Í hittiðfyrra (sagan er rituð 1862) var þannig varið að á Kverkártungu var tvíbýli; hét annar bóndinn Stefán Hansson, kominn úr Skagafirði, en hinn Páll Pálsson bókbindari. Á þorra flosnaði Stefán upp og var tekinn þaðan með öllu, en nokkru fyrr hafði Páll bágra kringumstæða vegna látið konu sína á annan bæ og börnin og var því orðinn einn eftir á bænum.Á þorraþrælinn vildi svo til að Páll var að taka hey í kumli. Heyrði hann þá högg úti sem hann ætlaði í fyrstu að væri misheyrn, en þegar hann heyrði að það var ekki, ímyndaði hann sér að hestar væru að berjast í hesthúsi sem þar var. Þegar hann kom út heyrði hann ekkert. Sama kvöldið eða litlu síðar heyrði hann barið ofan í baðstofuna og upp frá því það sem eftir var vetrarins heyrðist þetta öðru hvoru nótt og dag. Annað veifið heyrðust inni um leið og höggin úti brestir líkt og þegar votar spýtur brenna; þetta var allt í kringum hann. Einu sinni sat hann t. d. á stól; heyrðist honum það vera undir stólnum.
Af þessu fór svo að hann varð svo hræddur að hann þorði varla eða ekki að sofna. Bráðum fékk hann sér mann af öðrum bæjum til þess að hann gæti sofnað og eins til að komast eftir hvað þetta væri, en það tókst ekki. Maðurinn var þar tvær eða þrjár nætur í senn, nokkuð hugarhress þó eitthvað ábjátaði.
Einu sinni var hann inni hjá Páli um dag og var heldur kalt. Sagði þá Páll við hann: "Máske þú viljir fara fram í dyr og mala ögn þér til hita?"
Þetta gjörði hann, en þegar hann var farinn að mala kom högg í þil sem var innan við kvörnina. Þá sagði maðurinn : "Berðu, bölvaður."
En hvort sem það hefir verið af hlýðni eða þykkju lét draugsi ekki segja sér þetta tvisvar; hann fór að berja, og það svo óþyrmilega að manninum þókti nóg um og hætti malverkinu.
Í öðru sinni var sami maður inni hjá Páli um eða eftir dagsetur. Heyrðu þeir þá að barið var ofan í baðstofuna. Þá sagði aðkomumaðurinn: "Berðu nú."
Draugsi gerði þegar í stað eins og honum var sagt og danglaði til miðnættis hér um bil. Svo var hann þá þunghöggur að allt skalf undir og rúmið sem á var setið þókti hristast. Þó fór hann næst um það að brjóta ekki og ekki láta bresta í viðum hússins.
Aldrei held ég hann (draugurinn?) hafi tekið sig til fulls eftir þessa barsmíð, en bæði þar og annarstaðar sem Páll kom heyrðust högg, en ekki eins afskapleg. Þessi sami maður (Gestur) gekk eitt sinn út; varð honum þá snögglega óglatt og fékk uppkast um það leyti sem hann komst út á hlaðið. Sama vildi öðrum manni til sem var þar nætursakir og lagðist í rúm Páls, en óglatt sagði hann sér hefði verið áður hann lagðist út af. Í báðum sinnum þóktist hann verða þess áskynja að vofan sveimaði nálægt þeim.
Þegar fram á leið fór kona Páls smásaman að vera hjá honum og voru þá brestirnir oftast nálægt henni og var Páll smeykur um að hún mundi verða of hrædd og þorði aldrei að láta hana vera eina. Það vildi til þegar fram á sumarið kom að þau hjón voru þar bæði og Gestur sá sem malaði fyrr. Þurfti þá Páll að svipa sér til kinda, en þau voru á meðan í baðstofu og draugsi með. Fór hann þá að bresta eins og hann væri óður og ær, en Gestur vildi vera trúr og passa konuna fyrir honum, ætlaði sér að reka vogestinn burt, en hann fór sér ekki harðara en það að hann skaust sem andi úr einum stað í annan, sýndi það með brestunum að hann var nálægur þangað til Páll kom. -
Það var segin saga að aldrei var draugurinn lengi nálægt Páli, en hafði sig burt þegar Páll hreyfði sig og fór þangað sem honum virtist vofan vera. Páll hafði veður af eða þóktist hafa hvar vofan væri í hvert sinn sem hún gerði vart við sig. Ætíð þegar hætti brestunum inni heyrðust höggin úti, oft eða oftar tvö og tvö, líkt og annað bareflið færi á loft er annað gekk niður.
Eitt sinn var það um veturinn að áliðnu að Páll var einsamall. Ætlaði hann, eins og varð, að hafast þar við um nóttina. Frost var mikið svo glugginn var margfaldur af hélu og gluggatrogið eins. Kveikti hann nú ljós og lét lifa hjá sér, lagði sig því næst niður og breiddi yfir sig, en ekki þorði hann að sofna. Heyrðist honum þá vera farið að leka og var sem dropinn dytti í vatn. Hugsaði hann þá með sér hvort það gæti verið að hélan hefði bráðnað svo af ljósylnum að lekið gæti, og fór að gá að því, en sá þess engin vegsummerki. - Þetta er hið helsta af heimilisstörfum draugsins, en eftir er að minnast smávika hans þegar hann skreppur á bæina í kring.
