Cover
föstudagurinn 2. ágúst 2002

Þráðlaus Internetsítenging á Flateyri

Í gær, 1. ágúst var gengið frá uppsetningu á fastlínusambandi Snerpu til Flateyrar. Flateyri er fimmti staðurinn utan Ísafjarðar þar sem Snerpa setur upp hnútpunkt en fyrir eru tengingar í Bolungarvík, Suðureyri, Súðavík og á Hólmavík. Nú þegar hefur fyrsti viðskiptavinurinn verið tengdur við hnútpunktinn en síðar í mánuðinum verður settur upp örbylgjubúnaður fyrir þráðlaust Internet sem þjóna mun íbúum Flateyrar með sítengt Internet.

Þráðlaust net Snerpu er fyllilega sambærilegur kostur við ADSL. Mánaðargjald er svipað en stofnkostnaður getur orðið hærri þar sem notendur þurfa í sumum tilfellum að koma fyrir loftnetsgreiðu á húsþaki fyrir móttöku.Töluverð fjárfesting fylgir hverjum hnútpunkti og er það orsökin fyrir að uppbygging á þessu sviði hefur ekki verið mjög hröð. Í haust eða vetur er reiknað með að Súðvíkingar fái aðgang að örbylgjusamböndum og sömuleiðis er á döfinni að koma upp hnútpunkt á Þingeyri áður en langt um líður. Við viljum gjarna heyra frá þeim sem hafa áhuga á sítengdu Interneti á þessum stöðum svo við getum betur metið þörfina en ákveðinn lágmarksfjölda notenda þarf til svo að fjárfesting sem þessi standi undir sér.

Þá bendum við einnig þeim, sem hvorki eiga kost á ADSL-tengingu eða þráðlausu Interneti Snerpu á að Snerpa býður lághraða sítengisamband um allt land, sk. ISDNplús tengingu. ISDNplús er sítengt 9,6 kbps samband sem hægt er að stækka með ISDN upphringingu um 64 eða 2x64 kbps. Nánari upplýsingar fást hjá söludeild okkar í síma 520-4000.


Avatar Snerpa

Upp