Snerpa setur upp öflug netsambönd og semur við Ísafjarðarbæ
Nú í byrjun júlí lauk Snerpa uppsetningu á nýjum DSL-búnaði í símstöðvunum á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Með þessu verða í boði á þessum stöðum enn burðarmeiri ADSL og VDSL sambönd en áður hafa verið í boði. Þannig eykst hámarkshraði á ADSL úr 8 Mbit í 16 Mbit og einnig verða í boði VDSL-sambönd sem gefa kost á mun meiri afköstum frá notanda sem hentar sérstaklega fyrirtækjum og stofnunum á þessum stöðum. Einnig býðst nú aðgangur að ódýrari og hraðari ADSL-tengingum en áður hafa verið í boði á þessum stöðum.
Í tengslum við uppsetninguna var endurnýjaður samningur við Ísafjarðarbæ um sambönd bæjarins. Voru sett upp ný VDSL-sambönd í grunn- og leikskóla, hafnarvogir og sundlaugar á þessum stöðum. Þannig allt að fimmfaldast afkastageta og eru t.d. grunnskólar Ísafjarðarbæjar nú með 10 Mbit sambönd bæði að og frá og hægt er að senda myndir í góðri upplausn frá vefmyndavélum sem eru til eftirlits á hafnarsvæðum.
Ragnar þjónustustjóri Snerpu segir nýju netsamböndin vera spennandi tækifæri og virkilega gaman hvað Ísafjarðarbær sé duglegur að nýta sér þjónustu í heimabyggð.
Við sama tækifæri þakkaði Daníel bæjarstjóri starfsmönnum Snerpu fyrir smíði á nýrri vefsíðu Ísafjarðarbæjar sem tekin var í notkun fyrir stuttu. Vefsíðan er byggð á vefumsjónarkerfinu Snerpli sem nær öll sveitarfélög á Vestfjörðum eru að nota í dag.
Meðfylgjandi mynd var tekin þegar samningurinn var handsalaður á svölum Stjórnsýsluhússins í dag, 15. júlí. Frá vinstri: Valtýr Gíslason kerfisstjóri hjá Ísafjarðarbæ, Daníel Jakobsson bæjarstjóri, Ragnar Árnason þjónustustjóri Snerpu og Björn Davíðsson þróunarstjóri Snerpu.