Sálmur yfir víni
Guð lét fögur vínber vaxa.
vildi gleðja dapran heim.
Gefið hafði hann gnægðir axa
góðar hjarðir, nógan seim.
Þreyttust menn við bú að baksa
blóðið var svo dökkt í þeim
Þá lét drottinn vínber vaxa
vildi gleðja dapran heim.
Breiddist iðgrænn vafningsviður
við hans boð um aldinreit.
Höfgir klasar héngu niður.
Himinsól á skrautið leit.
Glumdi í lofti gleðikliður,
glóðu berin rauð og heit.
Breiddist iðgrænn vafningsviður
við hans boð um aldinreit.
Gleðjist, sagði hann, gullnar veigar
gera blóðið rautt og létt;
undan þeim hið illa geigar,
ef að þeirra er notið rétt.
Angur, þreyta og illir beygar
undan flýja á harða sprett.
Gleðjist, sagði hann, gullnar veigar
gera blóðið rautt og létt;
Aldrei sagði þengill þjóða:
Þú skalt ekki bragða vín.
Öllum vildi hann ætíð bjóða
ör og mildur gæðin sín.
Smána jafnt hans gáfu góða
Goodtemplar og fyllisvín.
Aldrei sagði þengill þjóða:
Þú skalt ekki drekka vín.
Ennþá blómgast iðgrænn viður,
ennþá blikar gullin veig.
Ennþá sendir sólin niður
síung bros um aldinteig.
Enn má sætur söngva kliður
senda í Niflheim drunga og geig.
Ennþá blómgast iðgrænn viður,
ennþá blikar gullin veig.
Höfundur: Hannes Hafstein.