JÓN  BÓNDASON  OG  SKESSAN  Á  FJÖLLUNUM



Einu sinni var bóndi fyrir norðan, sumir segja í Húnavatnssýslu, aðrir í Þingeyjarsýslu. Hann átti son sem Jón hét, efnilegan pilt. Bóndi réri út í Vestmannaeyjum hvurja vetrarvertíð um mörg ár þangað til honum var farið svo aftur vegna elli að hann þóttist ófær til að róa út lengur, enda var Jón þá kominn svo upp að hann gat farið að fara til sjávar í staðinn hans.

Seinasta vorið sem bóndi fór úr eyjunum réði hann því son sinn í skiprúmið sem hann hafði róið í. Það var eitthvurt besta skiprúmið á eyjunum. Aðrir segja að hann hafi ráðið sig þar sjálfan eins og hann var vanur, en hafi ekki treyst sér að fara þegar þar að kom, vegna heilsubrests.

En hvort sem heldur var þá lét hann Jón son sinn fara suður um veturinn. Hann fylgdi honum sjálfur suður á fjöll og sagði honum greinilega til vegar að skilnaði. Hann sagði að innan skamms mundu götur skiptast og lægi önnur til útsuðurs, en hin til landsuðurs.

"Þú skalt," sagði hann, "fara þá götuna sem til útsuðurs liggur, því á hinni liggja illar vættir."

Og þegar hann hefir sagt honum fyrir sem hann vildi kvaddi hann son sinn og fór heim aftur.

Jón ferðaðist leiðar sinnar þangað til hann kom að gatnamótunum. Þá hugsar hann með sér: "Það er sannarlega beinni vegur sem til landsuðurs liggur, enda er gaman að vita hvurt það er satt að þar búi nokkrir óvættir."

Hann hugsar sig ekki lengi um og leggur á þá götuna sem til landsuðurs liggur, og ferðast síðan lengi, og nú fer veður að þykkna og gjörir fjúk og byl.

Um kvöldið kemur Jón að hellisskúta og þar tekur hann af hestum sínum því hann hafði tvo hesta með áburði og þriðja til reiðar. Hann gefur þeim hey, en fer sjálfur innst í skútann og sest niður að eta úr malpoka sínum.

Þegar honum birtir fyrir augum sér hann að stórt gjögur var inn úr skútanum og þar inn í heyrir hann einhvur læti sem honum þóttu undarleg. Hann gægist þar inn og sér þar tvo krakka, heldur ófríða, sem voru að leika sér hvor við annan, en létu þó sultarlega á milli. Jón tekur þá tvö kjötstykki og kastar til þeirra. Þeir grípa sitt stykkið hvor og fara að éta með mestu ákefð.

Stundarkorni seinna heyrir Jón mikinn undirgang, og síðan kemur skessa fjarska stór inn í hellisskútann til hans og segir: "Kom þú sæll, Jón litli. Vertu velkominn. Ég þakka þér fyri krakkana mína."

Jón segir það sé ekki mikið að þakka. Hún sagðist fara nærri um það, - "en hættu að éta og komdu inn með mér. Þér verður hvurt sem er kalt að liggja þarna í nótt."

Jón sagðist verða að bæta heyi við hestana fyrst. Hún sagðist skyldi sjá um þá. Jón þakkar henni fyrir og fer inn með henni. Hún leggur byrði sína á gólfið; það var laupur fullur af nýjum silungi. Hún vísar Jóni til sætis á fleti sem var í hellinum fyrir utan bælið hennar sem var inn við gaflaðið á hellinum og bælið krakkanna þar á móts við.

Nokkuð utar var dálítill afhellir. Þar fer skessan inn með silunginn, setur upp pott og fer að sjóða silungssúpu, og þegar hún er búin að því skammtar hún sér, krökkunum og Jóni í skálar. Þær voru af steini nema sú sem Jón fékk í; hún var úr tré.

Jón étur nú nægju sína og þegar hann er mettur þakkar hann skessunni fyrir matinn. Hún segir það sé sjálfþakkað. Jón ætlar þá út að gá að hestum sínum, en hún bað hann að vera kyrran, sagði það væri svo mikill bylurinn að honum væri ekki fært að fara út úr dyrunum, - "en ég mun sjá um hestana eins og ég lofaði," sagði hún. "Þér er óhætt að trúa mér fyrir þeim; ég er ekki vön að svíkja það sem ég lofa."

Síðan býr hún upp fletið og biður Jón að hátta þar og gjörir hann það. Hann sofnar vært og vaknar ekki fyrr en um morguninn þegar skessan kom inn og var búin að gá til veðurs og segir: "Góðan dag, Jón. Þú fer ekki héðan í dag; það er grimmdarbylur og batnar ekki á þessum degi. Þér liggur ekki á að klæða þig strax. Þér kann að leiðast hér í dag."

