Cover
föstudagurinn 22. desember 2000

Skjár Einn á næsta leiti

Nýtt 22.des: MPEG breytasettið er nú uppsett hjá tæknimönnum í Reykjavík og verið er að prófa og stilla sendiaðferðir til að tryggja sem mest gæði í útsendingu. Þar sem þetta er fyrsta eintakið á landinu eins og áður hefur komið fram, munu þessar prófanir því miður taka fáeina daga þannig að útséð virðist um að takist að hefja sendingar fyrir jól, þó að allt annað sé nú tilbúið. Allt kapp er hinsvegar lagt á að geta náð að hefja útsendingar áður en 21. öldin gengur í garð.

Nýtt 20. des: Landssíminn hefur nú lokið við þær breytingar á ATM-netinu sem þarf til að hægt sé að flytja dagskrárrás Skjás Eins hingað vestur. Von er á síðasta hluta búnaðar SkjáVarpsins í dag en það er sk. MPEG breytasett. Þegar það birtist er hægt að fara að byrja prófanir.

15. des: Þá er loks farið að sjá í að útsendingar hefjist á sjónvarpsstöðinni Skjár Einn á Ísafirði. Við höfum nú fengið upplýsingar frá Landssímanum um að búnaður sem notaður er til stækkunar á ATM-sambandinu suður sé allur kominn á sinn stað. Starfsmenn Gagnalausna hjá Landssímanum eiga hinsvegar eftir að ljúka við ýmsar breytingar á hugbúnaði til þess að koma þessarri stækkun í gagnið en reiknað er með því að þeirri vinnu geti verið lokið á þriðjudag í næstu viku. Á þriðjudag má reikna með truflunum á Internetsambandi Snerpu í stutta stund vegna þessa, þar sem Internetumferðin er flutt um sama búnað.Þá tekur við lokaáfangi verksins sem er uppsetning á ATM-rás sem ber dagskrána og sú uppsetningarvinna og prófanir sem þarf að gera í tengslum við það. Þar sem Ísafjörður er fremst í röðinni við uppsetningu á þeirri tækni sem er beitt, er ekki hægt að segja fyrirfram nákvæmlega hversu langan tíma tilraunasendingar verða í gangi, en útsending á sendi SkjáVarps mun ekki hefjast fyrr en allt er klappað og klárt. Búið er að setja upp sjónvarpsrás frá Snerpu og út á Arnarnes og einnig er búið að flytja allan búnað SkjáVarps annan en sjálfan sendinn yfir í húsnæði Snerpu, en honum er að mestu stjórnað með fjarvinnslusambandi yfir Netið frá aðalstöðvum SkjáVarps á Hornafirði. Við munum gefa frekari upplýsingar eftir því sem hægt er en skv. þessu ætti Skjár Einn að fara í loftið á Ísafirði fyrir jól.


Avatar Snerpa

Upp