Cover
miðvikudagurinn 25. nóvember 2015

Ljósleiðaratengingar komnar í sölu

Í dag, 25. nóvember, þegar Snerpa fagnar 21 árs afmæli, hefst formlega sala á ljósleiðaraheimtaugum Snerpu, þ.e. ljósleiðaratengingu sem nær frá netveitu alla leið inn til notanda. Slíkt krefst þess að lagður sé ljósleiðari inn fyrir útvegg og um sameignir fjölbýlishúsa og hefur verið unnið að undirbúningi verkefnisins í allt sumar. Í fyrstu stendur þjónustan til boða í um 100 húseignir á Ísafirði en auk þess hefur verið lagður ljósleiðari í Botnsdal í Súgandafirði í samstarfi við Fjarskiptasjóð og þjónar sú tenging þremur sveitabæjum þar. Þær húseignir sem eiga möguleika á tengingu núna eru aðallega við neðanvert Fjarðarstræti en einnig fjölbýlishúsin við Urðarveg og Múlaland á Ísafirði. Tæmandi lista má sjá hér neðar í fréttinni.

Uppbygging ljósleiðarakerfis Snerpu á sér nokkurn aðdraganda því allt frá árinu 2006 hafa verið lagðir ljósleiðarastrengir þar sem tækifæri hafa opnast, með samnýtingu annarra framkvæmda, en hófst þó ekki af verulegum krafti fyrr en árið 2013, þegar lagður var um 4 km strengur frá Eyrinni og inn í Holtahverfi. Við það má segja að boltinn hafi farið að rúlla og er heildarlengd strengja nú orðin yfir 20 km. Þar af hafa verið lagðir á árinu 2015 um 9,5 km. í 33 strengleggjum.

Þessa dagana og fram eftir vetri verður unnið að tengingum og lagningu innanhússlagna hjá notendum sem þess óska. Nokkrar pantanir hafa nú þegar borist og notendur verða tengdir í þeirri röð sem pantanir berast.

Gjaldi fyrir tengingar verður stillt í hóf og í mörgum tilfellum mun kostnaður notenda lækka, t.d. sé ekki notaður hefðbundinn heimasími (línugjald fellur út). Notendum mun gefast kostur á að tengja fastlínusíma á ljósleiðaranum með þjónustu frá Símafélaginu og Vodafone.

Sem dæmi kostar hefðbundin nettenging með 40 GB erlendu niðurhali nú kr. 6.180.- og er línugjald kr 1.910.- sé símaþjónusta um Snerpu en 2.390 ef símaþjónustan er hjá Símanum. Samtals er því kostnaður nú kr. 8.090 - 8.570.-. vegna nets og símalínu. Samsvarandi kostnaður með ljósleiðaratengingu verður kr. 7.350 - 7.650.-.

Fyrir ljósleiðaratengingu þarf að koma heimtaug inn fyrir vegg, setja upp ljósleiðarainntak og leggja ljósleiðara frá inntakinu að búnaði í íbúð. Í boði verður fast gjald fyrir þá vinnu en Snerpa áskilur sér þó rétt til að innheimta raunkostnað ef lögnin er óvenju löng eða setja þarf upp nýja lagnaleið. Gjald fyrir slíka lögn er eftirfarandi:

  • Íbúð í einbýlishúsi, raðhúsi, parhúsi eða tvíbýlishúsi kr. 75.000.-
  • Íbúð í fjölbýlishúsi kr. 37.500.-
  • Fyrir atvinnuhúsnæði, raunkostnaður við lagninguna.

Pantanir sem eru staðfestar fyrir 31. desember 2015 fá stofngjaldið á sérstöku kynningartilboði eða með 30% afslætti miðað við gjaldskrá. Til að pöntun teljist gild þarf að helmingur stofngjalds að vera greiddur innan 10 daga frá pöntun.

Tengingar verða fyrst um sinn í boði á eftirfarandi stöðum:

  • Fjarðarstræti 2, 4, 6, 7, 9, 11, 13, 14, 16, 32 og 39
  • Mánagötu 5 og 9
  • Hrannargötu 2 og 8
  • Hafnarstræti 1 og 9-13
  • Silfurtorgi 2
  • Urðarvegi 78 og 80
  • Seljalandsvegi 70
  • Múlalandi 12 og 14
  • Brautarholti við Djúpveg og Hafrafelli.

Samtals um 100 heimili eins og áður segir.

Á næstu mánuðum munu bætast svo við fleiri staðir. Á Facebooksíðu Snerpu verða settar inn tilkynningar jafnóðum og bætist við listann, svo fylgist með !


Avatar Sturla Stígsson

Upp