Cover
sunnudagurinn 18. febrúar 2001

Snerpa veiruskannar allan tölvupóst

Athugasemd vegna fréttar í hádegisútvarpi RÚV 18. febrúar

,,TÖLVUR: ORMAR OG VEIRUR LIÐIN TÍÐ?
Tölvufyrirtækið Friðrik Skúlason ehf. hyggst koma upp tölvupóstsíu þar sem síaður verður frá allur póstur með tölvuveirum og tölvuormum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að þetta eigi að koma í veg fyrir að tölvunotendur verði fyrir barðinu á veirum eða ormum sem berast með tölvupósti. Kerfið verður þannig byggt upp að internetþjónustufyrirtæki tengist tölvu á vegum Friðriks sem hreinsar allan póst gegn vægu gjaldi."

Tölvuþjónustan Snerpa á Ísafirði hefur allt frá árinu 1997 boðið þeim sem eru í Internettengingu hjá fyrirtækinu upp á veiruskönnun á pósti. Þannig er allur tölvupóstur sem fer í gegn hjá Snerpu skannaður fyrir tölvuveirum og ef veirusýking finnst er bæði sendanda og móttakanda póstsins send aðvörun um smitunina. Þetta er þjónusta sem Snerpa býður notendum sínum án sérstaks aukagjalds og hefur ekki þurft að biðja sérstaklega um. Stefnan hingað til verið sú, þar sem um óumbeðna þjónustu er að ræða, þ.e. notendur hafa ekki getað beðist undan henni, að einungis eru sendar aðvaranir en ekki reynt að eyða tölvuveirum í pósti enda segir einnig í flutningsstöðlum Internetsins að pósti skuli skilað til endanotanda í upphaflegu formi eða móttöku hafnað ella.Í seinni tíð hafa þó verið að koma upp sífellt skæðari afbrigði af bæði veirum og ormum og hefur Snerpa m.a. tekið til bragðs að hafna sendingum þar sem í sendingu er einungis um að ræða tölvuveirur og orma sem ekki ferðast með öðru efni. Sem dæmi má nefna afbrigði af Hybris orminum en sl. 3 vikur verið hafnað móttöku á um 700 eintökum af þessum ormi, en þessi tiltekni fjöldi barst beint frá innhringinotendum annarra netþjónusta á Íslandi, ætlaður ríflega 1200 notendum sem kaupa netþjónustu hjá Snerpu. Það er því ljóst að stórir faraldrar orma eru í gangi hér á landi, faraldrar sem fara framhjá notendum Snerpu vegna þessa.

Snerpa hefur jafnframt sett upp sérstakar vírusvarnir á tölvupóstþjónum fyrirtækja þar sem veirum og ormum er eytt á áfangastað en veiruvörnin AVP sem Snerpa bæði notar og selur var íslenskuð og markaðssett af Snerpu hér á landi fyrir tveimur árum. AVP veiruvörnin hefur þann kost að geta keyrt á nær öllum stýrikerfum sem í notkun eru í dag, þar á meðal Linux sem er mjög vinsæll póstþjónn um þessar mundir og hefur Snerpa sett upp nokkurn fjölda Linux póstþjóna með AVP veiruvörninni en þar er veirum og ormum eytt á sama hátt og Friðrik Skúlason hyggst nú bjóða eins og kom fram í hádegisfréttum útvarps.

Snerpa bendir jafnframt á að eina örugga ráðið til að verjast tölvuveirum og ormum er að hafa uppsett veiruvarnaforrit á tölvu notandans, veiruvarnaforrit sem er fært um að uppfæra sig sjálfkrafa á einfaldan og sjálfvirkan hátt. Tölvuveirur og ormar berast á fleiri vegu em með tölvupósti og það getur skapað falskt öryggi að hreinsa tölvuveirur og orma sem berast með tölvupósti án þess að um heildarvarnir sé að ræða.


Avatar Snerpa

Upp