Það er í frásögnum haft á Austurlandi að fyrr á tíð var skessa ein í Mjóafirði og bjó í gili því sem kallað er ennþá Prestagil og liggur í suðurfjalli í Fjarðarlandi. Hún nam í burtu presta tvisvar á jólanótt, sinn í hvert skipti, er hétu Snjólfur og Tómás.Hún kom að kirkjunni þá byrjuð var messugjörð og lét öllum illum látum kringum kirkjuna með óhljóðum og harki. Við þetta ærðust prestar og æddu út í greipar henni.
Kunna menn þulur eftir þá er þeir bæði tónuðu og mæltu fram af stól áður út hlupu, svo sem þetta, þá tónaður var hálfur pistillinn sögðu þeir:
- "Ef öll vötn væru orðin að einu vatni
- þá yrði það stórt og mikið vatn,
- og öll fjöll að einu fjalli
- þá yrði það stórt og mikið fjall,
- og allir steinar að einum steini
- þá yrði það mikill steinn,
- og allir menn að einum manni
- þá yrði það stór og mikill maður.
- Og ef þessi mikli maður
- og mikli steinn
- og mikla fjall
- dyttu ofan í það mikla vatn
- þá yrði það mikill dynkur."
Þá hélt söfnuðurinn þeir mundu taka ræðuefni út af þessu, en þá tónuðu þeir:
- "Taki þið úr mér ilin og svilin,
- fram ætla ég í Mjóafjarðargilið;
- taki þið úr mér langann og svangann,
- fram ætla ég í gilið að ganga."
Þetta áttu þeir að tóna:
- "Guðrún mín reið til Miklabæjar í gær
- og reið í öllum reiðtygjum sínum,
- og á honum góða Rauð mínum;
- en þá kom vindur af austri og vestri
- og fleygði henni Guðrúnu minni
- úr söðlinum,
- svo hún datt flöt á jörðina.
- En það segi ég yður,
- að svo sem hún Guðrún mín
- var völt í söðlinum í gær,
- svo er og einnig valt
- veraldarhjólið."
Þetta tónað:
- "Nú fer að líða undir það
- að konur fari að sjóða
- handa bændum sínum
- rytjur og snytjur
- og allt það sem feitast er;
- leggja þær upp á diskinn
- langlegginn og mjöðmina
- og breiða þar út yfir eina góða síðu;
- en svo sem sú góða síða
- breiðist út yfir fatið
- svo bið eg einnig að þetta mitt orð
- breiðist út yfir yður."
Talað af stól:
- "Vinnumaðurinn minn,
- er kýrin mín borin?"
- Vinnumaður segir:
- "Já, hún er borin."
- Prestur segir:
- "Hvört er það griðungur grár eða annað?" "
- Vinnumaður segir:
- "Það er griðungur grár."
- Prestur segir:
- "Hamingju sé lof fyrir griðunginn grá
- sem kominn er í staðinn inn,
- og hér endar pistillinn."
Og þetta:
- "Músin sest á altarið,
- hatteygð, tatteygð,
- rófulöng og trýnismjó."
Þá köstuðu þeir handbókinni og æddu út í messuklæðunum í greipar skessunni, sem hljóp burtu með þá, og sáust ekki framar, en messuskrúðinn fannst á steini, sem er neðan við gilsmynnið sem síðan er nefndur Skrúðasteinn, en gilið Prestagil.
Eitt sinn er þess getið að Fjarðarsmalinn gekk að sauðum nálægt nefndu gili. Sá hann þá hvar skessan sat á steini niðri í gilinu og hélt á einhvörju.
Hann kallar til hennar og segir: "Hvað ertu að gjöra, kelling?"
Hún leit upp til hans og sagði: "Ég er að kroppa um höfuðskel Tómasar prests," því skammt var liðið frá því hún tók hann.
Hún gekk um í Mjóafirði eins um bjartan dag. Eitt sinn mætti smalinn henni; hún kom þá utan frá sjó og hafði hnísu á baki; hann kallaði til hennar og sagði: "Þú átt ekki að stela, kelling."
Hún sagði: "Ég svöng verð að gjöra það."
Þetta og margt fleira höfðu menn fyrrum í frásögum af Mjóafjarðarskessu.
Liðu svo mörg ár að enginn prestur áræddi að flytja messu í Mjóafjarðarkirkju á jólanótt uns Eiríkur prestur Sölvason frá Þingmúla varð til þess. Hann getur þess á einum stað, þar sem hann skrifar hve marga hann skírði, fermdi, ektavígði og jarðsöng, með þessum orðum: "Þá messaði ég fyrir guðs náð í Mjóafirði"
Áður byrjuð var messugjörðin lagði prestur fyrir að sex menn skyldu liggja á hurðinni ef óvætturinn kæmi, en aðrir segja að kistur þrjár væru settar hvor ofan á aðra og Fjarðarbóndinn, sem Jón hét, sæti á efstu kistunni; hann var kallaður tveggja maki að afli. Fjórir skyldu hringja klukkunum til skiptis; en meðhjálparanum skipaði prestur að tala snöggt til sín ef sér yrði orðfall, sem varð tvisvar.
Þá átti skessan að grenja upp svo allir heyrðu: "Ekki hræðist ég þó hundar ykkar gelti" Hún öslaði í kringum kirkjuna með óhljóðum og alls konar illum látum eftir að prestur var kominn í stólinn. Tvisvar skyggði hún með loppunni á stólgluggann, og sagði prestur svo frá að þá hefði legið við að koma fát á sig, en meðhjálparinn kallaði þá hátt og sagði: "Ætlarðu nú að þagna séra Eiríkur?"
Klukkunum var hringt af kappi, en undir það að prestur fór ofan úr stólnum stökk hún upp á kirkjugarðinn og sprengdi stykki úr honum og sagði: "Stattu aldrei." Þar varð eftir skór hennar brugðinn úr tágum, sem lengi var sorptrog í Firði og það fyrstu ár Hermanns, sem dáinn er fyrir rúmum tuttugu árum. Þeir menn sem reynt hafa til að vanda sem best hleðslu á garðstykki því sem skessan steig úr garðinum segja það geti aldrei staðið.
Séra Eiríkur var Sölvasonur prests frá Möðrudal og Jarðþrúðar Sigfúsdóttur Tómassonar prests frá Hofteigi; eitt hans barna var Vilborg kona Halls Einarssonar bónda í Njarðvík, fyrirtakskona, móðir þeirra bræðra Eiríks og Sigurðar, hvörra ættmenn eru nú margir á Austurlandi. Einn þeirra er Stefán sýslumaður í Ísafjarðarsýslu.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - september 1999