Cover
miðvikudagurinn 10. júlí 2002

Nýtt kerfi fyrir magnmælingar sítenginga

Snerpa er nú að taka í notkun nýtt hugbúnaðarkerfi fyrir mælingu á sítengisamböndum. Hingað til hafa ADSL-notendur ekki haft aðgang að mælingum á daglegri notkun sinni þar sem eldra kerfið sem við notuðum var mjög óhandhægt og þurfti jafnan að yfirfara mælingar úr því fyrir hver mánaðamót.

Nú höfum við hinsvegar, vegna mikillar aukningar undanfarið, lokið við uppsetningu á nýju og betra magnmælingakerfi sem mun setja fram daglega á vefsíðum, upplýsingar fyrir notendur um hvað þeir sé búnir að nota af úthlutuðu gagnamagni.Einnig býður þetta magnmælingakerfi þann möguleika að notendur geta fengið senda tilkynningu í tölvupósti ef þeir fara yfir mörk sem þeir geta stillt sjálfir.

Við munum innan skamms senda öllum notendum með sítengingu ný aðgangsorð sem notuð skulu ef notandi vill fletta upp notkun sinni. Nýju mælingasíðurnar eru staðsettar á valsíðum Snerpu (hér).

Við höfum jafnframt tekið úr notkun gömlu mælingasíðurnar. Einnig höfum við tekið úr notkun vefsíður þar sem hægt var að sjá tengitíma á upphringitenginum en þær upplýsingar eru nú aðgengilegar hjá Símanum á vefsíðunum ,,Þínar síður" sem allir símnotendur hjá Símanum geta nýtt sér.

Nýja magnmælingakerfið gefur okkur einnig kost á að breyta skilmálum okkar þannig að úthlutað gagnamagn miðast nú einungis við það gagnamagn sem Snerpa kaupir um langlínutengingar sínar. Þ.e. ekki verður mælt það gagnamagn sem notendur Snerpu skiptast á innbyrðis. Því miður getum við ekki boðið ,,ókeypis" innanlandsumferð eins og sumir stærri netþjónustuaðilar gera, og er það vegna þess að heildsalar okkar hafa ekki verið fáanlegir til að taka innanlandsumferð til okkar út úr þeim mælingum sem við greiðum eftir, þ.e. við greiðum fyrir alla aðkomna umferð auk þess sem langlínukostnaður okkar er töluvert stærri hlutdeild kostnaðarliða en hjá keppinautunum. Hinsvegar munum við áfram veita proxy-þjónustu sem aðrir hafa orðið að hætta (og lækkað þar með þjónustustig sitt) og ekki skiptir máli hvar þeir notendur sem senda umferð á milli sín eru staddir, einn gæti þessvegna verið á Hólmavík og annar i Bolungarvík. Þeir sem sækja mikið af efni á Netið, t.d. tónlist ættu að hafa þetta í huga og geta þá skipst á efni sín á milli án þess að það hafi áhrif á mælt gagnamagn.


Avatar Snerpa

Upp