Nýjung í gagnaflutningum yfir Iridium gervihnetti.
Fyrirtækin Radiomiðun og Snerpa, sem í sameiningu reka gagnaflutnings og tölvupóstkerfið INmobil fyrir skip á hafi úti hafa nú tekið í gagnið nýja þjónustu hjá Iridium gervihnattafyrirtækinu. Þjónustunni hefur verið gefið nafnið Iridium Data2 og vísar það til þess að um er að ræða aðra kynslóð í gagnaflutningum yfir Iridium sambönd.Iridium gervihnattasambönd eru undirstaða gagna og póstflutninga til og frá skipum í INmobil gagnaflutningskerfin segir Björn Davíðsson þróunarstjóri hjá Snerpu. Til þessa hafa verið í notkun sk. Iridium-Iridium sambönd, þar sem uppköll eru gerð innan Iridum kerfisins og til þessa hefur þetta hentað vel þar sem slíkt fyrirkomulag gefur hámarks samskiptahraða og lægri kostnað heldur en að tengjast um fastlínusímakerfi.” segir Björn.
Iridium Data2 byggir á beinu sambandi við jarðstöðvar Iridium fyrirtækisins í BNA, þar sem gagnaflutning frá gervihnetti er breytt í IP-straum sem síðan tengist beint inn á miðeiningu INmobil kerfisins sem er staðsett hjá Snerpu. Þetta þýðir m.a. að samband kemst á 15-20 sekúndum fyrr og að hvert símtal sem flytur gögnin styttist um tilsvarandi tíma. Einnig minnkar um helming hætta á því að tenging rofni vegna flutnings (sk. hnatthoppa) á milli gerfihnatta en þegar samskipti taka lengri tíma en fáeinar mínútur, þarf að færa sambandið á milli hnatta þar sem þeir fara afar hratt yfir himinhvolfið. Jafnframt er hægt að auka verulega fjölda samtímasambanda eftir því sem þörf krefur og gefur núverandi fyrirkomulag t.d. kost á yfir 480 samböndum í gangi á sama tíma og hægt er að auka það enn frekar. Þannig er horft til þess að bjóða INmobil þjónustuna víðar um heim á næstu misserum og hefur INmobil þegar verið sett um borð í nokkur erlend skip.
Jóhann Bjarnason framkvæmdastjóri Radiomiðunar segir að um vissa byltingu sé að ræða fyrir sjómenn með tilkomu INmobil kerfisins. ,,Nokkrir tugir skipa í íslenska flotanum, flest þeirra úthafsskip, hafa nú notað INmobil til tölvupóstsamskipta í á þriðja ár. Það hefur sýnt sig að við höfum fengið mjög góðar viðtökur á markaðnum og við erum í stöðugu sambandi við notendur þess þannig að við erum orðið mjög mikið inná því hvað það er sem þessi hópur neytenda kallar eftir. Við stefnum að því að auka þjónustuna enn frekar og munum kynna spennandi nýjungar í næsta mánuði.” segir Jóhann.
INmobil er hugbúnaður sem er alfarið íslenskur, unninn í samstarfi Radiomiðunar sem sér um þjónustu og markaðssetningu, og Snerpu sem sér um rekstur og frekari þróun. Fjöldi þeirra sem nota INmobil reglulega er nú um eitt þúsund og eru nú send tæplega 200.000 skeyti um kerfið árlega.
Radiomiðun hf. sérhæfir sig í sölu og þjónustu á siglinga- og fiskileitartækjum fyrir íslenska skipaflotann, en fyrirtækið hefur sérhæft sig sérstaklega í tölvu- og fjarskiptalausnum.
Snerpa er netþjónustufyrirtæki sem staðið hefur framarlega í þróun nýjunga fyrir netnotendur, sérstaklega hvað varðar tölvupóst, og leggur áherslu á að veita persónulega þjónustu. Snerpa var m.a. fyrsta netþjónustan til að bjóða netnotendum vefpóst, veiruvarnir fyrir tölvupóst og höfnun á tölvuruslpósti.