laugardagurinn 28. október 2000
Tölvunámskeið á Hólmavík
Nú um helgina er Tölvuskóli Snerpu með byrjendanámskeið á Hólmavík. Ákváðu tíu Hólmvíkingar að setjast á skólabekk þessa helgi.Kennt er í grunnskóla Hólmavíkur og eru nýttar tölvur skólans ásamt því að tölvur frá Snerpu voru fluttar á staðinn.
Tölvuskóli Snerpu hefur verið að ferðast um Vestfirði með námskeið, fyrirhugað er að halda fleiri námskeið utan Ísafjarðar. Á þessu ári hafa verið haldin námskeið í Árneshreppi á Ströndum, Drangsnesi, Hólmavík og Vesturbyggð.
Stöðugt eru námskeið í gangi á Ísafirði og hefur fjöldi fólks sótt þau undanfarin ár. Nánari upplýsingar um skólann er að finna á heimasíðu skólans.
