Þórður hefur prestur heitið; sá hélt Grenjaðarstað. Áliðnu einn dag á engjaslætti um sumarið kom prestur þessi út; þá sá hann einhvurja mannsmynd koma yfir hálsinn, so sem frá Múla, og hafði strax grun af hvað vera mundi og gekk upp.Unglingsmaður að nafni Jón, kallaður skumpa, var að berja fisk á baðstofugólfi, en prestkonan var frammi að skammta miðdegismatinn, en fólk flest á engjum.
Prestur talaði til Jóns þá hann gekk inn hjá: "Stórhöggur ertu núna, Jón minn."
Svo fór hann upp í hús sitt og ætlaði að ná í kistil sem hann átti þar með einhverjum blaðaskræðum í, en gat það ekki því þessi mynd sem hann sá úti var komin, sem var draugur, og gjörði út af við prest á vörmu spori.
Jón heyrði að hann rak upp mikið hljóð; í sama bili kom prestkonan inn, en þá var prestur dauður. Hún horfði á þennan óvætt og fólk sem inni var eins og lifandi maður væri, þá hann fór út aftur.
Einni nóttu síðar var vinnumaður á Grenjaðarstöðum, að nafni Þorvaldur, drepinn. Hann var giftur og svaf hjá konu sinni fram í skála.
Þessi síra Þórður átti tvo bræður fyrir vestan. Þeir voru báðir prestar. Annar þeirra var síra Vernharður, langafi Þorkels á Víðirkeri, en hinn hét Þorkell.
Ekkja síra Þórðar lét strax sækja þessa bræður til að vera við jarðarför prests, en þá þeir komu á Skriðuháls og sáu yfir að Stöðunum þá er sagt að síra Vernharður hafi mælt: "Á, fórstu sona Þórður frændi?"
Sagt er að þeir hafi skoðað lík bróður síns og tekið af því eitthvað af hári og nöglum.
Á þessum sama tíma var síra Þorleifur Skaftason á Múla. Hann átti nokkur börn. Ein af dætrum hans hét Jórunn; hún varð ólétt áður hún giftist.
Það barn var kennt Ólafi nokkrum sem átti heima á Skútustöðum, en þá þetta vildi til höfðu þeir síra Þórður og vinnumaður hans Þorvaldur haft hana í spotti með þess háttar háðungarorðum að Múlakvígan hefði fengið við Skútustaðatarfinum.
Þessi háðungarorð bárust til Ólafs á Skútustöðum svo honum var eignaður draugurinn sem drap þessa Grenjaðarstaðamenn.
Ólafur þessi giftist barnsmóður sinni Jórunni. Þeirra sonur var Ari gamli er lengi bjó á Skútustöðum eftir föður sinn.
Litlu síðar eftir að síra Þórður var dáinn fór Ólafur á Skútustöðum að verða var við einhverjar slæðingar að vestan frá þeim bræðrum, en varði sig fyrir því með kunnáttu sinni um nokkur ár þar til hann að áliðnu sumri fór út á Húsavík, en þá hann kom að utan á bökkunum fyrir utan Helgastaði þá réðist þessi óvættur á hestinn sem hann reið.
Hann ætlaði að reyna til að hjálpa hesti sínum, en það var forgefins; hesturinn drapst, en Ólafur veiktist, komst þó gangandi heim að Helgastöðum.
Þá var þar prestur síra Jón Jónsson, afi síra Jóns Þorsteinssonar sem var í Reykjahlíð.
Ólafur sagði presti frá og sagði þetta mundi verða sitt dauðamein og bað prest að koma upp að Skútustöðum þegar hann væri dauður og syngja yfir sér.
Svo komst hann heim og lagðist í rúmið og lá þunglega haldinn um haustið og veturinn fram á útmánuði, þá deyði hann, og þá fór síra Jón á Helgastöðum upp að Skútustöðum og gjörði mikla ræðu yfir kistunni með söng og serimoníum.
Varð svo aldrei vart við neinar óhreinindaslæðingar framar meir. - Búin er sagan.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - maí 2001