Spam sífellt stærra vandamál
Netruslpóstur, oft nefndur spam, hefur færst mikið í aukana undanfarið ár en þó aldrei meira en sl. tvo mánuði og er nú meira en helmingur af öllum sendum pósti á Netinu eða rúmlega 62%.
Snerpa hefur um nokkuð skeið haldið saman tölum um hlutfall pósts sem er hafnað vélrænt sem spammi en ýmsar sjálfvirkar aðferðir eru tiltækar í því skyni. Snerpa hefur lagt sérstaka áherslu á að verja notendur sína fyrir spammi og bendir flest til þess að sú stefna hafi gefist vel. Notendur Snerpu fá einungis sárafá spömm en svo sem sjá má á meðfylgjandi mynd hefur spamsendingum fjölgað gríðarlega upp á síðkastið.
Aldrei er þó hægt að koma algerlega í veg fyrir að eitt og eitt spam sleppi í gegn en við álítum betra að það komi fyrir en hitt að hafnað sé pósti sem ekki flokkast sem spam.
Núverandi síunaraðferðir hafa gefist vel og einu tilfellin þar sem pósti hefur verið hafnað án þess að vera ruslpóstur, eru þau þar sem pósthús sendanda hefur verið brotið upp af tölvuþrjótum eða rangt uppsett af netþjónustu sendandans.
Í sumar sendu samtökin Friður 2000 kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þess að Snerpa hafði hindrað tölvuruslpóst frá Friði 2000. Vildu samtökin meina að Snerpu væri óheimilt skv. fjarskiptalögum og öðrum, m.a. hegningarlögum að stöðva póst á þann hátt sem gert hefur verið. Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun frá sér þann úrskurð að eftir að hafa yfirfarið gögn sem fylgdu kvörtuninni og athugasemdir og skýringar Snerpu varðandi málsatvik að ,,þá telur stofnunin að ekki sé um brot á fjarskiptalögum eða öðrum þeim lögum sem heyra undir eftirlit PFS, [og] er því ekki tilefni til frekari aðgerða í þessu máli af hálfu stofnunarinnar".