
Smartnet í Mjólká
Snerpa hefur nú tekið í notkun nýtt fjarskiptasamband á ljósleiðara Orkufjarskipta í Arnarfirði. Með uppsetningu á þessu sambandi er Snerpu nú kleift að bjóða sömu þjónustu í Mjólká og boðin er á Smartnetinu á Ísafirði og hafa starfsmenn Orkubúsins í Mjólká nú sömu möguleika á að nýta sér bæði net- og sjónvarpstengingar og eru í boði í þéttbýlinu. Steinar Jónasson stöðvarstjóri líkir breytingunni við að sett hafi verið bundið slitlag á veginn vestur. Afköst hafa um tífaldast auk þess sem nú er hægt að nota IP-sjónvarp Vodafone bæði í virkjuninni og í starfsmannaíbúðum.
Undanfarið hafa verið í skoðun möguleikar á því að nýta nýtilkomið ljósleiðarasamband í Mjólká og varð niðurstaðan sú að byggja ofan á samstarf Snerpu og Vodafone sem felur í sér að þessir aðilar samnýta búnað og fjarskiptaleiðir auk þess sem Vodafone veitir aðgang að sjónvarpskerfi sínu á sama hátt og með sama úrvali sjónvarpsstöðva og í þéttbýli. Snerpa og Orkubú Vestfjarða gerðu síðan 13. desember sl. með sér samning til 5 ára um þá útfærslu sem valin var og viku síðar var búið að koma fyrir nauðsynlegum búnaði og í dag var síðan lokið við stillingar á sambandinu.
