Snerpa tekur að sér starfsemi fyrir Mílu á Ísafirði
Hér eftirfarandi er fréttatilkynning Snerpu ehf og Mílu varðandi samvinnu:
Snerpa ehf. og Míla ehf. skrifuðu í dag undir samstarfssamning þess efnis að Snerpa taki að sér að þjónusta fjarskiptakerfi Mílu á norðanverðum Vestfjörðum. Samningurinn við Mílu leiðir af sér að þrír starfsmenn Mílu flytjast yfir til Snerpu frá og með áramótum. Starfsmenn Snerpu eru átta en verða ellefu við þessa breytingu. Með því að taka að sér starfsemi Mílu á Vestfjörðum fær Snerpa tækifæri á því vaxa og er það í takt við stefnu fyrirtækisins. Um er að ræða töluverð samlegðaráhrif og hagræði fyrir bæði fyrirtækin hvað varðar nýtingu á mannafla og húsnæði.
Einnig mun þetta skila sér í bættri þjónustu enda verða fleiri starfsmenn tiltækir við þjónustu beggja fyrirtækja með tilkomu samningsins. Við upphaf samningsins verður þjónustusvæðið sem Snerpa sinnir það sama og starfsstöð Mílu á Ísafirði hefur sinnt hingað til, eða frá norðanverðum Arnarfirði allt til Steingrímsfjarðarheiðar. Möguleiki er á að svæðið stækki enn frekar síðar með bættum samgöngum á svæðinu.
“Það er mjög ánægjulegt fyrir Snerpu að gera samning um að þjónusta jafn stórt fjarskiptakerfi. Þetta er ein aðferð fyrir Snerpu til þess að vaxa innanfrá og gefur heimamönnum tækifæri á að taka að sér krefjandi verkefni. Einnig metum við mikils það traust sem samningur sem þessi felur í sér.” segir Matthildur Helgadóttir, framkvæmdastjóri Snerpu.
“Ég er sannfærður um að þjónusta við viðskiptavini Mílu á eftir að styrkjast við þessa breytingu. Míla er með starfsemi á 13 stöðum á landinu. Við höfum verið að straumlínulaga starfsemina og höfum farið þá leið að vinna með verktökum í ákveðnum tilvikum í stað þess að vera með starfsemi í hverju bæjarfélagi. Það hefur gengið mjög vel,” segir Páll Á. Jónsson, framkvæmdastjóri Mílu.
Snerpa var stofnuð árið 1994 á Ísafirði og er með elstu fjarskiptafyrirtækjum landsins. Fyrirtækið rekur alhliða tölvu og netþjónustu og hafa starfsmenn fyrirtækisins sérhæft sig í umsjón tölvukerfa fyrir fyrirtæki og stofnanir, vefforritun og hugbúnaðargerð auk almennrar tölvuþjónustu. Snerpa er í samstarfi við ýmis öflug fyrirtæki. Má þar nefna að fyrirtækið á og rekur fjarskiptakerfið INmobil sem er gervihnattaþjónusta til skipa í samstarfi við Símann og sér um alrekstur Opinna kerfa á Vestfjörðum.
Míla ehf. rekur fjarskiptanet um allt land. Fyrirtækið er í eigu Skipta hf. og var nýlega skilið frá Símanum. Kjarnastarfsemi Mílu er að byggja upp og reka traust og öflugt fjarskiptanet á Íslandi. Önnur fjarskiptafyrirtæki tengjast þessu neti í gegnum mismunandi lausnir. Hlutverk Mílu er að selja lausnir sínar til fyrirtækja og stofnana sem stunda fjarskiptastarfsemi. Míla sérhæfir sig m.a. í rekstri og ráðgjöf vegna fjarskiptakerfa, aðstöðuleigu fyrir upplýsingatækni og ýmsa þjónustu við dreifikerfi.
Frekari upplýsingar veita: Páll Á. Jónsson, framkvæmdastjóri Mílu í síma: 858 6101 og Matthildur Helgadóttir, framkvæmdastjóri Snerpu, í síma 840 4001.