Cover
mánudagurinn 25. nóvember 2024

30 ára afmæli Snerpu í dag

Í dag þann 25. nóvember er Snerpa ehf. 30 ára. Að því tilefni verður opið hús á milli 16:00 – 18:00 þar sem boðið verður upp á léttar veitingar í versluninni okkar og eru allir velkomnir og hvattir til að kíkja í heimsókn og njóta með okkur. Einnig vera afslættir á öllum vörum í verslun út afmælisvikuna.

Netþjónusta Snerpu er sú elsta á landinu sem enn starfar undir upprunalegu nafni. Þegar Snerpa var stofnuð, árið 1994, var megin tilgangurinn að veita Vestfirðingum aðgang að internetinu. Á þeim tíma þekktu ekki margir internetið og GSM þjónustu, sem var líka að stíga sín fyrstu skref. Á þessum tíma var notast við Telex og Telefax til samskipta í viðskiptum og ef þurfti að koma gögnum á milli heimsálfa eða jafnvel bara í næsta sveitarfélag.

Þegar farið var af stað, fyrir 30 árum, voru stofnendur ekki með mikla peninga á milli handanna en þeim mun meira af eldhug og trú á verkefnið. Það átti eftir að koma í ljós að þörf var fyrir þjónustuna og sífellt fleiri notfærðu sér hana og viðskiptavinum fjölgaði. Fyrirtækið stækkaði ekki að ráði fyrstu árin en tók svo kipp með netbólunni svokölluðu sem náði hámarki um aldamótin. Þá hafði verið stofnaður mikill fjöldi netfyrirtækja um allan heim. Mörg þeirra misstu flugið, svo mörg að talað var um að netbólan hefði sprungið. En Snerpa hélt velli.

Í dag eru starfsmenn Snerpu 17, 15 í fullu starfi og 2 í hlutastarfi.

 


Avatar Sturla Stígsson

Upp