Síðan fer skessan að elda silungssúpu og þegar hún er búin að því er Jón kominn á fætur, og setjast þau nú öll til borðs. Skessan var heima um daginn og var ræðin við Jón. Honum þótti mesta skemmtun að tala við hana og fann ekkert til leiðinda um daginn. Þar er hann um nóttina eftir og sefur vært og vaknar við að skessan kemur inn og segir: "Góðan dag, Jón. Þú verður hér kyrr í dag. Það er sami bylur og batnar ekki í dag."

Jón segir þá: "Hvað ætla verði um hesta mína?"

Hún sagði þeim væri óhætt.

Þar var Jón um daginn og fór allt eins og fyrri daginn; skessan gaf silungssúpu bæði mál. Um kvöldið fer Jón að sofa og vaknar um morguninn snemma við það að skessan kemur inn og segir: "Góðan dag, Jón. Farðu að klæða þig og flýttu þér því nú er komið besta ferðaveður. Þú verður að ferðast svo langt sem þú getur í dag svo þú komist suður í Eyjasand annað kvöld."

Jón klæðir sig nú sem fljótast og gengur út og standa þá hestar hans við dyrnar og eru fullir, en þó er óeytt úr heypokum hans. Hann leggur nú á og lætur upp og fer af stað.

Skessan fylgdi honum á veg og sagði við hann: "Þegar þú kemur suður í Eyjasand mun seinasta milliferðaskip sem fer úr landi vera í tilbúningi að leggja af stað. Þú skalt biðja þar fars og muntu fá það með því móti þú verðir fljótur svo ekki þurfi að bíða eftir þér. Þú skalt taka af hestunum með flýti og láta upp í skipið, en binda hestana á streng á sjávarkampinum og fást ekki um þá framar og biðja ekki heldur nokkurn mann fyrir þá.

Þegar þú kemur út í Eyjar mun verða búið að ráða í farið þitt og allir munu verða búnir að fullráða svo þú munt hvergi fá inni nema hjá einum karli sem enginn maður vill vera hjá sem á annars úrkosti, því karlinn rær aldrei lengra en út undir Heimaklett og fær svo að segja aldrei bein úr sjó. Þú skalt samt ráða þig hjá honum heldur en fara heim aftur.

Hér eru tveir önglar sem þú skalt eiga og kemur mér óvart ef þú verður ekki var á þá þó þú rennir þeim undir Heimakletti. Það er ekki víst að aðrir verði hærri í hlutunum en þú í vor.

Biddu karlinn að ljá þér skipið til lands að flytja það sem þú lætur ekki inn í kaupstaðinn af hlutnum þínum. Þá munu hestar þínir standa þar sem þú skildir við þá og er ekki víst að þeir verði megri en hestar þeirra sem kannske hæða þig fyrir það hvurnig þú skildir við þína hesta.

Og ef þetta fer nú eins og ég hefi sagt þá hugsaðu til mín að koma hér að og hjálpa mér um svo mikið sem ég ét eitt mál af hörðum fiski."

Jón sagði það væri skylt ef hann gæti það.

Síðan segir skessan honum til vegar svo greinilega að hann gat ferðast óhult eftir því og nú kveður hann skessuna með kærleika og snýr hún aftur, en hann ferðast leiðar sinnar þann dag til nætur, og það kvöld gaf hann hestunum allt það hey sem hann hafði meðferðis, og höfðu þeir nóg að eta þangað til hann lagði upp morguninn eftir.

Og segir síðan ekki af ferð hans fyrr en hann kemur að Eyjasandi. Þá sér hann að öll milliferðaskip eru farin úr landi nema eitt og er nærri því búið að ferma það.

Jón hleypur af baki og kallar til skipsmannanna og biður fars.

Þeir segja: "Komdu þá strax með það sem þú hefir meðferðis og láttu okkur ekki þurfa að bíða eftir þér."

Jón tekur farangur sinn og ber á skipið með mesta flýti, en bindur hestana á streng á sjávarkampinum og biður engan fyrir þá og gefur þeim ekkert, fer svo upp í skipið og ýta þeir frá landi og róa út í Vestmannaeyjar.

Á leiðinni töluðu þeir um hesta Jóns og sögðu hann þyrfti ekki að kvíða hestaleysinu þegar hann kæmi í land um lokin því ekki mundu hestarnir hans verða týndir, svo hefði hann gengið frá þeim, og líklega ekki magrir heldur.

"Það verður munur á þeim og hestunum okkar," sögðu þeir, "sem við vórum að flæma út um alla Eyjafjallasveit og Landeyjar."

