Magnmælingar og erlent niðurhal
Við hjá Snerpu höfum orðið vör við að það hafi komið fram misskilningur hjá fólki um hvernig gagnamagn er mælt hjá netfyrirtækjum og hvort sé munur á milli þeirra. Einnig hefur fólk verið að velta því fyrir sér hvort um þetta gildi ekki það sama og t.d. vigtun á vöru. Af hverju ekki noti allir sömu mælieininguna og hver passi upp á að rétt sé mælt.
Ágætt er að skoða þróunina frá því nettengingar voru fyrst í boði. T.d. var ekki selt eftir mælingu á meðan eingöngu var hægt að tengjast Internetinu með því að hringja inn með módemi. Ástæðan fyrir því var að það gagnamagn sem hægt var að taka yfir sambandið var hverfandi lítið. Með nýjustu og hraðvirkustu tengingum sem í boði eru er hægt að nota mjög mikið gagnamagn á stuttum tíma og hefur það þau áhrif að kostnaður við að flytja gögnin hækkar mikið. Í stað þess að hækka jafnt á þá sem nota mikið og lítið hafa því netfyrirtækin tekið upp mælingu og selja tenginguna hærra verði til þeirra sem eru með mikla notkun heldur en til þeirra sem eru með litla notkun.
Erlendis, þar sem notkun er oft seld ómæld, er yfirleitt um að ræða markað með miklum fjölda notenda, jafnvel talinn í milljónum og er þá ástæðan fyrir því að ekki er mælt sú að ekki er lengur hagkvæmt að mæla vegna þess gríðarlega magns af upplýsingum um notkun sem þarf að vinna úr. Er þá aðfangakostnaði deilt jafnt á allar tengingar og þær seldar án mælingar en verð getur þó verið mismunandi eftir því hvort tenging er seld í þéttbýli eða dreifbýli.
Í sumar tilkynnti Síminn um breytta skilmála hjá sér varðandi gagnamælingu, þannig að í stað þess að mæla einungis erlent niðurhal notenda yrði framvegis öll umferð mæld, bæði upp- og niðurhal og einnig innlend umferð. Til þess að koma á móts við notendur yrði síðan innifalið gagnamagn aukið verulega.
Það er hverri netþjónustu í sjálfsvald sett hvort og hvernig þjónustan er seld, þ.e. netþjónustur geta sett eigin skilmála og byggt þá á eigin mælingum. Fram hafa komið áhyggjur, m.a. á Alþingi um hvort rétt sé að leyfa slíkt og þá vitnað til þess að nær allar mælingar við sölu, t.d. þegar seld er vara eftir vigt, eru viðurkenndar sérstaklega af yfirvöldum. Jafnframt er spurt hvers vegna annað ætti að gilda um netþjónustur. Ástæðan fyrir því að löggilda þarf t.d. vogir er sú að vog getur verið van- eða ofstillt og sýni því ekki rétta vikt. Engu slíku er til að dreifa í mælingum netfyrirtækja þar sem mælingin felst einfaldlega í því að telja stafrænt það magn sem fer til eða frá notanda. Ekkert frávik getur verið á þeim mælingum.
Snerpa hefur farið þá leið að láta skilmála fyrir mælingar fara eftir því sem samningar Snerpu við birgja hafa boðið upp á. Þannig náðust á tímabili samningar um aðgang að útlandagátt á ómagnmældri tengingu og var þá boðið upp á ómælt niðurhal. Eftir að þeir samningar fengust ekki endurnýjaðir var ekki um annað að ræða en að bjóða magnmælt Internet og þá einungis að mæla erlent niðurhal en Snerpa þarf ekki að greiða eftir magni fyrir netumferð innanlands þó þurfi að leigja sambönd milli Ísafjarðar og Reykjavíkur undir þá umferð eins og aðra.
Ekki er fyrirséð að kostnaðarmódel Snerpu vegna netumferðar sé að breytast og mun því áfram verða boðið upp á núverandi skilmála, s.s. að eingöngu er mælt erlent niðurhal hjá Snerpu á meðan Síminn mælir alla umferð í báðar áttir.
Þá er komið að samanburði á gagnamagni. Í stuttu máli þá er ekki til neinn marktækur samanburður lengur því að það er undir hverjum og einum komið hvernig hann notar nettengingu sína. Ef t.d. nettengingin er tengd við eftirlitsmyndavél eða annan fjarstýrðan búnað þá segir sig sjálft að ef öll umferð frá notanda er mæld að þá þarf mun meira innifalið gagnamagn en þyrfti ef ekki er mælt gagnamagn frá notanda (upphal).
Ekki er til nein þumalputtaregla um hversu stór hluti meðalnotanda er innlend umferð. T.d. þarf að huga að því hvort netþjónustan býður aðgang að efni eins og YouTube á íslenskum IP-tölum.
Eini marktæki samanburðurinn er að fara yfir eigin netnotkun. Snerpa sýnir notkun með daglegri sundurliðun, bæði erlenda og innlenda til notenda en þar sem engin mæling er í gangi frá notendum er ekki hægt að sýna hana. Á heimasíðu Snerpu, undir Þjónusta -> Internet er boðið upp á IP-uppflettingu þar sem fram kemur hvort tiltekinn staður t.d. youtube.com svarar á íslenskri eða erlendri IP-tölu. Ef IP-talan er íslensk er niðurhal frá henni ekki mælt.
Um sl. áramót lofuðum við hjá Snerpu að hækka ekki verð fyrir nettengingar og það loforð höfum við staðið við. Þó hefur aðfangakostnaður hækkað umtalsvert undanfarin tvö ár og Síminn hækkaði t.d. verð um 2-300 kr. á nettengingum hjá sér 1. júlí sl. Einnig hefur Míla hækkað verð á aðföngum í sumar og má því búast við því að um frekari hækkanir geti orðið að ræða. Við hjá Snerpu ætlum að sjá til og munum ekki hækka verðið, a.m.k. út þetta ár.