155 Mbps ATM-samband
Snerpa hefur nú gengið frá kaupum á búnaði erlendis frá sem mun verða notaður til að tengjast inn á ATM-net Landssímans. Um er að ræða svokallaða SONET OC3 (Optical Carrier 3) gátt sem tengist beint og milliliðalaust inn á ljósleiðara Landssímans og mun gefa kost á verulega aukinni bandbreidd inn á Internetið auk þess sem hann mun nýtast til tenginga við þá viðskiptavini Landssímans sem tengjast með sk. Frame Relay og nýta vilja sér Internetsambönd hjá Snerpu.
Starfsmenn Landssímans eru nú að vinna við að draga 32ja leiðara ljósleiðara frá símstöðinni á Ísafirði til Snerpu en auk parsins sem Snerpa mun nýta þá er gert ráð fyrir að sami kapall sé nýttur m.a. undir Breiðbandið þegar þar að kemur. Auk þess mun verða lagður 12 leiðara strengur frá Snerpu til Vestmarks með einu pari til afnota fyrir Vestmark.
Búnaðurinn sem Snerpa notar er frá Cisco Systems og notast við 155 Mbps bandvídd sem er jafngildi ríflega 2420 ISDN-sambanda. Fyrst í stað mun Internetsambandið stækka í 2-10 Mbps auk annarra sambanda sem munu samnýta gáttina.
Frekari stækkanir munu jafnframt geta gerst með mun skemmri fyrirvara en áður vegna hins nýja búnaðar.
Heildarkostnaður er nokkuð á aðra milljón króna.