Cover
sunnudagurinn 4. apríl 2004

Snerpa lækkar verð í örbylgjunetinu og stækkar sambönd

Snerpa hefur nú lækkað verð á sítengingum um örbylgju, þannig að algengustu tengingarnar eru nú boðnar á hliðstæðu verði og ADSL-sítengingar. Þannig lækkar tenging sem er allt að 256 kbps hraði með 500 MB niðurhali frá útlöndum um 7,1% úr 4.900 krónum í 4.550. Algeng tenging með 1000 MB niðurhal á allt að 256 kbps hraða lækkar um 13,4% úr 6.700 kr. í 5.800 - Einnig hefur verið opnað fyrir örbylgjunetið á Ísafirði.

Hægt er að fá meiri hraða á Flateyri, Suðureyri, Ísafirði, Hnífsdal, Hólmavík og Drangsnesi. Þannig mun tenging á allt að 512 kbps hraða með 500 MB niðurhali frá útlöndum framvegis kosta 5.650 og tenging með allt að 1 Mbps hraða og 1000 MB niðurhali frá útlöndum mun framvegis kosta 8.300 á mánuði.

Með þessum breytingum er verið að einfalda gjaldskrá og örbylgjutengingar taka nú meira mið af verðskrá fyrir ADSL-sítenginar en áður. Nýlegar breytingar Símans á verðskrá sinni hafa ekki áhrif á þjónustuna, enda koma þær ekki til lækkunar á kostnaðarliðum nema að mjög litlu leyti. Vinsældir á örbylgjutengingum hafa verið nokkuð meiri en ráð var fyrir gert og m.a. vegna þess hefur þurft að fara örar í fjárfestingu vegna þeirra en áætlanir gerðu ráð fyrir, t.d. hvað varðar stækkanir á samböndum. Örbylgjutengingar Snerpu hafa einnig þann kost að víða í dreifbýli hafa opnast möguleikar, sem ekki bjóðast í ADSL-samböndum, t.d. er nú fjöldi sveitabæja tengdur inn á kerfið, en þeir hafa ekki átt möguleika á að nýta sér ADSL þar sem það hefur verið tengt, því að ADSL getur ekki borið sambandið jafn langar vegalengdir og örbylgjusambönd gera. Til dæmis er nú fjöldi sveitabæja í Dýrafirði, Önundarfirði og Steingrímsfirði tengdur inn á örbylgjunet Snerpu.

Hafin verður örbylgjuþjónusta á Þórshöfn og Bíldudal innan skamms og er einnig í undirbúningi stækkun á samböndum til Flateyrar og Þingeyrar.


Avatar Snerpa

Upp