Jón lét sem hann heyrði þetta ekki hvurnig sem þeir spottuðu hann, og þegar þeir voru komnir út í Eyjar ber Jón föng sín á land og fer síðan að finna formann sinn, en það fór sem skessan hafði sagt að hann var búinn að ráða í farið hans og vildi hvorki heyra hann né sjá.

Jón falar skiprúm hjá ýmsum og hafa allir fullráðið. Vonum bráðar kemur karl til hans og falar hann fyrir háseta handa sér, sagðist vera formaður fyrir fjögra manna fari og vantaði sig einn mann, en sagðist hafa fengið tvo drengi; þeir væri raunar hvurki stórir né miklir menn, en þó efnilegir eftir aldri. Jón sagði að hann mundi þá ekki geta sókt sjó til muna. Karlinn sagðist aldrei vera vanur að róa lengra en út undir Heimaklett.

Þá þóttist Jón vita að þetta muni vera karlinn sem skessan hafði talað um, og réði hann sig hjá honum og flutti föng sín heim til hans.

Nú líður þangað til gott sjóveður kemur og róa öll skip. Karl rær líka út undir Heimaklett og leitar þar og verður ekki fiskvar. Og þegar þeir hafa setið um stund fer Jóni að leiðast og tekur annan öngulinn sem skessan gaf honum og bindur á færi sitt og rennir og dregur strax fisk og svo hvurn eftir annan. Karlinn undrar þetta og bað hann ljá sér öngulinn. Hann gjörir það, en brúkar hinn sjálfur.

Þeir Jón og karlinn draga nú stanslaust, en drengirnir sátu báðir í andófi. Þeir þríhlóðu bátinn um daginn og var karlinn mestur að kvöldi yfir allar Vestmannaeyjar.

Daginn eftir var gott sjóveður og þá þyrptust öll skip undir Heimaklett því þeir heyrðu að karlinn fiskaði þar svo vel daginn áður. Þeir Jón og karlinn drógu á skessuönglana eins og áður, en aðrir leituðu allt í kringum þá og urðu ekki varir og fóru svo í burt.

Mestur var karlinn þetta kvöld, og svo fór hvurn dag sem róið var alla vertíðina, og í lokin hafði karlinn langmestan hlut á öllum eyjunum.

Þegar Jón er tilbúinn fær hann bátinn til að flytja á fisk í land og gengur það vel og sendir hann karli bátinn aftur. Þegar hann kom að landi lentu þeir þar undireins sem fluttu hann út um veturinn. Kölluðu þeir til hans að hann mundi geta lagt á klárana sína, þeir mundu ekki vera í svo slæmu standi.

Jón gekk upp á kampinn og þá stóðu hestarnir þar sem hann skildi við þá, og voru fullir og feitir. Hann teymir þá niður í fjöru og leggur á þá. Þá dofnaði hljóðið í hinum því þeir sáu að öðruvísi hafði farið en þeir ætluðu. Veturinn hafði verið harður og voru hestar alls staðar magrir og sumir dauðir, og hestar þessara manna sem lifðu voru lítt færir til brúkunar og blæddi þeim í augu að sjá hesta Jóns svona feita. Það þótti Jóni gaman.

Hann fer þaðan og segir ekki af ferð hans fyrr en hann kemur til skessunnar og gefur hann henni sex fjórðunga af hörðum fiski. Þar var hann um nóttina. Skessan spurði hvurt hann hefði ráðið sig hjá karli aftur. Hann sagði það vera. Hún lét vel yfir því.

"Þú skalt ekki fást um að róa hjá öðrum en honum," segir hún, "meðan þú rær út."

Hún bað hann koma að hjá sér í hvurt sinn sem hann væri á ferð. Hann lofaði því og kvaddi hana síðan og fór heim til sín. Foreldrar hans tóku vel á móti honum og þótti föður hans mikið í varið þegar hann heyrði ferðasögu Jóns.

Seinna um vorið sótti Jón til Vestmanneyja það sem hann átti eftir af skreið og fór í kaupstað um leið. Þegar hann fór til baka aftur færði hann skessunni bæði fisk og korn; hann hafði fengið leyfi til þess hjá föður sínum áður en hann fór.

Hann réri út í Eyjum veturinn eftir og er hið sama frá því að segja og fyrri veturinn, að því fráteknu að nú spottuðu menn hann ekki þó hann skildi hestana eftir bundna á sjávarkampinum.

Hann réri þar sex vetur hjá sama karli, og er ekki að orðlengja það að allt fór á sömu leið og fyrsta sinnið. Seinasta veturinn sem Jón reri út var hann um nótt hjá skessunni eins og hann var vanur.