Þegar Gestur fór frá Tungu út að Miðfjarðarnesseli heyrði annar bóndinn þar sem var staddur í kumli að barin voru nokkur högg ofan í það, en skömmu á eftir kom Gestur. Öðru sinni vildi það til að Páll og kona hans voru þar næturgestir. Svaf Páll hjá öðrum bóndanum, en kona hans hjá vinnukonu og hjónin önnur í húsi í baðstofunni. Allt fólkið lá vakandi nema Páll; hann var farinn að dotta. Heyrðust þá brestirnir ótt og títt og virtust þeir vera í húsinu undir eða nálægt borðinu. Þetta heyrðu þeir allir glöggt sem vöktu og höfginn rann af Páli. Fór hann þá litlu síðar á fætur og lét greipur kringum borðið og bar þá ei á þessu framar.
Sá var og munurinn þar og í Tungu að ekki heyrðust höggin úti sem komu á svipstundu þegar brestunum linnti inni. Í þriðja sinn var það að vinnukona sú sem fyrr var getið lá vakandi í rúmi sínu um nótt og heyrði einhverstaðar frammi eða úti barin fjögur högg mikil, enda kom Páll morguninn eftir.
Oft um veturinn eftir að þetta kom upp var Páll yfir á Fossi sem er skammt þaðan hinumegin árinnar til þess að geta sofnað því það þorði hann aldrei einn í Tungu. Heyrðust þar þá högg úti og brestir inni, en nokkuð minna, ætla ég.
Konan fór frá Páli um haustið algjörlega og að Gunnarsstöðum til foreldra sinna, en Páll hefst við í Tungu, og þykir sem vofan framar eða oftar muni vera hjá henni því í kringum hana heyrast oft brestir, högg sjaldnar, en nokkrum sinnum hefir heyrst eins og ákafleg stórrigning stangaði í gluggana, en þegar út hefir verið komið hefir verið þurviðri.
Á mörgum bæjum þar sem Páll hefir komið þykjast menn lítils eða einskis verða varir; helst hefir það viljað til í Miðfirði.
Seinast var það nú fyrir skemmstu að tvö högg afar mikil heyrðust um nótt svo allt fólk fullorðið hrökk upp af svefni. Heyrði það þá litlu síðar tvö mikið minni. Um morguninn kom tengdafaðir Páls frá Gunnarsstöðum. Þetta er víst stórkostlegasta athöfn draugsa síðan fyrsta veturinn þegar hann tók til spánnýr og ólúinn nema ef vera skyldi af ferðaslarki um hávetur.
Jón Illugason hefir þannig sagt frá tildrögunum til þessarar sögu: "Það er að sönnu ekki þörf að greina frá tilgátum þeim sem um þetta eru. Sumir hafa sagt það væri ekkert annað en einhver maður, aðrir að það mundi vera sending og Páll hafi sagt sér mundi helst hafa verið ætlað þetta.
Mér sagði hann frá að tvisvar hefði þetta komist nærri sér í svefni. Í öðru sinni svaf hann fyrir framan mann og sagðist hann hafa sofnað athugalaust. Hefði hann þá heyrt brestina gegnum svefninn, en þegar hann hefði getað vaknað hefði það verið fast við rúmbríkina hjá andlitinu á sér. Öðru sinni hefði hann sofnað með sama hætti fyrir ofan mann og þá hefði sér fundist líkt og tekið væri utan að barkanum báðumegin og hann ei ætlað að ná andanum.
Seinast ætla ég að minnast á eina getu: Hann fékk sama daginn og hann varð þessa fyrst var bréf austan úr sveitum er sagði lát föður hans. Nóttina rétt áður dreymdi pilt, meina ég í Seli, að til sín kæmi strákur sem sagðist ætla að finna Pál. Ég man ekki meira af draumnum, en víst er að hann er sannur; pilturinn er greindur og að öllu leyti vandaður. -
Páll faðir Páls þessa bjó fyrir eina tíð í Eyjafirði; hann átti auk Páls annan son til. Þeir voru báðir á mis Sigurði nokkrum til fjárgeymslu um sumartíma, sína vikuna hver. Einn sunnudag sat bróðir Páls yfir og átti von á lausn um kvöldið, en Páll kom ekki svo drengurinn mátti aftur fara angraður með ánum til að sitja yfir þeim um nóttina. Hleypti hann þeim þá í nes eitt sem átti að verja fyrir skepnum sem engi.
Kom þá Sigurður frá kirkju og var honum sagt þetta, en hann fór á stað í bræði. Stefán nokkur sem þar var fór litlu síðar að vitja um. Þeir komu báðir aftur Sigurður og Stefán, en pilturinn hefir ei sést síðan og var hans þó leitað rækilega.
Þessi saga mun mörgum kunn í Eyjafirði og er hún greinilegri til en þetta. Geta nokkrir til að þetta muni af þeim rótum runnið; þar legg ég ekkert til."
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - nóvember 2000