Ég skrifa þér með blýant, því blek er ekki til,
og blaðið það er krypplað, og ljósið er að deyja.
En þegar þú færð bréfið, þá veistu hvað ég vil,
og veist að ég er heima, og í náttkjól meira að segja.
Ég svík þig ekki vinur og sendi þetta bréf
til að sýna þér að ég er hvorki hrædd við þig né gleymin.
Til að segja, til að segja, til að segja að ég sef,
undir súðinni að norðan, ég er svo voðalega feimin.
Í guðsbænum þú verður að ganga ósköp hljótt,
og gæta vel að öllu, hvort nokkur fer um veginn.
Læðstu inn um hliðið þegar líða fer á nótt,
og læðstu upp að húsinu eldhúsdyramegin.
Beint á móti uppgöngunni eru mínar dyr,
elsku vinur hægt,hægt, svo stiginn ekki braki.
Og þó þú hafir aldrei, aldrei farið þetta fyrr,
þá finn ég að þú kemur, og hlusta bíð og vaki.
Gættu að því að strjúka ekki stafnum þínum við,
og stígðu létt til jarðar og mundu hvað ég segi.
Það iðka sjálfsagt margir þennan ævintýrasið,
sem aldrei geta hist þegar birta fer að degi.
Opnaðu svo hurðina hún er ekki læst,
hægt elsku vinur það er sofið bak við þilið.
Í myrkrinu, í myrkri geta margir draumar ræst,
og mér finnst við líka eiga það skilið.
Ég veit að þú ert góður og gætir vel að þér,
og gengur hægt um dyrnar, farðu helst úr skónum.
Þá er engin hætta, þú mátt trúa mér,
þei, þei, húsið er fullt af gömlum ljónum.
Það grunar engan neitt svona í allra fyrsta sinn,
og engum nema þér skal ég gefa blíðu mína.
Og þó að ég sé feimin, þá veistu vilja minn,
og veist að ég er heima, þín elsku hjartans Stína.