfir vatnið um kveldið fyrir messudaginn. En prestur sá hafði annað ráð með höndum. Hann sendi menn að bera njósn þeim Ólafi um farar Erlings. Hann gaf þeim Erlingi sterkan drykk um kveldið og lét allmjög drekka. En er jarl fór að sofa þá voru rekkjur þeirra búnar í veislustofunni. En er þeir höfðu litla hríð sofið vaknaði jarl og spurði ef þá mundi vera óttusöngsmál. Presturinn sagði að lítið var af nótt, bað þá sofa í ró.
Jarl svarar: "Mart dreymir mig í nótt og illa sef eg."
Hann sofnaði síðan.
Annað sinn vaknaði hann og bað prest upp standa og syngja tíðir. Prestur bað jarl sofa, sagði að þá var mið nótt. Lagðist jarl niður og svaf litla hríð og hljóp upp og bað menn sína klæðast. Þeir gerðu svo og tóku vopn sín, gengu til kirkju og lögðu úti vopnin meðan prestur söng óttusönginn.
33. Bardagi á RyðjökliÓlafi kom njósn um kveldið en þeir gengu um nóttina sex rastir götu og þótti mönnum það furðu mikið farið. Þeir komu á Ryðjökul um óttusöng. Niðamyrkur var sem mest. Þeir Ólafur gengu að stofunni og æptu þá heróp, drápu þar inni nokkura menn er eigi höfðu gengið til óttusöngs.
En er þeir Erlingur heyrðu ópið hljópu þeir til vopna sinna og stefndu síðan ofan til skipanna. Þeir Ólafur mættu þeim við garð nokkurn. Varð þar bardagi. Óku þeir Erlingur undan ofan með garðinum og hlífði garðurinn þeim. Þeir höfðu lið miklu minna. Féll mart af þeim og mart varð sárt. Það hjálp þeim mest er þeir Ólafur kenndu þá eigi. Svo var myrkt. En Erlings menn leituðu einart til skipanna. Þar féll Ari Þorgeirsson, faðir Guðmundar biskups, og mart annarra hirðmanna Erlings. Erlingur varð sár á vinstri síðu og segja sumir menn að hann sjálfur drægi sverðið á sig þá er hann brá. Ormur var og mjög sár. Nauðulega komust þeir á skipin og létu þegar frá landi.
Það var kallað að þeir Ólafur hefðu hina mestu óhamingju borið til fundarins, svo sem þeir Erlingur voru fram seldir, ef þeir Ólafur hefðu meirum ráðum fram farið. Síðan kölluðu menn hann Ólaf ógæfu en sumir kölluðu þá Hettusveina.
Fóru þeir með flokk þann enn sem áður uppi um land en Erlingur jarl fór út í Víkina til skipa sinna og var eftir um sumarið í Víkinni en þeir Ólafur á Upplöndum en stundum austur á Mörkum. Höfðu þeir flokk þann svo annan vetur.
34. Bardagi á StöngumEftir um vorið fóru þeir Ólafur út í Víkina og tóku þar konungsskyldir, dvöldust þar langa hríð um sumarið. Erlingur jarl spurði það og hélt liði sínu austur til móts við þá og varð fundur þeirra austan fjarðar þar sem heitir á Stöngum. Varð þar orusta mikil og hafði Erlingur sigur. Þar féll Sigurður agnhöttur og mart af Ólafs mönnum en Ólafur kom á flótta. Fór hann síðan suður til Danmerkur og var hinn næsta vetur eftir á Jótlandi í Álaborg.
En eftir um vorið fékk Ólafur sótt þá er hann leiddi til bana og er hann þar jarðaður að Maríukirkju og kalla Danir hann helgan.
35. Dráp HaraldsNikulás kúfungur sonur Páls Skoftasonar var lendur maður Magnúss konungs. Hann tók höndum Harald er sagt var að væri sonur Sigurðar konungs Haraldssonar og Kristínar konungsdóttur, bróðir Magnúss konungs sammæðri. Nikulás flutti Harald til Björgynjar og fékk í hendur Erlingi jarli.
Það var háttur Erlings ef óvinir hans komu fyrir hann að hann mælti ekki eða fátt við þá og stillilega það er var ef hann var ráðinn til að drepa þá en hina hrakti hann sem mest í orðum er hann vildi að lífið hefðu.
Erlingur mælti fátt við Harald og var mönnum grunur á hvað hann mundi fyrir ætla. Þá báðu menn Magnús konung að hann skyldi friða fyrir Haraldi við jarl. Konungur gerði svo.
