FEYKISHÓLA  -  DRAUGURINN



Í Feykishólum (upp frá Hvalsá í Hrútafirði) var fyrr meir kirkjustaður. Þegar þessi saga gerðist, bjó þar ríkur bóndi skólagenginn. Hann átti eina dóttur gjafvaxta, góðan kvenkost. Á vist með honum var ungur maður og efnilegur, og lék orð á, að hann legði hug á bóndadóttur, en hún tók því lítt.

Um haust eitt reru menn til fiskjar frá Hvalsá, og var téður ungi maður einn af hásetunum. Skipinu, sem hann var á, barst á í lendingunni, og fórust tveir skipverjar, og var hann annar þeirra. Lík hans rak af sjó og var grafið að kirkju á Feykishólum. Reimt þótti eftir mann þenna í Feykishólum, einkum þótti bóndadóttur hann vitja sín oft um nætur.

Það bar til á næsta vori, að húsbændur í Feykishólum höfðu farið í brúðkaup út í Bitru, og var fátt manna heima, en nýkomin vinnukona vakti yfir túni í góðu veðri. Bóndadóttir vildi vaka með henni, en gat ekki, því á hana sótti svefn, svo hún háttaði í rúmi sínu.

Þegar vinnukona hafði rekið frá túni, fór hún heim og settist upp á kirkjuna, svo af henni mátti sjá yfir allt túnið; hún hélt á prjónum og bandhnykli. Þegar hún kom upp á kirkjuvegginn, sest hún niður, og varð henni þá litið ofan í garðinn, sér hún þá, að gröf ein skammt frá kirkjuveggnum stendur opin; hún hugsar, að þetta muni tíðindum sæta, og með því hún var einbeitt, hugsar hún sér nokkurt ráð, hnýtir bandið fast að hnykli sínum og lætur hann síðan falla ofan í hina opnu gröf, svo hún gat dregið hann upp, þegar hún vildi.

Þegar hún hefur setið þar nokkra stund, kemur maður út úr bænum og gengur að hinni opnu gröf, lítur ekki til stúlkunnar, en ætlar að láta fallast ofan í gröfina. En þá sér hann bandhnykilinn og hikar sér, lítur til stúlkunnar og biður hana kippa upp hnyklinum. Hún kveður nei við og segir, að þau verði eitthvað við að talast meir. Hann biður hana þá með blíðum orðum, en hún hefur sömu svör. Hann mælist undan viðtali við hana. Þá segist hún með öllu banna honum ofan í gröfina aftur, nema hann skýri sér fyrst frá, hver hann sé og hvernig á ferðum hans standi.

Hann kveðst þá neyðast til að láta að orðum hennar og mælti: "Ég er hinn ungi maður, er héðan drukknaði á Hvalsá næstliðið haust. Meðan ég lifði, hafði ég ástarhug á dóttur bóndans hér og vildi eiga lag við hana, en hún synjaði þess jafnan. Síðan ég dó, hef ég oft vitjað hennar, en nú fyrst í nótt komið vilja mínum fram, því hún var ein inni; mun hún þunguð verða af mínum völdum og ala son, og að því búnu mun hún deyja af barnsförum. Sonur hennar mun alast upp hjá afa og ömmu og líkjast mér mjög að útliti. Hann mun verða frábær að næmi; mun afi hans setja hann til mennta; tvítugur mun hann taka prestsvígslu og flytja sína fyrstu messu hér í Feykishólum, og mun honum takast það áheyrilega. En þegar hann eftir prédikun á að blessa yfir söfnuðinn frá altarinu, mun hann snúa blessunarorðunum í römmustu formælingu og það með slíkum krafti, að kirkjan mun sökkva með öllum söfnuðinum."

Þegar stúlkan heyrir þessa spá, spyr hún hann, hvort engin séu ráð til að afstýra svo hryllilegri óhamingju.

"Jú," segir draugurinn, "það er eina ráðið til þess að reka son minn í gegn með helguðu járni í því vetfangi, sem hann snýr sér frá altarinu og ætlar að byrja formælinguna í stað blessunarinnar, því undir eins og hann byrjar að tóna formælinguna, verða allir áheyrendur svo höggdofa og sinnulausir, að enginn fær aðhafst. En verði hann áður þannig í gegnum lagður, mun hann hverfa og ekki verða annað eftir í messuklæðunum en þrír blóðdropar, sem eru eftirleifar skírnarinnar. Nokkrum tíma þar á eftir mun bærinn og kirkjan brenna hér til ösku, án þess neinn viti orsök til. Síðan mun byggð hér eyðast og hér aldrei framar byggð verða nema eitt kot lítið."

Þegar draugurinn hafði þannig lokið spá sinni, dró stúlkan hnykilinn til sín upp úr gröfinni, en draugurinn hvarf, og gröfin byrgðist.

Það kom allt fram, sem draugurinn hafði sagt. Stúlkan lét heimullega skrásetja söguna eða spána, svo hún týndist ekki, þó hún dæi sjálf. En hún lifði það, að sonur bóndadóttur lærði í skóla og vígðist til prests. Hún var líka í kirkjunni í Feykishólum, þegar hann flutti þar sína fyrstu messu. Maður hennar var þar meðhjálpari og sat norðanvert við altarið; hafði hann undir klæðum hvasst lagjárn, hert í vígðu vatni, og lagði hann prestinn í gegn með því í því áður áminnsta vetfangi; hvarf hann þá öldungis, og varð ekkert annað eftir af honum en þrír blóðdropar. Nokkru síðar brann kirkjan og bærinn á Feykishólum, en byggðin eyddist þar í svarta dauða.



Netútgáfan - nóvember 1997