Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Litla kvæðið um litlu hjónin

Við lítinn vog, í litlum bæ
er :,: lítið hús. :,:
Í leyni inní lágum vegg
er :,:lítil mús.:,:
Um litlar stofur læðast hægt
og lítil hjón,
því lágvaxin er litla Gunna
og litli Jón.

Þau eiga lágt og lítið borð
og :,:lítinn disk :,:
og litla skeið og lítinn hníf
og :,:lítinn fisk :,:
og lítið kaffi, lítið brauð
og lítil grjón. -
því lítið borða litla Gunna
og litli Jón,

Þau eiga bæði létt og lítil
:,: leyndarmál :,:
og lífið gaf þeim lítinn heila
og :,: litla sál. :,:
Þau miða allt sitt litla líf
við lítinn bæ
og lágan himin, litla jörð
og lygnan sæ.

Þau höfðu lengi litla von
um :,:lítil börn :,:
sem léku sér með lítil skip
við :,:litla tjörn, :,:
en loksins sveik sú litla von
þau litlu flón,
og lítið elskar litla Gunna
hann litla Jón.

Páll Ísólfsson / Davíð Stefánsson