Jarl svarar: "Slíkt ráða þér vinir þínir. En þú munt litla hríð ráða ríkinu í frelsi ef þú skalt heilhuga ráðum einum fram fara."
Síðan lét Erlingur Harald flytja yfir í Norðnes og var hann þar höggvinn.
36. Upphaf Eysteins sonar Eysteins konungsEysteinn er nefndur sá maður er kallaðist sonur Eysteins konungs Haraldssonar. Hann var þá ungur maður, eigi með öllu fullroskinn. Er frá því er sagt að hann kom fram á einu sumri austur í Svíaveldi og fór á fund Birgis brosu. Hann átti þá Brígiðu dóttur Haralds gilla, föðursystur Eysteins. Bar Eysteinn upp fyrir þau sín erindi og bað þau sér fulltings. Jarl og bæði þau tóku vel hans máli og hétu honum sínu trausti. Dvaldist hann þar um hríð. Birgir jarl fékk Eysteini nokkurn liðskost og góða peninga til skotsilfurs sér og leysti hann vel af hendi. Hétu þau bæði honum sinni vináttu.
Eysteinn fór þá norður í Noreg og kom ofan í Víkina. Dreif þá þegar lið til hans og efldist flokkur sá. Tóku þeir Eystein til konungs og voru þeir með flokk þann í Víkinni um veturinn. En fyrir því að þeim varð féfátt þá rændu þeir víða en lendir menn og bændur gerðu lið að þeim. En er þeir voru ofurliði bornir þá flýðu þeir brott á skóga og lágu löngum á eyðimörkum. Gengu þá klæði af þeim svo að þeir spenntu næfrum um fótleggi sér. Þá kölluðu bændur þá Birkibeina. Þeir hljópu oft í byggðina og komu fram hér og hvar og réðu þegar til áhlaupa er eigi var fjölmennt fyrir. Þeir áttu nokkurar orustur við bændur og höfðu ýmsir betur. Þrjár orustur áttu Birkibeinar svo að fylkt var til og höfðu þeir sigur í öllum. Á Krókaskógi lagði þeim nær óför. Kom að þeim bóndasafnaður, fjöldi liðs. Birkibeinar felldu brota fyrir þá og hljópu síðan á mörkina.
Birkibeinar voru tvo vetur í Víkinni svo að þeir komu ekki norður í land.
37. Frá Magnúsi konungi og Erlingi jarliMagnús konungur hafði þá verið þrettán vetur konungur er Birkibeinar hófust. Hið þriðja sumar réðu þeir sér til skipa, fóru þá fyrir land fram, fengu sér fjár og liðs. Þeir voru fyrst í Víkinni en er á leið sumarið stefndu þeir norður í land, fóru svo skyndilega að ekki kom njósn fyrir þá fyrr en þeir komu til Þrándheims. Birkibeinar höfðu mest í flokki sínum Markamenn og Elfargríma og mjög mart höfðu þeir af Þelamörk og vel voru þeir þá vopnaðir. Eysteinn konungur þeirra var fríður og fagurleitur, lítilleitur, ekki mikill maður. Hann var kallaður af mörgum mönnum Eysteinn meyla.
Magnús konungur og Erlingur jarl sátu í Björgyn þá er Birkibeinar sigldu norður um og urðu ekki við þá varir.
Erlingur var maður ríkur, spakur að viti, hermaður hinn mesti ef ófriður var, landráðamaður góður og stjórnsamur, kallaður heldur grimmur og harðráður. En hitt var þó mest að hann lét óvini sína þá eina landsvistina fá, þótt griða beiddust, og urðu fyrir þá sök margir til að hlaupa í flokkana þegar er hófust í móti honum. Erlingur var hár maður og harðvaxinn, nokkuð baraxlaður, langleitur, skarpleitur, ljóslitaður og gerðist hár mjög, bar hallt höfuðið nokkuð, hugaðlátur og veglátur, hafði forneskju klæðabúnað, langa upphluti og langar ermar á kyrtlum og á skyrtum, valskikkjur, uppháva skúa. Slíkan búnað lét hann konung hafa meðan hann var ungur en þá er hann réð sjálfur bjó hann sig mjög í skart.
Magnús konungur var léttlátur og leikinn, gleðimaður mikill og kvinnamaður mikill.
