ISDN+
Snerpa býður nú upp á nýja þjónustu sem kallast ISDN+. Þessi þjónusta er lághraða sítenging sem er fáanleg um allt land, og er álitlegur valkostur fyrir þá sem ekki eiga kost á ADSL tengingu eða þar sem notkun er stöðug og símakostnaður þ.a.l. hár.
ISDN+ tengingin notar sérstaka ISDN+ línu sem er fáanleg hjá Landssímanum og kostar línutengingin kr. 590,- á mánuði óháð því hver notkun á línunni er. Fyrir ISDN+ línuna er því greitt einungis þetta gjald og fæst þá 9,6 KB/s samband án mínútugjalds á svokallaðri D-rás sem er þriðja rásin á ISDN-línu. Hjá Símanum fæst síðan sérstakur ,,Dialer" (hringi) hugbúnaður fyrir ISDN+ en í honum er hægt að stilla hvenær B-rásirnar tvær (64 KB/s) eru nýttar, hvort þær opnast sjálfkrafa þegar þörf er á eða hvort spurningargluggi kemur upp ef umferð gefur tilefni til.
Kaupa þarf sérstaka ISDN+ áskrift til að nota með ISDN+ línunni. Þar sem um sítengingu er að ræða, þarf sérstakan búnað sem ákrifandinn tekur upp allann þann tíma sem hann er tengdur og því er slík áskrift dýrari en venjuleg ISDN áskrift. Snerpa býður til að byrja með einn ISDN+ áskriftarpakka en búast má við að fjölbreytni í t.d. inniföldu gagnamagni aukist fljótlega. ISDN+ áskrift hjá Snerpu kostar það sama og ADSL-tenging, þ.e. kr. 2.900,- Innifalin er sama þjónusta og í ADSL, 1GB niðurhal, föst IP-töla, veiruhreinsun og ruslpóstsíur auk aðgangs að vefgæslu Snerpu (INfilter) sem er sú fullkomnasta sinnar tegundar á landinu og þó víðar væri leitað (Sjá nánar á http://val.snerpa.is/ )
Hægt er að nota ISDN+ tenginguna með öllum ISDN-spjöldum sem eru með sk. CAPI 2.0 samhæfingu (t.d. AVM Fritz og Columbus kort). Nokkur af ódýrari spjöldunum sem hafa verið á markaði hafa ekki haft þennan möguleika og er rétt að athuga handbækur og/eða hvort hægt er að uppfæra rekla (drivers), t.d. á Netinu áður en farið er af stað. Einnig er á vef símans upplýsingasíða yfir prófuð ISDN-kort ( http://siminn.is/control/index?pid=16844 )