Snerpa býður frítt niðurhal á ADSL
Snerpa hefur ákveðið að bjóða notendum í ADSL-þjónustu upp nýja netþjónustu sem ber nafnið Frítt niðurhal
Grunnþjónustan kostar einungis 4.000 kr. á mánuði og í henni verður innifalin sama þjónusta og annarri ADSL-þjónustu auk þess sem notendur fá fría útlandaumferð. Að auki eru gerðar breytingar á þeiri þjónustu sem í boði var fyrir þannig að þeir sem hafa keypt 1 GB gagnamagn á ADSL fá nú fyrir sama verð 1,25 GB og verð á umframgagnamagni lækkar í kr. 2,20 pr. MB. Verð á umframgagnamagni í minnsta flokknum sem er 250 MB lækkar einnig úr 4 kr. pr. MB í 3,20.
Að auki er nú sett á verðþak í ADSL þannig að ADSL-notendur greiða aldrei fyrir meira en sem svarar um 2 GB af útlandaumferð. Þessar breytingar eru boðaðar nú þar sem Snerpa telur sig geta fylgt á eftir stærri netþjónustum landsins með jafngóða eða betri þjónustu. Einnig er innifalin föst IP-tala og allt að fimm pósthólf.
Jafnframt breytingunum í ADSL-þjónustunni verða einnig samsvarandi lækkanir á umframgjöldum í örbylgjuþjónustu Snerpu og einnig stækkar 1 GB verðflokkurinn þar í 1,25 GB fyrir sama gjald. Enn sem komið er verður þó ekki í boði frítt niðurhal eða verðþak á þeim tengingum þar sem ekki hefur orðið nein lækkun á samböndum hjá Landssíma Íslands hf. á þá staði þar sem boðið er örbylgjusamband.
Nánari upplýsingar er að finna í verðskrá Snerpu hér.