Prentþjónusta á vefnum.
Í sl. viku undirrituðu Samskipti í Reykjavík og Snerpa á Ísafirði samning um afnot Samskipta á INform upplýsingakerfi Snerpu ásamt forritun á sérlausnum fyrir Samskipti. Snerpa hannar og skrifar þessar sérlausnir í samráði við Samskipti. Hugbúnaðurinn verður notaður af viðskiptavinum Samskipta á tvennan hátt, annarsvegar til þess að senda stafræn skjöl í prentun og hinsvegar til að panta prentun gagna sem varðveitt eru í gagnabanka Samskipta.
Þannig geta þeir sem senda skjöl til prentunar yfir Netið fylgst betur með ferli verka sinna allt frá því þau eru send þar til þeim er skilað.
Þór Örn Víkingsson, þróunarstjóri Samskipta, upplýsir að um 80% verka sem unnin eru hjá Samskiptum séu send yfir Netið.
Jafnframt geta þeir sem prenta eftir pöntun nálgast prentverkefni sín á Netinu. Þar geta þeir skoðað þau, gert athugasemdir og pantað prentun.
Þetta hentar þeim vel sem prenta reglulega smærri upplög af því sama, hvort sem það eru bæklingar eða bækur, nafnspjöld eða reikningar.
Að sögn Jóns Arnars Gestssonar markaðsstjóra Snerpu er það eina sem viðskiptavinurinn þarf til að nota þessa þjónustu er að vera tengdur Internetinu, hafa venjulegan netvafra og aðgangsorð frá Samskiptum.
Hugbúnaður Snerpu er byggður á IP lausnum og er algjörlega samhæfður stöðluðum vefskoðunarforritum. INform upplýsingakerfið sem hefur verið í þróun undanfarin tvö ár er mjög hentugt í þetta verkefni þar sem allar helstu upplýsingar varðandi fyrirtæki og samskipti innan fyrirtækis eru á einum stað. Þær sérlausnir sem gerðar eru í INform kerfinu snúa m.a. að meðhöndlun verka og er kerfið þannig einnig fullkomið verkbókhald.
,,Samskipti binda miklar vonir við þetta kerfi sem Snerpa er að hanna fyrir okkur. Við sjáum fyrir okkur gríðarlega möguleika í þessarri þjónustu og ekki síst í þeim útvíkkunarmöguleikum sem eru fyrir hendi, einmitt vegna
prentvefsins", segir Þór Örn.
Reikna má með að fyrsta útgáfa Prentvefsins birtist á vefnum í febrúar.
Samskipti er alhliða prentfyrirtæki sem auk þess að annast almenna prentun, sérhæfir sig í vinnslu sérprentana og útprentana á stórum verkum s.s. auglýsingaborðum og uppsetningu sýningarbása. Hjá Samskiptum starfa um 30 manns.
Snerpa ehf. rekur alhliða tölvu- og netþjónustu auk þess að reka tölvuskóla og verslun með tölvur og skyld tæki. Starfsmenn Snerpu hafa m.a. sérhæft sig í vefforritun og hugbúnaðargerð sem byggir á fjarvinnslu og Internetstöðlum.
Hjá Snerpu starfa 12-15 manns.