Bræður tveir, lausamenn, vóru suður á Miðnesi er hétu Jón og Sigurður, auðugir að peningum. Voru þeir kaupamenn norður í Húnaþingi, Sigurður á Gunnsteinsstöðum í Langadal, en Jón á Eyvindarstöðum í Blöndudal.Sigurður hét son bónda á Gunnsteinsstöðum er þá var átján vetra og bað faðir hans Sigurð kaupamann að taka son sinn suður með sér um haustið að kenna honum sjó.
Fóru þeir bræður nú suður leiðar sinnar og Gunnsteinsstaða-Sigurður. Tjölduðu þeir þá í efsta áfanga fyrir sunnan Sand.
Um morguninn er þeir ráku að hesta sína og vildu leggja á þá kom maður ríðandi að þeim á brúnum hesti allþreklegur, á skinnfötum, reið við hornkjálkabeisli, í hornístöðum. Varð ei af kveðjum, stökk af baki og brá bandi í silana á tólf fjórðunga smjörböggum og varpaði á hest sinn allléttilega og mælti:
"Ég vona að þið gjörið eigi gangskör ykkar að svo litlu," og vildi þegar á bak hesti sínum.
Þegar þeir bræður sáu ódælsku hans þrifu þeir til hans og vildu eigi rænast láta; var og eigi nema við einn að eiga, en þeir kallaðir gildir fyrir sér. En eigi leið lengi áður hann hafði þá báða undir og allóþyrmilega.
Sá Gunnsteinsstaða-Sigurður er hjá stóð að drepa mundi hann þá og varð það að ráði að hann greip klaufhamar góðan frá klyfberaboga, og fyrir því að húfa var hölluð eða dottin af aðkomumanni þá tvíhenti Sigurður hamarinn í höfuð honum svo á kafi stóð.
Tóku þeir hest hans síðan er þeir höfðu götvað hann þar skammt frá áfanganum. Meiri var hinn brúni hestur hans en allir aðrir hestar er þeir höfðu séð. Tóku þeir hann með sér, fóru síðan leiðar sinnar.
En fyrir því þeir bræður þóttust eiga Sigurði líf að launa, en voru ógiftir og barnlausir þá arfleiddu þeir hann að öllu fé sínu og gjörðist hann auðigur maður.
Ætla menn hann byggi síðan að Gunnsteinsstöðum. Sumir segja Sigurð þennan Þorláksson, föður Árna á Gunnsteinsstöðum, föður Arnljóts hreppstjóra á Gunnsteinsstöðum.
Netútgáfan - ágúst 1998