SIGURÐUR  OG  TRÖLLIN



Einn tíma bjuggu hjón inn til dala fjarri öðrum mönnum. Þau áttu þrjá sonu: Jón, Halldór og Sigurð. Eitt sinn um haust var barið að dyrum hjá hjónum þessum. Bóndi gekk til dyra og sér að úti stendur tröllkall, hver eð heilsar bónda og segist kominn til að fá sonu hans Jón og Halldór fyrir smala. Bóndi játar því, þar hann þorði ekki að neita tröllinu.

Síðan fer kall með báða drengina burtu. En að hálfum mánuði liðnum kemur hann aftur og falar Sigurð. Bóndi spyr hvar hinir væri. Tröllið kvað þá báða dauða. Þá sagði bóndi sig einu gilda um Sigurð þar hinir væri dauðir þar hann aldrei hefði verið sér geðfelldur.

Síðan fer tröllkallinn burt með Sigurð; ganga þeir þann dag allan til kvölds og koma þá í helli mikinn. Þar var fyrir skessa, kona tröllkallsins. Hún fagnar kalli sínum vel og Sigurði. Er hann þar hjá þeim um nóttina.

En um morguninn er það allt snemma á fótum. Segist risinn nú skuli prófa Sigurð í dag; hefur hann síðan með sér út í lítinn skóg er þar var skammt burtu. Og sem þeir hafa gengið um stund fer risinn að leika sér að járnstöng sinni og hendir henni hátt í loft með annari hendi og hæfir hana svo með hinni, og sem hann hefur leikið um stund skipar hann Sigurði að leika á sama hátt og fær honum stöngina sína sem var úr járni. Var hún svo þung að Sigurður gat ei nema stutt hana svo hún félli ekki á jörðina.

Sigurður tekur við stönginni og horfir beint upp í loftið. Risinn spyr að hverju hann gæti þar uppi.

Sigurður mælti: "Ég atla að hæfa stönginni þinni upp í skýið sem þarna flýgur eftir loftinu."

"Æ, nei!" mælti risinn, "þá sé ég hana aldrei aftur því hún mun festast í skýinu."

Sigurður kvað hann rétt mæla og gjörði sig líklegan að skjóta stönginni, en risinn neyddi hann að gjöra það ekki og sagði sér hefði ei verið alvara að hann skyldi leika jafnvel og hann.

Síðan veiðir risinn dýr til matar sér um daginn og heldur svo heim um kvöldið. Kelling spyr hvernig Sigurður hafi dugað í dag, en risinn lét vel yfir því og kvað hann vera efni í mesta íþróttamann og sagði henni alla söguna af leik þeirra. Síðan mötuðust þau og fóru síðan að sofa.

Um morguninn mælti kelling að Sigurður skyldi nú heima vera hjá sér í dag og lét kall það eftir henni, og sem hann er farinn tekur kelling að elda og skipar Sigurði að sækja sér vatn. Hann spyr hvar föturnar séu. Kelling kvað þær standa fram við hellisdyr.

Sigurður fer og hyggur að og sér þar standa tvö stokkakeröld sem hann fær hvergi hrært, því síður borið. Hann fer aftur til skessunnar og segist ekki sjá nema svo litlar fötur sem hann geti ei fengið sig til að sækja vatn í; hann segist heldur vilja fara og sækja brunninn með öllu vatninu og bera til hennar.

"Æ, nei!" mælti skessan, "þá skemmir þú allt sem er í hellinum; ég vil heldur sækja sjálf vatnið;" og það gjörði hún.

Þar næst skipar hún Sigurði að sækja sér eina taðskán sem sé á hellisbaki. Sigurður fer enn og hyggur að og sér þar mikinn taðhlaða með svo stórum skánum að hann hrærir þær ei, fer aftur til kellingar og segist ei sjá nema svo litla taðmola sem hann geti ei fengið sig til að bera inn til hennar. Hún kvað sér nægja eina skán, en Sigurður vill bera allan hlaðann í einu til hennar.

Skessan biður hann ei slíkt gjöra því hún sé hrædd um að þá kunni að kvikna í taðinu; - "vil ég heldur fara sjálf," mælti hún og það verður.

Nú kemur risinn heim um kvöldið og spyr hvernig Sigurður hafi dugað henni í dag. Hún lætur mikið af því og segir honum frá öllum þeirra viðskiptum um daginn.

Kvöldið eftir sem þau kall og kelling hyggja Sigurð sofnaðan eggjar hún kall sinn að drepa Sigurð þá nótt; segir hún það auðséð að ef hann verði lengi hjá þeim muni hann drepa þau, en setjast að fjármunum þeirra. Binda þau þetta fastmælum að drepa Sigurð, en hann heyrði ráðagjörð þeirra og býst um eftir föngum.

Fer hann nú undir rúmið, en lætur járnbút í rúmið aftur. Síðan líður að miðri nótt. Heyrir hann þá að risinn staular á flakk og tekur öxi mikla sem hann átti og leggur tveim höndum í rúm Sigurðar svo söng við í járnbútnum; síðan leggst hann niður aftur.

En um morguninn vaknar Sigurður seint. Hafði hann áður heyrt þau tala um að hann mundi aldrei framar vakna. En er þau sjá hann vakna verða þau hissa. Risinn spyr hvort hann hafi engis orðið var í nótt, en Sigurður neitar því. Samt segir hann sér hafi fundist því líkt sem laufblað félli ofan á sig í nótt og kveðst þá hafa vaknað við það.

Þá mælti skessan við kall sinn í hljóði: "Á, svei! Sagði ég þér ei þetta; hann verður hreint óvinnandi!"

Síðan báðu þau hann að fara heim aftur til foreldra sinna, en hann neitar því og segir sér þyki svo gott að vera hjá þeim að hann vilji aldrei frá þeim fara.

En næstu nótt eftir heyrir Sigurður að skessan segir kallinum að bjóða Sigurði fé til að fara heim aftur; og gjörir kall þetta, en Sigurður neitar enn að fara. Samt lætur hann það eftir með þeim skilmála að risinn láti hann hafa ákveðinn sekk sem hann til tekur, fullan af gulli, silfri, klæðum og matvælum, og er risinn hefur troðið þessu í fullan sekkinn segir hann Sigurði að fara með hann; en Sigurður skipar risanum að bera hann sjálfur, ella kveðst hann þá hvergi fara.

Verður nú risinn nauðugur að bera sekkinn heim til Sigurðar og var nærri dauður; svo var sekkurinn þungur. Síðan snýr risinn aftur heim til sín og varð feginn að verða af með Sigurð. Varð hann og aldrei var við risann eftir þetta, en sjálfur varð Sigurður ágætismaður og þótti mjög hafa vaxið í þessari ferð. Og lýkur svo frá honum að segja.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - nóvember 1999