38. Frá NikulásiNikulás sonur Sigurðar Hranasonar, hann var sonur Skjaldvarar dóttur Brynjólfs úlfalda systur Halldórs Brynjólfssonar en sammæðra við Magnús konung berfætt. Nikulás var hinn mesti höfðingi. Hann átti bú á Hálogalandi í Öngli þar sem heitir á Steig. Nikulás átti garð í Niðarósi ofan frá Jónskirkju þar sem átti Þorgeir kapalín. Nikulás var oft í Kaupangi og hafði hann ráð öll fyrir býjarmönnum.
Skjaldvöru dóttur Nikuláss átti Eiríkur Árnason. Hann var og lendur maður.
39. Frá Eiríki og NikulásiÞað var Maríumessu hina síðari er menn gengu frá óttusöng í býnum að Eiríkur gekk til Nikuláss og mælti: "Mágur, það segja fiskimenn nokkurir er utan eru komnir að langskip sigli utan eftir firðinum og geta menn að Birkibeinar muni vera og er sá til, mágur, að láta blása býjarliði öllu með vopnum út á Eyrar."
Nikulás svaraði: "Ekki fer eg, mágur, að fiskimanna kvittum. Mun eg gera njósn út á fjörðinn en höfum þing í dag."
Gekk Eiríkur heim en er hringdi til hámessu gekk Nikulás til kirkju.
Eiríkur kom þá til hans og mælti: "Það hygg eg, mágur, að sönn sé njósnin. Eru nú þeir menn hér er séð kveðast hafa seglin. Þykir mér það ráð að við ríðum úr býnum og söfnum oss liði."
Nikulás svaraði: "Kvaksamur ertu svo, mágur. Hlýðum fyrst messu. Gerum þá ráð vor síðan."
Gekk Nikulás til kirkju.
En er messa var sungin gekk Eiríkur til Nikuláss og mælti: "Mágur, nú eru hestar mínir búnir. Vil eg brott ríða."
Nikulás svaraði: "Far vel þú þá. Vér munum hafa þing á Eyrum og kanna hvað liðs er í býnum."
Reið þá Eiríkur í brott en Nikulás gekk í garð sinn og síðan til borða.
40. Fall NikulássEn í þann tíma er vist var sett kom maður inn og sagði Nikulási að þá reru Birkibeinar í ána. Þá kallaði Nikulás að hans menn skyldu vopnast. En er þeir voru vopnaðir bað Nikulás þá ganga inn í loftið, og var það hið ósnjallasta ráð fyrir því, ef þeir hefðu varið garðinn þá hefði býjarfólkið komið til að hjálpa þeim, því að Birkibeinar fylltu allan garðinn og gengu síðan að loftinu umhverfis. Þeir kölluðust á. Buðu Birkibeinar Nikulási grið en hann neitti. Síðan börðust þeir. Höfðu þeir Nikulás til varnar bogaskot og handskot og ofngrjót en Birkibeinar hjuggu húsin og skutu sem tíðast. Nikulás hafði rauðan skjöld og gylltir naglar í og stirndur, Vilhjálmsgerð. Birkibeinar skutu svo að uppi stóð á reyrböndunum.
Nikulás mælti: "Lýgur skjöldurinn nú að mér."
Þar féll Nikulás og mikill hluti sveitar hans og var hann hið mesta harmaður. Birkibeinar gáfu grið öllum býjarmönnum.
41. Eysteinn var til konungs tekinn
Eysteinn var þar síðan til konungs tekinn og gekk allt fólk undir hann. Hann dvaldist um hríð í býnum, fór síðan inn í Þrándheim. Þar kom mart lið til hans. Þar kom til hans Þorfinnur svarti af Snös og hafði sveit manna. Öndverðan vetur fóru þeir út til býjar. Þá komu til þeirra synir Guðrúnar af Saltnesi, Jón kettlingur, Sigurður og Vilhjálmur. Þeir fóru upp úr Niðarósi til Orkadals, þá voru skoruð þar nær tuttugu hundruð manna, fóru svo til Upplanda og þá út um Þótn og Haðaland, þá á Hringaríki.
42. Fall Eysteins konungsMagnús konungur fór í Vík austur um haustið með sumu liðinu og Ormur konungsbróðir. Erlingur jarl var eftir í Björgyn og hafði þar mikið lið og skyldi gegna Birkibeinum ef þeir færu hið ytra. Magnús konungur settist í Túnsbergi og þeir Ormur báðir. Veitti konungur þar um jólin.
