Cover
miðvikudagurinn 8. mars 2017

Smartnet opnar í Bolungarvík

Snerpa er í vetur búin að vera að undirbúa að veita þjónustu um eigið kerfi í Bolungarvík. Slíkt tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma en undirbúningur hófst í ágúst 2016. Lagður var nýr ljósleiðari frá Syðridal, þar sem ljósleiðari Snerpu tengist streng Orkufjarskipta inn í Hnífsdal og þaðan inn á Ísafjörð. Einnig var samið við Löggilta endurskoðendur á Vestfjörðum um leigu á húsnæði undir búnað sem gerir ráð fyrir frekari stækkun ljósleiðarakerfis Snerpu í Bolungarvík í næstu framtíð.

Til að byrja með verður þjónustan boðin yfir núverandi koparheimtaugar. Munurinn á að reka eigið kerfi eða annarra við heimtaugar, er helst sá að á eigin kerfi hefur verið betra að aðlaga þjónustuna að aðstæðum sem eru fyrir hendi á hverjum stað þar sem heimtaugar eru mjög mismunandi, sumar góðar en flestar mjög misjafnar. Þannig hafa aðrir þjónustuveitendur t.d. einungis boðið tiltekna vegalengd frá hverri símstöð, yfirleitt 1 km línulengd fyrir VDSL-þjónustu og hámarkshraðann 12 Mbps fyrir ADSL þegar er hægt að bjóða að 24 Mbps með ADSL2+ ef heimtaug er nægilega góð.

Í næstu framtíð má síðan búast við því að í boði verði ljósleiðaraþjónusta til heimila í Bolungarvík sem verði komið á í skrefum, en framkvæmdaröð ræðst fyrst og fremst af áhuga heimamanna. Snerpa hefur nú þegar lagt ljósleiðara í yfir 100 heimili á Ísafirði og víðar en framkvæmdaröðin ræðst aðallega af áhuga notenda og sem dæmi hafa íbúar í tilteknum götum tekið sig saman um að panta tengingu og hafa þá bæði notið forgangs og afsláttar af stofnkostnaði. Við hvetjum þá Bolvíkinga sem hafa áhuga á ljósleiðaratengingu til að láta vita af þeim áhuga og einnig til að ræða við nágrannana um hvort þeir hafi einnig áhuga, til að auka líkur á að fyrr verði af ljósleiðaravæðingu.

Að sjálfsögðu minnum við á þá gullnu staðreynd að hollur er heimafenginn baggi ef við getum verið sjálfum okkur nóg um þjónustu í heimabyggð og að ef eitthvað bjátar á í þjónustunni þá er mun auðveldara að fá úr bætt með því að fá beint samband við sinn þjónustuaðila.

Smartnet er samheiti yfir þá þjónustu Snerpu þar sem Snerpa rekur eigin búnað, hvort sem er yfir koparheimtaugar eða ljósleiðaraheimtaugar. Við sjáum fyrir okkur að framtíðin sé ljós, þ.e. ljósleiðari en þar til hann verður tiltækur notum við það sem hendi er næst, það er að segja koparinn á þann hátt sem veitir sem besta þjónustu til notenda.

Hér eru nánari upplýsingar um Smartnetið: https://www.snerpa.is/smartnet/

Hér eru nánari upplýsingar um ljósleiðara Snerpu: https://www.snerpa.is/ljosleidari/

Hér er svo form þar sem hægt er að skrá áhuga á tengingu hjá Snerpu: https://www.snerpa.is/heimilispakkinn/

Ef þú ert á fésbók, mundi þá að líka við síðuna okkar þar - https://www.facebook.com/snerpa


Avatar Björn Davíðsson

Upp