Truflanir í póstsamskiptum
Vegna veirufaraldurs sem braust út í gær og stendur enn yfir, þá standa yfir truflanir á póstsamskiptum hjá mörgum af stærri netþjónustum landsins og líklega erlendis einnig. Þetta er vegna þess gífurlega álags sem veirufaraldurinn veldur.
Notendur hjá Snerpu verða þó ekki fyrir þessum truflunum nema þeir séu að senda eða móttaka póst frá þeim netþjónustum sem ekki ráða við hina auknu umferð. Síminn Internet, Margmiðlun, Hringiðan og fleiri hafa tilkynnt um slíkar truflanir hjá sér og má því búast við truflunum á samskiptum við þá sem skipta við þessar netþjónustur. Sem dæmi um álagið, þá hefur magn pósts í umferð vegna þessa meira en tvöfaldast sl. sólarhring.
Um 70% alls pósts sem tekið er við þegar þetta er skrifað er smitaður af orminum Sobig.F sem m.a. falsar netfang sendanda, þannig að tilkynningar sem berast til notenda um að hann hafi verið hreinsaður inniheldur ekki rétt sendandanetfang.