Móðólfsfell heitir hnúkur nokkur við Vatnsskarð eða í fjöllunum þar í grennd. Hellir er í fellinu er nú er fallið fyrir dyrnar á.Í helli þessum bjó í fyrndinni tröllkarl einn er Móðólfur hét og dregur fellið nafn af honum. Hann heillaði til sín konu nokkra úr sveitinni. Lögðu þau lag saman og unnust mikið. Varð konan ólétt, en fóstrið var svo mikilúðlegt að hún gat ekki fætt og dó af barnsförum.
Móðólfur flutti lík hennar um nótt að kirkju á Víðimýri - og var líkkistan haglega gjör, stóð hún fyrir kirkjudyrum morgun einn er á fætur var komið og lá þar hjá koparhringur og rúnakefli er sagði hvernig á líkinu stóð - og gaf kirkjunni hringinn að legkaupi.
Líkið var jarðað að Víðimýrarkirkju og er hringurinn þar síðan í kirkjuhurð. En um Móðólf er það sagt að hann hafi haldið aftur til hellis síns og sprungið þar af harmi.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - nóvember 1999