Endurnýjun í vélasal langt komin
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurnýjun búnaðar og aðstöðu í vélasal Snerpu en eldri aðstaða var búin að sprengja utan af sér og orðið vandamál að koma fyrir nýjum búnaði. Áhersla var lögð á að skipuleggja frá grunni aðstöðu undir annarsvegar netbúnað og hinsvegar netþjóna sem eru bæði stakir og eins með sk. blade-fyrirkomulagi. Með þessu batnar nýting rýmisins en settur hefur verið upp nýr kælibúnaður til viðbótar þeim sem fyrir var en nú er notast við vatnskælingu í stað loftkælingar að utan og kælipressu. Þetta minnkar hávaða og lækkar orkunotkun en einnig gefur nýja kælingin kost á mun meiri varmaupptöku en sú eldri, eða allt að 17 kW sem er rúmlega tvöföldun.
Einnig er komin séraðstaða til að hýsa t.d. bókhaldsþjóna fyrir minni og meðalstór fyrirtæki og einnig er á döfinni að stækka verulega diskaþjóna frá því sem nú er, í takti við auknar þarfir.
Jafnframt þessu hafa verið settir upp nýir varaaflgjafar en auk þeirra er Snerpa með 30 kW dísilrafstöð sem fer sjálfkrafa í gang við straumleysi. Við slæm vetrarveður undanfarið hefur komið upp straumleysi í allt að á aðra klukkustund en slíkt hefur þó engin áhrif þegar við getum framleitt eigið rafmagn í straumleysi.
Enn á eftir að flytja á nýjan búnað nokkrar þjónustur af eldri netþjónum sem verða teknir úr rekstri en sú breyting ætti ekki að hafa áhrif á viðstöðulausa þjónustu við viðskiptavini.