Síra Sæmundur Einarsson er fæddur að Kaldaðarnesi í Flóa, Eiríkssonar, Klængssonar, Eiríkssonar prests á Krossi í Landeyjum 1635-81, Þorsteinssonar. Hann fekk Útskálabrauðið 1812 og þjónaði þar til síns dauða er þannig að bar:Formaður sá er Einar hét og var Ásgrímsson hlóð sig í sjó. Um það kvað Jón prestur Hjaltalín:
- Megnan skaða mörgum bjó
- mikill auðs-ákafi
- að ofhlaða sig í sjó
- svoddan skeð þó hafi.
Þenna Einar rak upp og átti að jarðast þann 3. júlí 1826 og stóð fyrir því Jón dannebrogsmaður í Vörum - sem heldur vildi titilinn en launin.
Dróst það fram eftir öllum degi að líkið kom ekki, en presturinn beið ferðbúinn til Reykjavíkur. Komst hann ekki á stað fyrr en um nón; atlaði þá að senda hestana með Erlendi mági sínum á Lambastöðum, Erlendssonar á Bátsendum, inn til Reykjavíkur.
En er það heyrði Kristján Finnsson sýslumanns að Erlendur atlaði landveg stökk hann af skipi og fór með honum. Skildi þar milli feigs og ófeigs.
Með síra Sæmundi voru fimm menn úr heimili hans: Þorsteinn Snjólfsson uppeldis- og systursonur hans, Pétur og Jón sjómenn að norðan og tveir menn aðrir, Hólmfríður vanfær kvenmaður sem atlaði kynnisför til móður sinnar inn á Nes.
En er skipið fór úr vörinni var það ofhlaðið af háfermi, skreið og þess konar, og það svo ólánlega, að það lá á hnýfli, en skuturinn skrolldi.
Mælt var síra Sæmundur hefði farið með mikið af peningum sínum. En er þeir komu inn á sjó sofnaði presturinn. Hvessti hann þá á landsunnan. En er prestur vaknaði voru þeir komnir inn á Skerjafjörð og reru inn með löndum.
Vildi þá síra Sæmundur fara að slaga sig - þetta var um morguninn 4. júlí - en þar eð skipið var óliðlega og of hlaðið drakk það svo í sig sjó að framan að inn rann á milli allra keipa.
Segir þá Pétur svo frá - er einn komst af skipsbrotinu - að hann vissi ekki betur en Þorsteinn Snjólfsson gengi þá útbyrðis, en síra Sæmundur féll útbyrðis; sá hann ekki lengur til hans en svo að hann sökk á höfuðið og skaut ekki upp framar - eins og mælt er um alla drukkna menn er í vatn falla.
Jón bróðir hans komst á árar og hrakti vestur eftir sjó, en Hólmfríður, vanfæri kvenmaðurinn, sökk ekki og bar sig mjög aumlega sem vonlegt var; eins er og sagt um allar óléttar konur að þær sökkvi seint. Hefir hann svo frá sagt að sér hafi mest fundizt um að heyra til konunnar.
Pétur losnaði aldrei til fulls við skipið og komst upp með stýrinu og stóð upp með mastrinu svo að hann var í sjónum upp að kné því skipið marði í kafi.
Þannig var hann á sig kominn er Magnús Sigurðsson á Bakka - sá er átti Solveigu Kortsdóttir er getið er í Þjóðsögunum - fann hann, þá á ferð til Reykjavíkur. Voru þá liðin til vissu tvö dægur frá því þeir drukknuðu. Var hann þá svo ringlaður orðinn öðru hverju að hann vissi ekki hvort hann var á þuru landi eður votu. Það var fram undan Akranesi er hann fann hann.
Þessi Pétur heitstrengdi að fara ekki oftar til sjós eður sjóróðra. Hann drukknaði þó nokkrum árum seinna suður í Njarðvíkum.
Enginn veit til vissu hvort hann hefir nokkurn tíma rekið. Þó er það mælt hann hafi rekið vestur á Mýrum höfuðlaus, en þekkzt af báðum fingurgullunum.
Eftir dauða Sæmundar prests var það ærið tíðrætt um það hér að hann hefði átt að ganga um híbýli heima á Útskálum svo að síra Brynjúlfur hefði ekki getað gengið þar um; hefði hann staðið við skáladyr, í skotum og göngum, en þó engum gjört mein, líkt og sagt er um Höfðabrekku-Jóku; áttu menn þó að falla í öngvit er hann sáu.
En móðir mín er þar ólst upp heyrði samt ekkert um það getið fyrr en hún kom hingað austur, jafnvel þó hún væri þar á næsta bæ, Lambastöðum.
Sama er og að segja um svonefndan Hafna-Grána að hún heyrði ekkert um hann getið, jafnvel þó Þórunn húsmóðir hennar væri gagnkunnug þar í Höfnunum. En strax er móðir mín kom hingað austur heyrði hún mikilvægar sögur um hann og afreksverk hans ærið stórfengileg.
Hætt er við að afturgöngusögur sé ekki á meiri rökum byggðar velflestar en þessar.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - maí 2001