Magnús konungur spurði til Birkibeina uppi á Ré. Síðan fór konungur úr býnum með liði sínu og þeir Ormur og komu á Ré. Snjár var mikill og veður furðu kalt. En er þeir komu á bæinn þá gengu þeir úr túninu á veginn og fyrir utan við garðinn fylktu þeir og tróðu sér gadd. Þeir höfðu eigi öll fimmtán hundruð manna. Birkibeinar voru á öðrum bænum en sumt lið þeirra hér og hvar í húsum. En er þeir urðu varir við her Magnúss konungs heimtust þeir saman og skutu á fylking. En er þeir sáu lið Magnúss konungs þá þótti þeim sem var að þeirra lið var meira, réðu þegar til bardaga.
En er þeir sóttu fram veginn þá máttu fáir senn fram fara en þeir er út hljópu af veginum fengu snjá svo mikinn að þeir fengu varla fram komist og brást þá fylking þeirra en þeir féllu er fyrstir gengu fram brautina. Var þá niður höggvið merkið en þeir er þar voru næst opuðu en sumir slógust á flótta. Magnúss konungs menn fylgdu þeim og drápu hvern að öðrum er þeir náðu. Birkibeinar komu þá ekki fylking á og urðu berir fyrir vopnum og féll þá mart og mart flýði. Var þá sem oft kann verða, þótt menn séu fræknir og vopndjarfir, ef slög stór fá og komi á flótta, að flestir verða illir afturhvarfs. Tók þá að flýja meginlið Birkibeina en fjöldi féll því að Magnúss konungs menn drápu allt það er þeir máttu og voru engum manni grið gefin, þeim er þeir náðu, en flóttinn dreifðist víðs vegar.
Eysteinn konungur kom á flótta. Hann hljóp í hús nokkuð og bað sér griða og þess að bóndi skyldi fela hann. En bóndi drap hann, fór síðan á fund Magnúss konungs og fann hann á Hrafnsnesi. Var konungur inni í stofu og bakaði sig við eld og var þar mart manna. Síðan fóru menn og fluttu þannug líkið, báru inn í stofuna. Bað konungur menn þá til ganga og kenna líkið.
Maður einn sat í krókpallinum og var það Birkibeinn og hafði engi maður gaum gefið að honum. En er hann sá lík höfðingja síns og kenndi þá stóð hann upp skjótt og hart. Hann hafði öxi í hendi, hljóp hann skjótt innar á gólfið og hjó til Magnúss konungs, kom á hálsinn við herðarnar. Maður nokkur sá er öxin reið og skaut honum frá. Við það snerist öxin ofan í herðarnar og varð það mikið sár. Síðan reiddi hann upp öxina annað sinn og hjó til Orms konungsbróður. Hann lá í pallinum. Höggið stefndi á báða fótleggina. En er Ormur sá að maður vildi drepa hann brást hann við skjótt, kastaði fótum fram yfir höfuð sér og kom öxin í pallstokkinn. Stóð öxin föst. En vopn stóðu svo þykkt á Birkibein að varla mátti hann falla. Þá sáu þeir að hann hafði dregið um gólfið eftir sér iðrin og er þess manns hreysti allmjög lofuð.
Magnúss konungs menn ráku flóttann lengi og drápu allt það er þeir máttu. Þar féll Þorfinnur á Snös og féllu þar og margir aðrir Þrændir.
43. Frá BirkibeinumFlokkur þessi er Birkibeinar voru kallaðir höfðu saman safnast með fjölmenni miklu. Var það fólk hart og menn hinir vopndjörfustu og lið heldur óspakt, fóru mjög geystir og rasandi síðan þeir þóttust hafa styrk mikinn. Þeir höfðu í flokkinum fátt þeirra manna er ráðagerðarmenn væru eða vanir væru stjórn lands eða laga eða her að stýra en þótt sumir kynnu betur þá vildi þó flokkurinn allur hafa það er sjálfum sýndist. Þóttust þeir öruggir af liðsfjölda sínum og hreysti.
En það lið er undan komst var mart sárt og hafði látið vopn og klæði en allt félaust. Sótti sumt austur á Markir en mart á Þelamörk, það flest er þar átti kyn. Sumt fór allt austur í Svíaveldi. Allir forðuðu sér því að lítil von þótti griða af Magnúsi konungi eða Erlingi jarli.
Magnús konungur fór síðan út aftur til Túnsbergs og varð hann allfrægur af sigri þessum því að það var allra manna mál að Erlingur jarl væri brjóst og forusta fyrir þeim feðgum. En eftir það er Magnús konungur hafði fengið sigur af svo styrkum flokki og fjölmennum og hafði haft minna lið, þótti þá svo öllum mönnum sem hann mundi yfir alla ganga og hann mundi þá vera því meiri hermaður en jarl sem hann var yngri.