Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Komdu inn í kofann minn

Komdu inn - í kofann minn,
er kvölda og skyggja fer.
Þig skal aldrei iðra þess
að eyða nótt hjá mér.
Við ævintýraeldana
er ýmislegt að sjá,
og glaður skal ég gefa þér
allt gullið sem ég á,

tíu dúka tyrkneska
og töfraspegla þrjá
níu skip frá Noregi
og naut frá Spáníá,
austurlenskan aldingarð
og íslenskt höfuðból
átta gráa gæðinga
og gylltan burðarstól,

fjaðraveifu fannhvíta
og franskan silkikjól,
eyrnahringi, ennisspöng
og alabastursskrín,
hundrað föt úr fílabeini
full með þrúguvín
og lampa þann, sem logaði
og lýsti Aladdín.

Komdu inn í kofann minn,
er kvölda og skyggja fer.
Alltaf brennur eldurinn
á arninum hjá mér.
Ég gleymdi einni gjöfinni,
og gettu, hver hún er.
Ég gleymdi bestu gjöfinni,
ég gleymdi sjálfum mér.

Erl. lag / Davíð Stefánsson