INform - íslensk hugbúnaðarlausn
Tölvufyrirtækið Snerpa ehf, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Iðntæknistofnun kynna fjölmiðlum og fyrirtækjum samstarfsverkefni í vöruþróun sem ber heitið INform upplýsingakerfið. Kynningin fer fram miðvikudaginn 14.mars kl. 16:00 - 17:30 á efstu hæð í Húsi Verslunarinnar í Reykjavík.
Hugmyndin í upphafi var að hanna heildstætt upplýsinga- og fjarvinnslukerfi til nota innanhúss í Snerpu en eftir að farið var að vinna að hugmyndinni og kynna hana var ákveðið að láta reyna á hvort að hún hlyti náð fyrir augum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA). Þar var henni tekið afar vel, þar sem markaðskönnun leiddi í ljós að ekkert kerfi væri fyrir á markaðnum sem byði upp á sömu möguleika og INform, enda eru hin ýmsu upplýsingakerfi sem notast er við hér á landi öll fengin erlendis frá.
INform upplýsingakerfið byggir á Linux netþjóni og notast við Internet staðla til samskipta. Kerfið er nú þegar komið í notkun á nokkrum stöðum, bæði í heild og að hluta til. Með INform næst fram verulegt hagræði fyrir fyrirtæki sem eru með dreifða starfsemi og vilja tengjast inn á upplýsingakerfið í fyrirtækinu hvaðan sem er.
Hugbúnaðurinn sem notandinn vinnur með er venjulegur netvafri, Internet Explorer eða Netscape, og það póstforrit sem honum hentar. Í kerfinu er skjalavistunarkerfi, dagbók, notendakerfi, fyrirtækjagrunnur, verkbókhald o.fl. Ekki þarf að notast við sérstök forrit á vinnustöðvum notenda til að setja inn efni.
Innri og ytri vefur fyrirtækja eru samþættir á ýmsan veg þannig að notandi getur t.a.m. haft aðgang að eigin upplýsingum úr verkbókhaldi, stofnað verk og fylgst með gangi mála. INform er skrifað með þetta í huga þannig að viðskiptavinurinn/notandinn hafi sem greiðastan aðgang að sínum upplýsingum hvaðan sem er.
Einnig er komið á markaðinn INform LE þar sem faxkerfi, viðskiptamannaskrá og fréttakerfi eru tekin út úr INform upplýsingakerfinu, þannig að það nýtist sem faxþjónn fyrir fyrirtækið, og sendir símbréf beint úr tölvu notandans.
Snerpa ehf er fimm ára gamalt fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í því að skrifa lausnir í Linux umhverfi, hvort heldur er fyrir Internetið eða staðarnet fyrirtækja. Einnig rekur Snerpa Internetþjónustu, tölvuskóla, verkstæði og verslun.
Allar nánari upplýsingar:
Jón Arnar Gestsson
markaðsstjóri Snerpu ehf.,
s. 456 5470, gsm. 895 1241
http://www.it.is