
Dreifbýlið í Tálknafirði komið á ljósleiðara
Snerpa lagði ljósleiðara í sumar frá þéttbýlinu í Tálknafirði inn í fjarðarbotn í samstarfi við Tálknafjarðarhrepp og undanfarnar vikur hefur verið unnið að tengingum og frágangi á virku kerfi sem notendur geta nú tengst. Alls voru 11 notendur tengdir, þar af báðar seiðaeldisstöðvarnar í firðinum sem áður urðu að notast við þráðlausa senda frá hafnarsvæðinu. Þá voru jafnframt tengd tvö hús innst í kauptúninu þar sem þau voru í lagnaleiðinni. Alls var plægð 5.157 metra leið auk 462 metra af rörum. Þá var settur upp nýr búnaður til að sinna þjónustu um ljósleiðarann og er hann staðsettur á skrifstofu Tálknafjarðarhrepps.
Árið 2016 lagði Snerpa einnig ljósleiðara að grunnskólanum og sundlauginni sem standa utar í firðinum og eiga því nú 17 notendur í dreifbýlinu þess kost að tengjast. Flestar tengingarnar eru komnar í notkun nú þegar.
