Varist svikapósta
Mikilvægt er að átta sig á því þegar tölvupóstur sem manni berst er svikapóstur. Flestir slíkir póstar eiga það sammerkt að í þeim eru hlekkir (tenglar) sem hægt er að smella á til að fara á tiltekna vefsíðu.
Í póstinum er svo jafnan áskorun til móttakanda um að bregðast við, t.d. er vinsælt að telja viðtakanda trú um að netfang sé að lokast ef ekki er brugðist við eða að orðið hafi vart við grunsamlega notkun á aðgangi viðkomandi sem þurfi að staðfesta. Yfirleitt nota falsarar fyrirtækjamerki (logo) og vottanamerki án þess að hika og fullyrða að pósturinn sé ósvikinn.
Það sem svikararnir hafa þó yfirleit ekki er fullt nafn viðtakanda. Því hefjast póstar frá þeim yfir leitt á ávarpi eins og ,,dear customer" og sum eru jafvel þýdd á íslensku með Google translate eða álíka og innihalda þá gjarna málfarsvillur. Sé um póst frá raunverulegum þjónustuveitanda að ræða, t.d. Ebay eða Paypal er viðkomandi móttakandi ávallt ávarpaður með nafni. Best er að slá vefslóð inn sjálfur frekar en að smella á hlekk í tölvupósti ef minnsti vafi leikur á.
Þá hefur einnig borið á vandaðra svindli sem gengur út á að senda þeim sem fara með fjármál fyrirtækja fölsuð greiðslufyrirmæli og látið líta út fyrir að þeim þurfi að sinna í flýti (til að minnka líkur á því að beiðnin sé athuguð nánar). Berist slíkur póstur ráðleggjum við eindregið að framsenda hann til lögreglu.
Við birtum með þessum pósti tvo nýlega svona pósta notendum til upplýsingar. Að auki fylgir svikapóstur þar sem reynt er að falsa greiðslufyrirmæli. Sá ber að vísu með sér ýmis aðvörunarmerki sem lesendum er látið eftir að finna.