Jón hét maður austur í Múlasýslu. Hann var óþokkamenni og illa liðinn af öllum. Hann þótti og kunna fyrir sér, en aldrei beitti hann kunnáttu sinni til annars en ills. Honum lenti saman við Magnús nokkurn og heitaðist við hann, en Magnús varð berskjaldi fyrir, svo hann fer suður í land og leitar sér ásjár til galdramanns eins, sem þar var.Þegar hann er kominn af stað, vekur Jón upp draug og sendir Magnúsi. Draugurinn átti að drepa hann á Sprengisandi, þegar hann færi heimleiðis.
Jón kemst klakklaust til galdramannsins, og segir hann, að hér sé við ramman reip að draga, því draugurinn muni vera mjög magnaður, en samt skuli hann muna sig um það að líta aldrei aftur á Sandinum, hvað sem honum heyrist ganga á fyrir aftan sig. Þá muni hann vera úr allri hættu. En ef hann verði svo óheppinn að líta aftur, þá verði hann að gæta þess að fara aldrei lengra frá bæ sínum en svo, að hann sjái hann, því líf hans liggi við. Magnús segist skuli vara sig. Svo leggur hann af stað og félagar hans, og segir ekki af förum þeirra, fyrr en þeir koma norður á Sprengisand. Þá fara þeir að heyra óttaleg ólæti á eftir sér. Þau eru ekki svo mikil fyrst, en fara alltaf vaxandi, og seinast er eins og allt ætli um koll að keyra. Stundum er orgað og grenjað, en stundum æpt og emjað, og enginn þeirra félaga hafði nokkurn tíma heyrt önnur eins óhljóð og gauragang. Þeir vissu, hvað við lá, ef þeir litu aftur, og stilltu sig um það lengi vel, en seinast heyrast þeim ólætin vera komin fast að þeim. Magnúsi verður það þá að líta við, og sér hann, hvar átján ófreskjur eru að berjast móti einni og varna henni að komast að þeim félögum, en jafnskjótt og hann hefur litið aftur, hverfur allt saman.
Þeir halda nú áfram leiðar sinnar, og ber ekkert til tíðinda framar. Magnús sest um kyrrt að búi sínu og verður ekki var við neina ásókn, enda fer hann að ráðum galdramannsins og fer aldrei lengra út af heimilinu en hann hafði kveðið á.
Sumarnótt eina vaknar Magnús við það, að fé er komið upp á bæinn. Hann hleypur út og ætlar að reka það burt, en hann hafði ekki tekið neinn hund með sér, svo féð gengur ekki undan honum nema fet fyrir fet. Ás var skammt frá bænum, og mátti ekki minna vera en hann ræki féð út fyrir hann, og svo var hann ákafur, að hann gætti þess ekki, að ásinn skyggði á bæinn.
Undir eins og Magnús var kominn út fyrir ásinn með féð, kemur draugurinn, ræðst á hann og drepur hann, eða að minnsta kosti fannst Magnús fyrir utan ásinn, steindauður, blár og blóðugur. Eftir þetta fer Jón að verða þunglyndur og undarlegur tiI geðsmunanna. Hann þorir aldrei að vera einn stundinni lengur og þar fram eftir götunum. Menn héldu, að það væri af því, að hann vissi upp á sig dauða Magnúsar.
Næsta vetur var Jón á ferð með öðrum manni. Þegar minnst að vonum varði, skall á þá blindöskubylur. Þeir voru langt frá bæjum, en beitarhús voru skammt frá þeim. Förunautur Jóns vildi halda til bæja, en Jón sagði, að sér væri svo illt, að hann treysti sér ekki til þess; þeir skyldu heldur reyna til að komast í beitarhúsin og liggja þar af sér hríðina. Það verður úr, að þeir halda þangað með heilu og höldnu. Þá er komið að kvöldi. Þeir leggjast niður í garðann. Jón segir við förunaut sinn, að þótt eitthvað nýstárlegt komi fyrir, þá skuli hann ekkert láta bæra á sér; þá muni hann ekki saka. Maðurinn spyr, hvað hann eigi við. Jón gefur ekkert út á það, en segir, að hann muni komast að því á morgun. Manninum sýnist svo Jón sofna, en sjálfur er hann að hugsa um það, sem Jón hafði sagt, og getur ekki sofnað.
Að nokkurri stundu liðinni heyrist honum vera kippt í Jón, og eftir því sem hann kemst næst, er hann dreginn niður í kró. Það var koldimmt í húsinu, svo hann sá ekki, hvað gerðist. Þá heyrist honum eitthvað krimta í Jóni, og ræður hann af því, að hann sé vaknaður. Þá byrja stimpingar miklar, og kemst félagi Jóns brátt að raun um það, að annar er miklu sterkari. Hann heyrir við og við, að Jón emjar og dæsir, og ræður hann af því, að hann fari halloka fyrir mótstöðumanni sínum. Þá heyrir hann, að farið er að lemja innan veggina eins og með blautum poka, og þykist hann vita, að það muni vera Jón, sem sé svo hart leikinn, en þorir ekki að bæra á sér. Þetta gengur nokkra stund. Þá korrar hræðilega í einhverjum, og svo dettur allt í dúnalogn. Þá hugsar maðurinn með sér, að nú sé Jón dauður. Hann var lafhræddur, meðan þessi ósköp dynja yfir, en þorir hvorki að hræra legg né lið.
Að dálítilli stundu liðinni heyrist honum það sé farið að tæta Jón í sundur. Það er eins og verið sé að brjóta bein og slíta sundur deigar dulur. Svo er farið að kasta þessum tætlum innan um allt húsið. Þetta gengur allt til morguns. Þá er mannauminginn nær dauða en lífi af hræðslu. Jafnskjótt og fór að birta, þaut maðurinn út úr húsinu. Þá var stytt upp. Hann komst klakklaust til byggða og sagði farir sínar ekki sléttar. Það var farið til húsanna, og sáust þá tætlur og flygsur af Jóni innan um allt húsið, allar saman kramdar og kreistar sundur.
Enginn vissi með vissu, hvernig á þessu stóð, því Jón átti marga óvini; en líklegast þótti, að hér hefði komið fram hefnd fyrir Magnús bónda.
Eftir þetta voru beitarhúsin lögð niður.
Netútgáfan - nóvember 1997