Á sunnanverðum Breiðafirði er eyja sú er Hrappsey heitir. Þar bjó sá maður lengi er með helztu mönnum var talinn, Þorvaldur umboðsmaður Sívertsen. Hann hafði verið lögsagnari í þremur sýslum vestra. Hann var einn hinn gestrisnasti maður og var það allra kunnugra manna mál að jafnan yndi Þorvaldur bezt hag sínum er gestir voru sem flestir hjá honum.Maður er nefndur Guðmundur; hann var lengi í Flateyjarhreppi og var hann af háði kallaður Guðmundur Pílatus, en hafði þá hér var komið hefðað sér sveit á Skarðsströnd. Hann hafði verið kallaður skyggn.
Skúli hét son Þorvaldar og bjó nú í Hrappsey, en Þorvaldur þó jafnframt, og höfðu þeir feðgar Guðmund um tíma í gustukaskyni um veturinn 1862-63.
Þá var það í janúarmánuði einhvern dag að veður var mjög stirt og þótti ei líkindi til um gestakomu, að Guðmundur kemur upp á loft í baðstofu um háttatíma og segir: "Nú munu hér gestir koma á morgun og á sá maður flekkóttan hund að fylgju er fyrstur mun inn í bæinn ganga."
Var nú hlegið mjög að þessu og í skopi haft hjátrú og hégilja Guðmundar.
Daginn eftir var illt veður mjög og ei gestalegt. Þorvaldur segir þá við Guðmund: "Trautt munu margir gestir í dag."
Guðmundur mælti: "Þá mun ég skammlífur mjög ef enginn kemur hér í dag þó ei þyki líklegt í þessu veðri."
Um kveldið þá rökkva tók lagðist Þorvaldur til svefns sem vani hans var til. Hann svaf einn í herbergi niðri í bæ. Þorvaldur sofnar skjótt og vaknar við að barið er að dyrum. Síðan er lokið upp og gengið til stofu; er þar þá kominn Stefán nokkur Guðmundsson sem þá var orðinn hóndi í Arney, og nokkrir menn með honum.
Fagnar nú Þorvaldur gestum þessum og gekk síðan til baðstofu og bauð að gjöra gestum beina. Hittir hann þá Guðmund og segir: "Satt muntu nú þykjast hafa mælt, Guðmundur, því nú eru hér gestir komnir."
Guðmundur mælti: "Vita vildi ég hver þessara hefði fyrstur gengið inn í bæinn."
Þorvaldur svarar: "Ei gætti ég þess, eður því er þér forvitni á því?"
Guðmundur segir: "Hver þeirra sem fyrstur hefur inn í bæinn komið hann á svartflekkóttan hund að fylgju því þann sá ég í gærkveldi."
Þorvaldur fer nú til stofu aftur og spyr gestina hver þeirra hafi fyrstur gengið í bæ sinn.
Stefán svarar: "Vita má að sá hafi það gjört sem kunnugastur var, og er ég sá er það gjörði."
Stefán hafði áður verið vinnumaður Þorvaldar og hafði þá átt hund eins á lit og þann er Guðmundur lýsti og þóttist séð hafa.
En þau urðu afdrif þess hunds sem nú skal greina: Fyrir því að ei vilja eyjamenn hunda í eyjum að vorinu um varptíma varð Stefán að koma hundi sínum til lands og kom honum að Dagverðarnesi um sumarið til Magnúsar bónda Einarssonar. En sem hundur Stefáns kom á land reyndist hann grimmur og reif til skemmda fé Magnúsar. Tók þá Magnús hundinn og flutti út til Hrappseyjar aftur, en með því hundinum var þar ei heldur vært um þann tíma árs tók Stefán hundinn og drekkti honum þegar.
En síðan er að sjá sem hundur þessi fylgi Stefáni bónda og er það til sanninda haft að Guðmundur sá hund þenna og lýsti honum með lit og auðkenni sem fyr segir. En víst er það að ei vissi hann áður neitt um hunds þessa sögu.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - maí 2001