Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Vorkvöld í Reykjavík

Svífur yfir Esjunni sólroðið ský,
sindra vesturgluggar, sem brenni í húsunum.
Viðmjúk strýkur vangana vorgolan hlý,
vaknar ástarþráin í brjóstum á ný.
Kysst á miðju stræti er kona ung og heit,
keyra rúntinn piltar, sem eru í stelpuleit,
Akrafjall og Skarðsheiði eins og fjólubláir draumar.
Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík.

Tjörnin liggur kyrrsæl í kvöldsólarglóð
kríurnar þótt nöldri og bjástri í hólmanum.
Hjúfra sig á bekkjunum halir og fljóð,
hlustar skáldið Jónas á þrastanna ljóð.
Dulin bjarkarlimi á dúnsins mjúku sæng
dottar andamóðir með höfuð undir væng.
Akrafjall og Skarðsheiði eins og fjólubláir draumar.
Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík.

Hljótt er kringum Ingólf og tæmt þar hvert tár
tryggir hvíla rónar hjá galtómum bokkunum.
Svefninn er þeim hóglega siginn á brár,
sunnanblær fer mildur um vanga og hár.
Ilmur er úr grasi og angan moldu frá,
aftansólin purpura roðar vestursjá.
Akrafjall og Skarðsheiði eins og fjólubláir draumar.
Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík.

Sigurður Þórarinsson / Evert Taube