Cover
föstudagurinn 16. september 2016

Svolítið um VULA

Fyrir viku síðan, þann 9. september féll úrskurður hjá Póst- og fjarskiptastofun (PFS) í kærumáli Snerpu á hendur Mílu varðandi veitingu VDSL-þjónustu í Holtahverfi. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að PFS telur að Míla hafi ekki brotið gegn fyrri ákvörðun PFS, þar sem Mílu var bannað að hefja veitingu-VDSL þjónustu á Ísafirði, bæði í Holtahverfi að hluta og eins í efri bænum á Ísafirði.

Snerpa hafði óskað eftir því að PFS athugaði málið en borist höfðu fregnir af því að Míla hefði stækkað þjónustusvæði sitt með þeim afleiðingum að truflanir á línukerfinu jukust. Snerpa hafði óskað eftir því við Mílu þann 10. nóvember 2014 að truflarnirnar yrðu raktar en það er einungis á færi Mílu að gera slíkar mælingar. Mælingarnar voru þó ekki gerðar fyrr en í apríl 2015 og þá kom í ljós að samræma þurfti merki hjá báðum aðilum. Snerpa truflaði upphraða hjá Mílu en Míla truflaði niðurhraða hjá Snerpu. Truflanir á niðurhraða skipta meiri máli fyrir notendur auk þess sem truflun frá Mílu var 50% stærri en frá Snerpu.

Míla bar fyrir sig að truflanir frá Snerpu hefðu orðið til þess að hefði verið farið í breytingar og þjónusta flutt í götuskápana, sem PFS bannaði síðan að yrðu gangsettir fyrr en Míla tryggði að Snerpa ætti kost á svokölluðum VULA-aðgangi í þessa skápa. Þegar Snerpa sýndi fram á að þetta gat ekki staðist, t.d. vegna þess að Míla hafði ekki framkvæmt áðurnefndar mælingar, var nefnt til sögunnar að komið hefði í ljós að strengjakerfið í Holtahverfi hentaði ekki fyrir VDSL en mikið af jarðstrengjum þar er af svokallaðri stjörnustrengsgerð sem hentar illa fyrir VDSL og að þetta hefði ekki verið ljóst í upphafi. Það er rétt hjá Mílu með strenggerðina en Snerpa hafði bent á þetta árið 2013 og óskað eftir tillögum um það frá Mílu þar sem Snerpa hygðist hefja VDSL-þjónustu í hverfinu. Míla mætti hinsvegar ítrekuðum  beiðnum frá Snerpu um samstarf og uppsetningu skápa til að veita þjónustu ávallt með þögninni, eða þeim svörum að Míla væri ekki tilbúin til samstarfs um slíkt.

PFS hafði mælt fyrir um í ágúst 2014 að Míla skyldi eiga samráð um framkvæmdir og breytingar á línukerfinu við hagmunaaðila. Snerpa er dæmi um slíkan hagsmunaaðila.  Skyldi Míla, eftir að ákvörðun hefði verið tekin um að fara í jarðvegsframkvæmdir gefa hagmunaaðilum 6 mánaða fyrirvara um slíkt. Míla braut þau fyrirmæli skv. niðurstöðu PFS í desember 2014. Einnig fyrirskipaði PFS kvöð um að Míla skyldi semja heildsöluskilmála, svokölluð viðmiðunartilboð og leggja fyrir PFS í síðasta lagi 13. febrúar 2015. Sem Míla gerði ekki.

Í báðum þessum kærumálum (ákvörðun PFS nr. 34/2014 og 12/2016) er Míla átalin fyrir að ýmislegt skorti varðandi leiðbeiningar og upplýsingagjöf til Snerpu og að Mílu beri að taka tillit til hagsmuna Snerpu og annarra samkeppnisaðila.Míla er einnig átalin fyrir að hafa ekki enn boðið VULA-aðgang, eins og þeim bar þó að gera í febrúar 2015 eins og áður segir. Enn bólar ekki á VULA-aðganginum annað en Míla sendi nýlega til PFS um það sk. viðauka sem að mati Snerpu er algerlega ófullnægjandi.

Niðurstaða PFS er þó sú að Míla hafi ekki brotið gegn ákvörðun 34/2014. Virðist það stafa af því að hin meintu brot hafi átt sér stað áður en PFS tók ákvörðunina. Þar sem Míla lét hjá líða að tilkynna um breytingar sínar var PFS ekki kunnugt um þær og gat því ekki tekið afstöðu til þeirra í desember 2014.

Svona geta vegir réttlætisins nú verið furðulegir og þarf Snerpa að sætta sig við þessa niðurstöðu. Eftir stendur að Snerpa fékk aðgang að hluta línukerfisins í Holtahverfi og veitir þar fyrsta flokks þjónustu, sem og í efri bænum á Eyrinni þar sem Snerpa getur boðið þjónustu á heimtaugum sem eru um 800 metrum styttri en heimtaugar Mílu.

Ákvarðanir PFS í heild má sjá hér.


Avatar Björn Davíðsson

Upp