Reglur um meðferð annála yfir netnotkun birtar
Undanfarin ár hafa komið upp tilvik hjá Internetþjónustum hérlendis, þar sem þurft hefur að rekja misnotkun og hafa þá jafnan komið upp vafatilfelli um hvort afhenda megi upplýsingar sem skráðar eru í annála til þriðja aðila, t.d. lögreglu. Þar sem ekki er nánar kveðið á um meðferð upplýsinga í lögum, t.d. hversu lengu þær skuli geymdar hefur oft skapast vandi vegna þessa. Netþjónustur hafa jafnan túlkað ákvæði um afhendingu upplýsinga þröngt þar sem umbeðnar upplýsingar eru persónugreinanlegar og hefur þá þurft dómsúrskurð í þeim tilfellum.Einnig hefur komið fram að notendur hafa ekki allir gert sér grein fyrir því að mjög mikið magn upplýsinga verður til hjá netþjónustunum og að verulegu máli skiptir að rétt sé með farið. Komið hefur í ljós að notendur hafa lýst áhyggjum af því að hugsanlega séu upplýsingar um ,,netferðir" þeirra skráðar og greindar og jafnvel að slíkt sé haft í flimtingum sem er að sjálfsögðu rangt. Hinsvegar hefur þótt rétt að notendur eigi rétt á því að vita hvað er skráð og hvernig er með það farið. Þar sem málið er vandmeðfarið sendi Snerpa á síðasta ári drög að reglum um þetta til Persónuverndar til umsagnar. Drögin fylgja að mestu þeim starfsreglum sem hingað til hefur verið fylgt.
Persónuvernd skilaði síðan fyrir stuttu umsögn um drögin í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun og að fengnu áliti beggja þessara stofnana hefur verið ákveðið að taka upp ákveðnar vinnureglur um meðferð upplýsinga úr annálum og birta þær á vefnum til upplýsinga fyrir notendur. Lítilsháttar breytingar hafa verið gerðar frá frumdrögum í ljósi umsagna og aukið við skýringar til að forðast misskilning enda um viðkvæmt málefni að ræða.
Snerpa vill taka fram að þær skráningar sem um er fjallað eiga sér stað hjá öllum netþjónustum og eru nauðsynlegar eins og fram kemur bæði í reglunum og er viðurkennt af bæði Persónuvernd og Póst- og fjarskiptastofnun í áliti þeirra. Hinsvegar hefur á vantað að notendum sé gerð grein fyrir þessum skráningum, hverjar þær eru og hvernig aðgengi að þeim sé háttað o.s.frv. og er með þessu verið að bæta þar úr. Engin önnur netþjónusta á Íslandi hefur birt slíkar reglur en búast má við að aðrar netþjónustur á landinu fylgi frumkvæði Snerpu.
Hægt er að skoða reglurnar á vefslóðinni http://snerpa.is/thjonusta/reglur/ og eru þar einnig vísanir í umsagnir Persónuverndar og Póst- og fjarskiptastofnunar.