Cover
þriðjudagurinn 29. mars 2011

Almenn skynsemi besta vörnin

Vírusvarnir mega sín lítils þegar notendur velja sjálfir að virkja forrit með því að smella á hlekki á netinu. Björn Davíðsson, þróunarstjóri hjá tölvuþjónustunni Snerpu á Ísafirði, segir „almenna skynsemi“ seint verða ofmetna sem forvörn á internetinu. Fólk sem notar samskiptavefinn Facebook kann að hafa orðið vart við nokkra aukningu á því að jafnvel grandvörustu menn sendi frá sér það sem virðist vera tenglar í vafasamt efni á vefnum. Full ástæða er til að sýna aðgát í þessum efnum, jafnvel þótt einungis virðist vísað á saklaust grín. Í samtali við Fréttablaðið segir Björn algengt að fólk þurfi að setja upp kerfisviðbætur til að skoða efni á netinu, svo sem Microsoft Silverlight, Flash eða Shockwave. Mikilvægt sé hins vegar að sýna aðgát þegar fólk er beðið að samþykkja forrit sem það ekki þekkir. „Við köllum þetta trójuhesta, en það eru forrit og forritsbútar sem virðast vera annað en þeir eru,“ segir hann. 

Fjölmargar útgáfur eru af slíkum svikabrögðum á netinu, en flestar eiga þær sammerkt að fiskað er eftir upplýsingum úr tölvu notandans, oftar en ekki til þess að senda fleirum óværuna. „Og stundum kemur fyrir að notandinn samþykkir notkunina, jafnvel án þess að kynna sér skilmála sem upp koma. Þar gæti eins staðið að forritið ætli að nýta sér upplýsingar úr tölvu notandans,“ segir Björn, þessi leikur hefur verið leikinn á Facebook, þar sem fólk lætur plata sig gegn loforðinu um að fá að sjá myndir, myndskeið eða brandara. 

Frá þessu var greint á Vísir.is


Avatar Sturla Stígsson

Upp