Aukin afköst á örbylgjuneti Snerpu
Ákveðið hefur verið að auka afköst á örbylgjuneti Snerpu. Í boði hafa verið tveir hraðar, 256 kbps og 512 kbps. 256 kbps hraðinn verður áfram í boði en 512 kbps hraðinn verður aukinn í 768 kbps. Þessar breytingar eru gerðar án þess að það hafi í för með sér hækkun gjalds fyrir þjónustuna. Lokið er við að framkvæma breytingarnar á öllum stöðum þar sem örbylgjunet Snerpu er í boði.
Ástæða er til að taka fram að þar til nýlega voru afköst á örbylgjuneti Snerpu sambærileg við ADSL. Þetta hefur breyst þar sem Síminn jók afköst í ADSL-kerfinu án kostnaðaraukningar fyrir notendur og hafa því jafnframt allir ADSL-notendur Snerpu nú fengið aukinn hraða í ýmist 1, 2 eða 3 Mbps. Því miður hefur ekki verið hægt að fylgja þessu eftir í örbylgjusamböndum, þar sem Síminn er ekki tilbúinn að auka afköst í samböndum sem Snerpa notar á milli staða án kostnaðaraukningar fyrir notendur.
Þrátt fyrir þetta var ákveðið að gera þessar breytingar eftir prófanir á því hvort hægt er að bjóða aukinn hámarkshraða án þess að það hafi áhrif á gæði sambanda en einnig er verið að fylgja því markmiði Snerpu að bjóða ávallt bestu þjónustu sem möguleg er fyrir það gjald sem greitt er.
Örbylgjunet Snerpu er fáanlegt á Hólmavík, Drangsnesi, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafirði, Hnífsdal, Bolungarvík, Súðavík, Reykhólum, í Gilsfirði og á Þórshöfn.