Snerpa og Hringdu í samstarf um farsímaþjónustu
Snerpa og Hringdu hafa gert með sér samstarfssamning um sölu og þjónustu á farsímaþjónustu frá Hringdu. Snerpa getur nú boðið viðskiptavinum sínum að færa farsímaviðskipti sín til Snerpu og lækka í mörgum tilfellum fjarskiptakostnað sinn umtalsvert og um leið stunda enn meiri viðskipti í heimabyggð.
Til að byrja með verða tvær gerðir áskrifta í boði, farsímaáskrift með ótakmörkuðu tali, SMS og gagnamagni en einnig verður í boði 5G netáskrift fyrir þá sem ekki eiga kost á ljósleiðara Snerpu.
Þeir sem eru með nettengingu hjá Snerpu og kaupa jafnframt farsímaáskriftina hjá Snerpu býðst hún á 2.990 kr. Þá verða símtöl til 40 landa innifalin og jafnframt möguleiki á ferðapökkum til valinna landa utan EES-svæðisins. Reikikjör innan EES-svæðisins verða sambærileg við önnur símafélög. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Snerpu á https://www.snerpa.is/farsimi/
Markmið samningsins er að það sé hagur allra, Hringdu, Snerpu og viðskiptavina Snerpu að nýta sér hann. Hann verður því uppfærður eftir markaðsaðstæðum hverju sinni og þannig hyggjast Hringdu og Snerpa tryggja að notendur njóti ávallt bestu þjónustunnar á bestu kjörum.
„Einfalt og ódýrt er það sem er markmiðið með farsímaþjónustunni og því var ákveðið að bjóða einungis vinsælustu þjónustuleiðirnar, sem er einfaldari sala og auðveldara val fyrir bæði Snerpu og viðskiptavini og þannig hægt að tryggja bestu kjörin. Við höfum mikla trú á að netnotendur Snerpu nýti sér þetta og því var lagt í þennan leiðangur með Hringdu og náðum við vel saman í vinnunni í kring um þetta.“ segir Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Snerpu.
„Við erum mjög spennt að hefja samstarf með Snerpu. Við vonum að farsímaþjónusta frá okkur fullkomni vöruframboð Snerpu sem mun gera þeim kleift að berjast á öllum vígstöðvum fjarskiptamarkaðarins. Við hlökkum til að byggja upp langtíma samstarf sem mun skila ávinningi fyrir bæði fyrirtækin og íbúa á Vestfjörðum og víðar.“ segir Friðrik Karl Karlsson, forstöðumaður heildsölu- og fyrirtækjasviðs Hringdu.
Á myndinni eru f.v.: Jóhann Egilsson og Björn Davíðsson frá Snerpu og Friðrik Karl Karlsson og Egill Moran Friðriksson frá Hringdu.