Hún fylgdi honum á veg um morguninn og sagði honum að nú skyldi hann ekki ráða sig hjá karlinum aftur, - "því hann deyr í sumar," segir hún, "og þú skalt ekki heldur ráða þig hjá öðrum, því faðir þinn deyr á þessu ári, og muntu þá taka við búinu og jörðunni eftir hann og hætta að róa út."

Hann kveður skessu og fer leiðar sinnar, en kom til hennar aftur um vorið og gaf henni skreið eins og hann var vanur. Þá sagði hún að hann skyldi flýta sér heim því faðir hans ætti skammt eftir ólifað, en margir vildu fá jörðina og myndi Jón tapa henni ef hann yrði ekki kominn heim áður en faðir hans dæi. En hún sagði að honum mundi takast það ef hann flýtti sér. Síðan sagði hún að Jón skyldi biðja dóttur eins besta bóndans þar í sveitinni og hún mundi verða gift honum. Síðan skyldi hann alltaf búa á sömu jörð og mundi honum vegna sæmilega.

"Nú mun strjálast um fundi okkar," segir hún, "því þú munt ekki eiga leið hér um oftar, en mundu mig um það að ef ég gjöri þér vísbendingu að finna mig þá bregðtu fljótt við og kom hingað og muntu ekki hafa verra af því heldur en ef þú fer ekki."

Jón kvaddi nú skessuna og felldi hún tár þegar þau skildu. Síðan fór Jón heim og lá faðir hans þá aðframkominn og deyði næsta dag eftir. Jón tók þá við búinu og jörðinni og bað þeirrar bóndadóttur sem skessan hafði fyrir sagt, og var því játað og giftust þau. Bjó Jón síðan um mörg ár og búnaðist sæmilega.

Eina nótt dreymdi Jón að skessan kom að honum döpur í bragði og bað hann koma sem fljótast á sinn fund. Við það vaknaði Jón og þóttist sjá svip hennar þegar hún fór út.

Jón kallar á smala sinn og bað hann rísa upp sem skjótast og sækja tvo bestu hestana sína því hann ætlaði að ferðast nokkuð. Smalinn gjörði það og fór Jón sem snarast að búa sig til ferðar.

Kona hans spyr hvurt hann ætli. Hann sagðist ætla að finna vinkonu sína. Hún sagðist ekki vilja sjá að hann færi nú á næturtíma í óbyggðir, en hann sagðist mundi ráða og fór hann.

Segir ekki af ferð hans fyrr en hann kom að helli skessunnar. Hann fer inn og gengur að bælinu hennar og liggur hún þar.

Jón heilsar henni og tók hún því vel og sagði síðan: "Nú ætla ég að biðja þig að vera hjá mér um tvo daga, því ég hefi tekið sótt og mun hún leiða mig til bana. Krakkarnir mínir eru báðir dauðir og gróf ég þá hér í dys fyrir utan hellisdyrnar þar sem eg gróf karlinn minn áður og þar ætla ég að biðja þig að grafa mig þegar ég er dauð, en vera mér til skemmtunar hjá mér meðan ég lifi sem varla mun verða lengur en um tvo daga hér frá.

Þarna á gólfinu stendur ketill með silungssúpu og muntu ekki þurfa meiri mat meðan þú ert hér. Tvær kistur standa utarlega í hellinum. Þær skaltu eiga með því sem í þeim er, og þegar þú ert búinn að grafa mig þá skaltu bera þær út og setja sína á hvurn klett fyrir utan dyrnar, en taka lyklana úr. Síðan muntu sjá gráan hest stórvaxinn hér skammt frá. Tak þú hann og legg reiðing á hann og láttu kisturnar á hann. Hann mun bera þær þó þær séu nokkuð þungar."

Jón var hjá skessunni tvo daga, hafði þar nógan mat og leiddist ekkert. Seint á öðrum deginum dó kerlingin og veitti Jón henni nábjargir og bar hana síðan út og dysjaði hana í dysinni, sem hún hafði vísað á. Síðan tekur hann kisturnar og getur valla hnosað þeim út og upp á klettana. Þó tókst honum það um síðir. Og eftir þetta finnur hann gráa hestinn, leggur á hann og teymir milli klettanna og getur loksins komið kistunum upp á hann, leggur síðan upp á hann tauminn, fer á bak og heldur heimleiðis.

Segir ekki af ferð hans fyrr en hann kom heim og varð konan því fegin. Hann lýkur upp kistunum og eru þær fullar af góðum klæðum, gulli og silfri. Síðan bjó Jón til ellidaga með konu sinni og var mesti lukku- og auðmaður alla sína daga, og er sagan svo búin.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - nóvember 1999