
Súðavík komin á ljósleiðara
Undanfarinn mánuð hefur vinnuflokkur Snerpu staðið í ströngu við að ljósleiðaravæða Súðavík. Búið er að leggja ljósleiðararör um allt nýja þorpið og blása í strengjum og er tengivinna nú í fullum gangi.
Nokkrir notendur eru nú þegar komnir með tengingu og verið er að koma á sambandi hjá þeim sem þegar hafa pantað tengingu. Allur búnaður er kominn á staðinn og tilbúinn í rekstur og því ekki eftir neinu að bíða fyrir netþyrsta.
Hægt er að skrá sig á vefslóðinni snerpa.is/ljos og gildir það jafnframt um aðra byggðakjarna á Vestfjörðum en á sömu vefslóð má sjá þá áfanga sem farið verður í á næstunni. Við viljum vekja athygli á að möguleiki er að skrá sig og lýsa yfir áhuga jafnvel þótt heimilið sé ekki komið á áætlun og við munum þá hafa samband þegar nær dregur.
